2. Hluti
Sýnið hvort öðru tryggð
„Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.“ – Markús 10:9.
Jehóva fer fram á að trúfesti og hollusta séu okkur kær. (Sálmur 18:26) Það er sérlega mikilvægt að hjón sýni hvort öðru tryggð og hollustu því að annars ríkir ekkert traust á milli þeirra. Og traust er nauðsynlegt til þess að ástin geti blómstrað.
Nú á tímum er tryggð í hjónabandi á undanhaldi. Til þess að vernda hjónaband þitt þarftu að vera staðráðinn í að gera tvennt.
1 LÁTTU HJÓNABANDIÐ SITJA Í FYRIRRÚMI
BIBLÍAN SEGIR: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ (Filippíbréfið 1:10) Hjónabandið er eitt af því sem skiptir mestu máli í lífi þínu. Láttu það því sitja í fyrirrúmi.
Jehóva vill að þú veitir maka þínum sérstaka athygli og að þið ,njótið lífsins‘ saman. (Prédikarinn 9:9) Hann gefur skýrt til kynna að hjón ættu aldrei að vanrækja hvort annað, heldur leita leiða til að gleðja hvort annað. (1. Korintubréf 10:24) Sýndu makanum að þú þarfnist hans og kunnir að meta hann.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:
Gerðu ráðstafanir til að eiga oft stund með maka þínum og veittu honum þá óskipta athygli.
Temdu þér að hugsa „við“ í staðinn fyrir „ég“.
2 VARÐVEITTU HJARTA ÞITT
BIBLÍAN SEGIR: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Sá sem lætur hugann dvelja við siðlausar hugsanir er í vissum skilningi ótrúr maka sínum.
Jehóva segir að þú eigir að ,varðveita hjarta þitt‘. (Orðskviðirnir 4:23; Jeremía 17:9) Til að gera það þarftu að gæta vandlega á hvað þú horfir. (Matteus 5:29, 30) Fylgdu fordæmi ættföðurins Jobs en hann gerði sáttmála við augu sín um að líta aldrei aðrar konur girndarauga. (Jobsbók 31:1) Vertu ákveðinn í að horfa aldrei á klám. Ásettu þér líka að mynda aldrei rómantísk tengsl við neinn nema maka þinn.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:
Gerðu öðrum alveg ljóst að þú sért bundinn maka þínum tryggðarböndum.
Taktu tillit til tilfinninga maka þíns og bittu strax endi á öll sambönd sem valda honum vanlíðan.