Vissi Guð að Adam og Eva myndu syndga?
MARGIR velta þessari spurningu fyrir sér í fyllstu einlægni. Þegar fólk spyr hvers vegna Guð leyfi þjáningar kemur syndin, sem fyrstu hjónin drýgðu í Edengarðinum, fljótt inn í umræðuna. Sú hugsun að „Guð viti allt“ fær fólk auðveldlega til að álykta að Guð hljóti að hafa vitað það fyrir fram að Adam og Eva myndu óhlýðnast honum.
Hvað gæfi það í skyn um Guð ef hann hefði virkilega vitað fyrir að þessi fullkomnu hjón myndu syndga? Það myndi þýða að hann byggi yfir ýmsum slæmum eiginleikum. Hann virtist þá harðbrjósta, óréttlátur og falskur. Sumir myndu segja hann grimman að leiða fyrstu hjónin út í eitthvað sem hann vissi fyrir að myndi enda illa. Það liti þá út fyrir að Guð væri ábyrgur fyrir allri illskunni og þjáningunum sem fylgt hafa mönnunum í gegnum mannkynssöguna — eða að minnsta kosti samsekur. Sumir myndu jafnvel telja skaparann hafa hegðað sér heimskulega.
Kemur þessi lýsing á Jehóva Guði heim og saman við Biblíuna? Til að svara þessari spurningu þurfum við að skoða hvað Biblían segir um sköpunarverk Jehóva og eiginleika hans.
„Það var harla gott“
Í 1. Mósebók er talað um sköpunarverk Guðs, þar á meðal fyrstu mannverurnar á jörð. Þar segir: „Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Adam og Eva voru fullkomin, sérstaklega sköpuð til að lifa á jörðinni. Þau voru að öllu leyti vel úr garði gerð. Sköpun þeirra var ,harla góð‘ og þau voru vissulega hæf til að breyta vel og í samræmi við það sem var ætlast til af þeim. Þau voru sköpuð „eftir Guðs mynd“. (1. Mósebók 1:27) Þau voru þess vegna fær um að sýna góða eiginleika eins og visku, kærleika, réttlæti og gæsku. Ef þau endurspegluðu þessa eiginleika Guðs gætu þau tekið ákvarðanir sem væru þeim til góðs og myndu gleðja himneskan föður þeirra.
Jehóva gaf þessum fullkomnu vitsmunaverum frjálsan vilja. Þau voru því á engan hátt forrituð til að þóknast Guði, líkt og væru þau vélmenni. Hugleiddu málið aðeins. Hvort myndir þú frekar vilja gjöf sem væri gefin af skyldurækni eða gjöf sem væri gefin af fúsu hjarta? Svarið er augljóst. Það sama á við um Adam og Evu. Ef þau hefðu valið að hlýða Guði af fúsu hjarta hefði hlýðni þeirra verið honum verðmæt gjöf. Hæfileikinn til að velja gerði að verkum að fyrstu hjónin gátu elskað Jehóva og hlýtt honum. — 5. Mósebók 30:19, 20.
Réttlátur og góður
Biblían opinberar okkur eiginleika Jehóva. Þeir gera að verkum að honum er ómögulegt að koma nálægt synd á nokkurn hátt. Jehóva „hefur mætur á réttlæti og rétti“, stendur í Sálmi 33:5. Því segir í Jakobsbréfinu 1:13: „Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns.“ Vegna þess að Guð er nærgætinn og sanngjarn varaði hann Adam við og sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Fyrstu hjónunum var gefinn kostur á eilífu lífi eða dauða. Hefði það ekki verið hræsnisfullt af Guði að vara þau við ákveðinni synd ef hann hefði vitað fyrir fram að þau myndu drýgja hana? Þar sem Jehóva „hefur mætur á réttlæti og rétti“ hefði hann ekki gefið þeim valkost sem var í rauninni ekki til.
Jehóva er einnig ákaflega gæskuríkur. (Sálmur 31:20) Jesús lýsti vel gæsku Guðs þegar hann sagði: „Hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?“ (Matteus 7:9-11) Guð gefur sköpunarverum sínum „góðar gjafir“. Gæska hans sýndi sig glögglega í því hvernig hann skapaði Adam og Evu og bjó þeim heimili í paradís. Myndi góður alvaldur Guð sjá þeim fyrir svo yndislegum heimkynnum til að hrifsa þau síðan af þeim? Nei. Skaparinn, sem er bæði réttlátur og góður, á ekki sökina á uppreisn mannanna.
,Hann einn er alvitur‘
Ritningin sýnir einnig fram á að Jehóva ,einn er alvitur‘. (Rómverjabréfið 16:27) Himneskir englar Guðs urðu vitni að takmarkalausri visku hans. „Allir synir Guðs fögnuðu“ þegar hann skapaði jörðina og allt sem á henni er. (Jobsbók 38:4-7) Það er engum vafa undirorpið að þessar vitibornu andaverur fylgdust af áhuga með framgangi mála í aldingarðinum Eden. Hefði þá verið skynsamlegt af alvitrum Guði að skapað stórkostlegan alheim og ótal undursamleg verk hér á jörð og skapa síðan tvær einstakar mannverur undir vökulum augum englasona sinna ef hann vissi að þær myndu bregðast? Að hafa uppi áform um slíka ógæfu hefði verið ósanngjarnt.
Sumir gætu samt hugsað sem svo: En alvitur Guð hlýtur samt að hafa vitað hvernig færi! Hin mikla viska, sem Jehóva býr yfir, gerir honum vissulega kleift að sjá „endalokin frá öndverðu“. (Jesaja 46:9, 10) Hins vegar þarf hann ekki að nota þennan hæfileika frekar en að nota alltaf gríðarlegan mátt sinn til fulls. Jehóva velur hvenær hann vill nota hæfileikann til að sjá fram í tímann. Hann gerir það þegar það er skynsamlegt og undir ákveðnum kringumstæðum.
Við veljum stundum að vita ekki hluti fyrir fram þótt það sé mögulegt með nútímatækni. Lýsum þessu með dæmi. Sá sem horfir á upptöku af kappleik hefur möguleika á að spóla fram til lokamínútna leiksins til þess að vita hvernig leiknum lauk. En hann þarf ekki að gera það. Hver myndi lá honum að vilja horfa á leikinn allt frá byrjun? Skaparinn valdi augljóslega að sjá ekki fyrir hvernig hlutirnir myndu fara. Hann valdi að bíða og sjá hvernig jarðnesk börn sín myndu bregðast við aðstæðum.
Eins og minnst var á fyrr í greininni sýndi Jehóva þá visku að skapa ekki mennina eins og einhvers konar vélmenni. Þeir voru ekki forritaðir til að fylgja ákveðinni stefnu. Vegna kærleika síns gaf hann þeim frjálsan vilja. Það hefði verið þeim sjálfum til gæfu og glatt himneskan föður þeirra ef þau hefðu valið rétta stefnu og sýnt þannig að þau elskuðu hann og væru honum þakklát og hlýðin. — Orðskviðirnir 27:11; Jesaja 48:18.
Í Biblíunni kemur fram að í mörgum tilfellum valdi Guð að nota ekki hæfileikann til að sjá fyrir óorðna hluti. Lítum á dæmi: Þegar hinn trúfasti Abraham var í þann mund að fórna syni sínum gat Jehóva sagt: „Nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ (1. Mósebók 22:12) Við aðrar aðstæður hryggðu sumir einstaklingar hann með rangri breytni sinni. Hefði honum liðið þannig ef hann hefði vitað fyrir hvernig þeir myndu breyta? — Sálmur 78:40, 41; 1. Konungabók 11:9, 10.
Það er því rökrétt að álykta sem svo að alvitur Guð hafi valið að sjá ekki fyrir að foreldrar mannkyns myndu syndga. Hann sýndi ekki þá fávisku að skapa mennina í þeim eina tilgangi að láta þá ganga í gegnum undarlega atburði sem hann vissi fyrir fram að myndu gerast, og sviðsetja síðan atburðarásina.
„Guð er kærleikur“
Satan, andstæðingur Guðs, hrinti af stað uppreisninni í Eden sem hafði ömurlegar afleiðingar í för með sér, þar á meðal synd og dauða. Af þeim sökum varð Satan „manndrápari“. Hann reyndist einnig vera „lygari og lyginnar faðir“. (Jóhannes 8:44) Vegna illra hvata sinna reynir hann að telja öðrum trú um að kærleiksríkur skapari okkar hafi líka slæmar hvatir. Það þjónar tilgangi Satans að kenna Jehóva um synd mannsins.
Kærleikur Jehóva er aðalástæðan fyrir því að hann valdi að vita ekki fyrir fram að Adam og Eva myndu syndga. Kærleikur er höfuðeiginleiki Guðs. „Guð er kærleikur,“ segir í 1. Jóhannesarbréfi 4:8. Sá sem er kærleiksríkur er jákvæður en ekki neikvæður. Hann leitar að því góða í fari annarra. Vegna þess að Jehóva er kærleiksríkur vildi hann að fyrstu hjónunum vegnaði vel.
Jafnvel þótt jarðnesk börn Guðs hafi átt kost á því að taka óviturlega ákvörðun var hann ekki svartsýnn eða tortrygginn gagnvart fullkomnum sköpunarverum sínum. Hann hafði séð þeim ríkulega fyrir öllu sem þau þurftu á að halda og upplýst þau um allt sem þau þurftu að vita. Það var því eðlilegt að Guð gerði ráð fyrir ást og hlýðni af þeirra hálfu en ekki uppreisn. Hann vissi að Adam og Eva voru fær um að vera honum trú eins og sannaðist síðar á ófullkomnum mönnum eins og Abraham, Job, Daníel og mörgum öðrum.
„Guði er ekkert um megn,“ sagði Jesús. (Matteus 19:26) Það er hughreystandi að vita. Kærleikur Jehóva, ásamt öðrum ríkjandi eiginleikum hans eins og réttlæti, visku og mætti, veitir okkur vissu fyrir því að hann geti afmáð og muni afmá öll áhrif syndar og dauða þegar þar að kemur. — Opinberunarbókin 21:3-5.
Það er augljóst að Jehóva vissi ekki fyrir að fyrstu hjónin myndu syndga. Þótt óhlýðni mannsins og þjáningarnar, sem fylgdu í kjölfarið, hafi hryggt hann vissi hann að þetta ástand var tímabundið og það myndi ekki koma í veg fyrir að eilíf fyrirætlun hans með jörðina og mannkynið yrði að veruleika. Langar þig til að vita meira um fyrirætlun Guðs og hvernig þú getur notið góðs af henni?a
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um fyrirætlun Guðs með jörðina er að finna í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem er gefin út af Vottum Jehóva.
[Innskot á bls. 14]
Jehóva skapaði ekki mennina eins og einhvers konar vélmenni. Þeir voru ekki forritaðir til að fylgja ákveðinni stefnu.
[Innskot á bls. 15]
Guð vissi að Adam og Eva voru fær um að vera honum trú.