Jehóva – besti vinur okkar
„Abraham ... var kallaður vinur Guðs.“ – JAK. 2:23.
1. Hvað getum við gert þar sem við erum sköpuð eftir mynd Guðs?
OFT er tekið svo til orða að sonur sé lifandi eftirmynd föður síns. Og vissulega er algengt að börn séu nauðalík foreldrum sínum. Það er nú einu sinni svo að þau fá gen frá báðum foreldrunum. Jehóva, faðir okkar á himnum, er uppspretta lífsins. (Sálm. 36:10) Og við sem erum jarðnesk börn hans líkjumst honum að vissu marki. Við erum sköpuð eftir mynd hans þannig að við erum fær um að rökhugsa, draga ályktanir, mynda vináttutengsl og viðhalda þeim. – 1. Mós. 1:26.
2. Á hvaða grundvelli getum við átt Jehóva að vini?
2 Jehóva getur verið besti vinur okkar. Sú vinátta byggist á kærleika hans til okkar og því að við trúum á hann og son hans. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Fjöldi fólks hefur átt innilegt samband við Jehóva. Við skulum líta á tvö dæmi.
,ABRAHAM, VINUR MINN‘
3, 4. Hver var munurinn á vináttu Abrahams og vináttu afkomenda hans við Jehóva?
3 Jehóva talaði um Abraham, ættföður Ísraelsmanna, sem vin sinn. (Jes. 41:8) Hann er einnig kallaður vinur Guðs í 2. Kroníkubók 20:7. Á hverju byggðist langvarandi vinátta Abrahams við skapara sinn? Hún byggðist á trú hans. – 1. Mós. 15:6; lestu Jakobsbréfið 2:21-23.
4 Ísraelsmenn til forna, afkomendur Abrahams, áttu Jehóva upphaflega að föður og vini. Því miður glötuðu þeir vináttu Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hættu að trúa á fyrirheit hans.
5, 6. (a) Hvernig varð Jehóva vinur þinn? (b) Hvaða spurninga er gott að spyrja sig?
5 Því betur sem þú kynnist Jehóva því sterkar trúir þú á hann og því heitar elskarðu hann. Rifjaðu upp hvernig þér var innanbrjósts þegar þú uppgötvaðir að Guð væri raunveruleg persóna sem þú gætir átt að nánum vini. Þú komst að raun um að allir menn fæðast syndugir vegna óhlýðni Adams. Þú áttaðir þig á að mannkynið í heild er fjarlægt Guði. (Kól. 1:21) Síðan rann upp fyrir þér að ástríkur faðir okkar á himni er ekki fáskiptinn, fjarlægur og áhugalaus um okkur. Þegar við skildum að hann gaf son sinn Jesú að fórn og fórum að trúa á lausnarfórnina byrjuðum við að mynda vináttutengsl við Guð.
6 Þegar við lítum um öxl og rifjum upp hvernig við kynntumst Jehóva ættum við að spyrja okkur: Er ég að styrkja vináttuböndin við Jehóva? Ber ég fullt traust til Jehóva og fer trú mín vaxandi? Glæði ég kærleikann til Jehóva, vinar míns, dag frá degi? Gídeon átti náin vináttutengsl við Jehóva forðum daga. Við skulum lesa okkur aðeins til um hann og reyna að líkja eftir honum.
,JEHÓVA ER FRIÐUR‘
7-9. (a) Fyrir hvaða einstöku lífsreynslu varð Gídeon og hvaða áhrif hafði hún á hann? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvernig getum við fundið fyrir vináttu Jehóva?
7 Gídeon dómari þjónaði Jehóva á ólgutímum í sögu Ísraels eftir að þjóðin settist að í fyrirheitna landinu. Í 6. kafla Dómarabókarinnar segir frá því að engill Jehóva hafi komið til Gídeons í Ofra. Um þær mundir stafaði Ísraelsmönnum veruleg hætta af grannþjóð sinni, Midíanítum. Gídeon var að þreskja hveiti en gerði það ekki úti á akri heldur í vínþröng þar sem hægt var að fela dýrmætt hveitið með hraði fyrir Midíanítum ef á þurfti að halda. Honum varð hverft við þegar engill birtist og ávarpaði hann: „Hugrakki hermaður“. Gídeon var efins um að Jehóva myndi hjálpa Ísraelsmönnum núna, þó svo að hann hefði frelsað þá úr Egyptalandi á sínum tíma. Engillinn talaði fyrir munn skaparans og fullvissaði Gídeon um að Jehóva myndi hjálpa honum.
8 Gídeon er spurn hvernig hann eigi að geta frelsað Ísrael „úr höndum Midíans“. Jehóva gaf honum mjög skýrt svar við spurningunni: „Ég verð með þér og þú munt sigra Midíaníta alla sem einn.“ (Dóm. 6:11-16) Eflaust er Gídeon enn að velta fyrir sér hvernig þetta geti gerst og biður Guð að gefa sér tákn. Við tökum eftir að þessar samræður bera með sér að Gídeon efast ekki um að Jehóva sé raunveruleg persóna.
9 Það sem gerðist í framhaldinu styrkti trú Gídeons og tengsl hans við Guð. Hann matbjó og færði englinum máltíðina. Engillinn snerti matinn með staf sínum og kom þá eldur og eyddi matnum. Gídeon var nú viss um að engillinn væri fulltrúi Jehóva. Hann hrópaði óttasleginn: „Vei mér, Drottinn Guð. Ég hef séð engil Drottins augliti til auglitis.“ (Dóm. 6:17-22) Kom þessi atburður niður á vináttu Gídeons og Jehóva? Þvert á móti. Gídeon var sáttur og fann fyrir innri friði. Við vitum það vegna þess að hann reisti altari á þessum stað og kallaði það ,Jehóva er friður‘. (Lestu Dómarabókina 6:23, 24.) Þegar við hugleiðum það sem Jehóva gerir fyrir okkur á hverjum degi áttum við okkur á að hann er sannur vinur. Að biðja reglulega til Jehóva veitir okkur innri frið og vináttan við hann verður nánari.
HVER FÆR AÐ ,LEITA HÆLIS Í TJALDI JEHÓVA‘?
10. Hvaða skilyrði setur Jehóva þeim sem vilja vera vinir hans, samkvæmt Sálmi 15:3, 5?
10 Við þurfum þó að uppfylla ákveðin skilyrði til að njóta vináttu Jehóva. Í Sálmi 15 syngur Davíð um það sem við þurfum að gera til að fá að ,leita hælis í tjaldi Jehóva‘, það er að segja að vera vinir hans. (Sálm. 15:1) Beinum athygli okkar að tveim skilyrðum – að bera ekki út róg og vera heiðarleg á öllum sviðum. Davíð sagði að þeir sem Jehóva leyfði að gista í tjaldi sínu mættu ,ekki bera út róg með tungu sinni og ekki þiggja mútur í máli gegn saklausum‘. – Sálm. 15:3, 5.
11. Hvers vegna verðum við að forðast rógburð?
11 Í öðrum sálmi sagði Davíð: „Varðveit tungu þína frá illu.“ (Sálm. 34:14) Ef við færum ekki eftir þessum innblásnu leiðbeiningum kæmi það niður á vináttunni við réttlátan föður okkar á himnum. Rógburður er reyndar eitt þeirra verka sem einkennir Satan, erkióvin Jehóva. Orðið „djöfull“ er myndað eftir grísku orði sem merkir „rógberi“. Það hjálpar okkur að varðveita náin tengsl við Jehóva ef við höfum taumhald á tungu okkar þegar við tölum um aðra. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða bræður sem eru útnefndir til að fara með forystuna í söfnuðinum. – Lestu Hebreabréfið 13:17; Júdasarbréfið 8.a
12, 13. (a) Hvers vegna eigum við að vera heiðarleg á öllum sviðum? (b) Hvaða áhrif getum við haft á aðra með því að vera heiðarleg?
12 Þjónar Jehóva eru líka heiðarlegir og reyna ekki að hafa af öðrum það sem þeim ber. Páll postuli skrifaði: „Biðjið fyrir mér því að ég er þess fullviss að ég hef góða samvisku og vil í öllum greinum breyta vel,“ það er að segja heiðarlega. (Hebr. 13:18) Þar sem við erum ákveðin í að vera heiðarleg misnotum við ekki aðstöðu okkar í viðskiptum við trúsystkini. Segjum að við séum með trúsystkini í vinnu. Þá gætum við þess að vera sanngjörn við þau og borga þeim umsamin laun. Við erum heiðarleg við starfsmenn okkar og alla aðra. Og ef við erum ráðin í vinnu hjá trúbróður okkar ættum við ekki að reyna að nýta okkur það og ætlast til sérstakra fríðinda.
13 Fólk utan safnaðarins hrósar vottum Jehóva oft fyrir heiðarleika þeirra. Forstjóri stórs fyrirtækis í byggingariðnaði veitti því til dæmis athygli að vottar Jehóva eru orðheldnir. „Þið standið alltaf við það sem um er samið,“ sagði hann. (Sálm. 15:4) Með þess konar breytni viðhöldum við vináttusambandinu við Jehóva. Og hún er líka föður okkar á himnum til lofs.
HJÁLPUM ÖÐRUM AÐ VERÐA VINIR JEHÓVA
14, 15. Hvernig getum við hjálpað fólki að verða vinir Jehóva þegar við boðum fagnaðarerindið?
14 Margir sem við hittum í boðunarstarfinu líta ekki á Guð sem besta vin sinn þó að þeir trúi að hann sé til. Hvernig getum við hjálpað þeim? Taktu eftir hvað Jesús sagði 70 lærisveinum sínum þegar hann sendi þá út tvo og tvo til að boða fagnaðarerindið: „Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: Friður sé með húsi þessu. Og sé þar nokkurt friðarins barn mun friður yðar hvíla yfir því, ella hverfa aftur til yðar.“ (Lúk. 10:5, 6) Við getum laðað fólk að sannleikanum með því að vera vingjarnleg í viðmóti. Við getum líka haft róandi áhrif á andstæðinga með því að vera vingjarnleg, og það getur hugsanlega gert þá móttækilegri síðar.
15 Við erum vingjarnleg og friðsöm í viðmóti við fólk sem er heittrúað eða fylgir óbiblíulegum siðvenjum. Við bjóðum alla velkomna á safnaðarsamkomur, ekki síst fólk sem er óánægt með samfélagið eins og það er og langar þess vegna til að kynnast hinum sanna Guði sem við tilbiðjum. Í greinaflokknum „Biblían breytir lífi fólks“ er sagt frá mörgum sem hafa staðið í þeim sporum.
VINNUM MEÐ BESTA VINI OKKAR
16. Í hvaða skilningi er hægt að líta á okkur bæði sem vini Jehóva og „samverkamenn“?
16 Vinnufélagar verða oft nánir vinir. Allir sem eru vígðir Jehóva fá þann heiður að vera bæði vinir hans og „samverkamenn“. (Lestu 1. Korintubréf 3:9.) Þegar við boðum trúna og kennum fólki kynnumst við betur háleitum eiginleikum föðurins á himnum. Við sjáum hvernig heilagur andi hans gerir okkur kleift að boða fagnaðarerindið.
17. Hvernig vitnar andlega fæðan, sem við fáum á mótum, um að Jehóva er vinur okkar?
17 Því meira sem við boðum fagnaðarerindið því nánari verða tengslin við Jehóva. Við sjáum til dæmis hvernig hann ónýtir tilraunir andstæðinga til að hindra boðunina. Lítum aðeins um öxl. Höfum við ekki séð greinilega á undanförnum árum hvernig Jehóva leiðbeinir okkur? Við fáum stöðugan straum af kjarngóðri andlegri fæðu. Mótin bera með sér að faðir okkar á himnum skilur fullkomlega þarfir okkar og erfiðleika. Fjölskylda nokkur skrifaði þakkarbréf að loknu móti. Í bréfinu sagði: „Efnið snerti okkur djúpt. Við fundum fyrir því hve vænt Jehóva þykir um okkur öll og vill að okkur gangi vel.“ Hjón frá Þýskalandi, sem sóttu mót á Írlandi, lýstu þakklæti sínu fyrir hve góðar móttökur þau fengu og hve vel var séð um þau. Síðan bættu þau við: „Fyrst og fremst þökkum við þó Jehóva og konunginum Jesú Kristi. Þeir hafa boðið okkur að tilheyra þessari sameinuðu þjóð. Við tölum ekki bara um einingu heldur njótum hennar hvern einasta dag. Það sem við upplifðum á þessu sérstaka móti í Dyflinni á alltaf eftir að minna okkur á þann mikla heiður sem það er að þjóna Guði ásamt ykkur öllum.“
VINIR TALA SAMAN
18. Hvers ættum við að spyrja okkur varðandi samskiptin við Jehóva?
18 Vinir tala saman og það styrkir vináttuböndin. Margir nota samskiptasíður og smáskilaboð óspart til að halda sambandi við aðra. En hvernig lítum við á samskipti okkar við Jehóva, besta vin okkar? Í Biblíunni er hann ávarpaður: „Þú, sem heyrir bænir.“ (Sálm. 65:3) Hve oft gefum við okkur stund til að tala við hann?
19. Hvað getur hjálpað okkur ef okkur finnst erfitt að opna hjartað fyrir föðurnum á himnum?
19 Sumum þjónum Guðs finnst erfitt að opna hjarta sitt og tjá innstu tilfinningar sínar. Jehóva vill samt að við gerum það þegar við biðjum til hans. (Sálm. 119:145; Harmlj. 3:41) En við erum ekki hjálparvana þó að við eigum erfitt með að lýsa tilfinningum okkar með orðum. Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.“ (Rómv. 8:26, 27) Þegar við lesum biblíubækur eins og Jobsbók, Sálmana og Orðskviðina getum við fengið hugmynd um hvernig við getum tjáð Jehóva innstu tilfinningar okkar.
20, 21. Hvaða hughreystingu er að finna í Filippíbréfinu 4:6, 7?
20 Þegar erfiðleikar steðja að skulum við gera eins Páll hvatti til í innblásnu bréfi til safnaðarins í Filippí: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ Það er okkur til huggunar og hughreystingar að tjá okkur opinskátt við besta vin okkar. Páll heldur áfram: „Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Við skulum vera innilega þakklát fyrir hinn óviðjafnanlega ,frið Guðs‘ sem varðveitir sannarlega hjörtu okkar og hugsanir.
21 Bænin hjálpar okkur að þroska vináttusambandið við Jehóva. Við skulum því ,biðja án afláts‘. (1. Þess. 5:17) Við vonum að þetta námsefni styrki hin dýrmætu vináttubönd sem við eigum við Guð og löngunina til að gera eins og hann ætlast til af okkur. Gefum okkur líka tíma til að hugleiða blessunina sem við njótum vegna þess að Jehóva er faðir okkar, Guð og vinur.
a Júdasarbréfið 8 (Biblían 1981): „Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.“