Önnur Mósebók
19 Í þriðja mánuðinum eftir að Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi komu þeir í óbyggðir Sínaí. 2 Þeir komu þangað sama dag og þeir lögðu upp frá Refídím+ og settu upp búðir sínar í óbyggðunum nálægt fjallinu.+
3 Móse gekk upp á fjallið til hins sanna Guðs og Jehóva kallaði til hans af fjallinu:+ „Þetta skaltu segja Ísraelsmönnum, afkomendum Jakobs: 4 ‚Þið hafið sjálf séð hvað ég gerði Egyptum,+ hvernig ég hef borið ykkur á arnarvængjum og flutt ykkur til mín.+ 5 Öll jörðin tilheyrir mér+ og ef þið hlýðið mér í einu og öllu og haldið sáttmála minn verðið þið sérstök* eign mín meðal allra þjóða.+ 6 Þið verðið mér konungsríki presta og heilög þjóð.‘+ Þetta er það sem þú átt að segja Ísraelsmönnum.“
7 Móse kallaði nú saman öldunga fólksins og flutti þeim öll þessi fyrirmæli Jehóva.+ 8 Þá svaraði allt fólkið einum rómi: „Við viljum gera allt sem Jehóva hefur sagt.“+ Móse fór strax og flutti Jehóva svar fólksins. 9 Jehóva sagði við Móse: „Ég kem til þín í dimmu skýi og tala við þig þannig að fólkið heyri. Þá mun það alltaf treysta þér líka.“ Móse greindi síðan Jehóva frá því sem fólkið hafði sagt.
10 Þá sagði Jehóva við Móse: „Farðu til fólksins. Helgaðu það í dag og á morgun og segðu því að þvo fötin sín. 11 Það á að vera tilbúið á þriðja degi því að á þriðja degi stígur Jehóva niður á Sínaífjall í augsýn allra. 12 Þú skalt setja fólkinu mörk allt í kringum fjallið og segja: ‚Varist að fara upp að fjallinu eða snerta fjallsræturnar. Ef einhver snertir fjallið skal hann deyja. 13 Enginn má snerta hinn brotlega heldur á annaðhvort að grýta hann eða skjóta.* Hvort heldur það er maður eða skepna liggur dauðarefsing við.‘+ En þegar fólkið heyrir blásið í hrútshorn+ má það koma upp að fjallinu.“
14 Móse gekk niður af fjallinu til fólksins. Hann helgaði fólkið og það þvoði fötin sín.+ 15 Hann sagði: „Verið tilbúin á þriðja degi. Haldið ykkur frá kynlífi.“*
16 Að morgni þriðja dags komu þrumur og eldingar, þykkt ský+ lá yfir fjallinu og mjög sterkur hornablástur heyrðist. Allir í búðunum skulfu af hræðslu.+ 17 Móse leiddi nú fólkið út úr búðunum til móts við hinn sanna Guð og það tók sér stöðu við fjallsræturnar. 18 Allt Sínaífjall var hulið reyk því að Jehóva steig niður á það í eldi.+ Reykurinn steig upp eins og reykur úr brennsluofni og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.+ 19 Hornablásturinn varð sífellt sterkari, Móse talaði og hinn sanni Guð svaraði honum hárri röddu.
20 Jehóva steig nú niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Síðan kallaði Jehóva Móse til sín upp á tindinn og hann fór upp þangað.+ 21 Jehóva sagði við hann: „Farðu niður og varaðu fólkið við því að reyna að ryðjast í gegn til að sjá Jehóva. Annars eiga margir eftir að deyja. 22 Og prestarnir, sem ganga reglulega fram fyrir Jehóva, skulu helga sig til að Jehóva refsi þeim ekki.“*+ 23 Móse sagði þá við Jehóva: „Fólkið getur ekki komið upp að Sínaífjalli vegna þess að þú varst búinn að vara við því og segja: ‚Settu mörk kringum fjallið og helgaðu það.‘“+ 24 En Jehóva sagði við hann: „Farðu niður og komdu svo aftur hingað upp, þú og Aron með þér, en láttu ekki prestana og fólkið ryðjast í gegn og koma upp til Jehóva svo að hann refsi þeim ekki.“+ 25 Móse gekk þá niður af fjallinu og sagði fólkinu þetta.