Sjónarmið Biblíunnar
Áhættuíþróttir – ættirðu að taka áhættuna?
„STÖÐUGT FLEIRI LÁTA SÉR EKKI LENGUR NÆGJA AÐ HORFA Á AÐRA STÖKKVA ÚT ÚR FLUGVÉLUM, SÍGA Í BJÖRG, SIGLA NIÐUR FOSSA OG KAFA MEÐ HÁKÖRLUM, HELDUR TAKA SJÁLFIR ÞÁTT Í ÞVÍ.“ – DAGBLAÐIÐ WILLOW GLEN RESIDENT.
ÞESSI orð endurspegla vaxandi vinsældir íþrótta eins og teygjustökks, ísklifurs, fallhlífarstökks úr flugvélum, af byggingum, brúm og klettum í heimi sem heillast af áhættu. Snjóbretti, fjallahjól, línuskautar og hjólabretti eru líka notuð til að reyna þolmörkin með því að takast á við bröttustu fjöllin, hæstu klettana og lengstu stökkin. Samkvæmt tímaritinu Time eru þessar íþróttir mjög vinsælar vegna þess að margir vilja gera það sem er erfitt og hættulegt til að yfirstíga ótta og fá meiri spennu í líf sitt.
En vaxandi vinsældir hafa einnig í för með sér að þátttakendur þurfa að greiða þessa íþróttaiðkun dýru verði. Stöðugt fleiri slasast þegar tiltölulega öruggar íþróttir taka á sig hættulega mynd. Árið 1997 fjölgaði komum á bráðamóttökur í Bandaríkjunum um meira en 33 prósent vegna hjólabrettaslysa, snjóbretta um 31 prósent og fjallaklifurs um 20 prósent. Í öðrum íþróttum eru afleiðingarnar jafnvel enn alvarlegri eins og sést af fjölda dauðsfalla. Stuðningsmenn þessara íþrótta gera sér grein fyrir hættunni. Kona sem stundar hættulega skíðaíþrótt segir: „Ég er alltaf meðvituð um dauðann.“ Atvinnumaður á snjóbretti lýsir því þegar hann segir: „Þú ert ekki að reyna nógu mikið ef þú slasast ekki.“
Með þetta í huga, hvernig ætti þjónn Jehóva að líta á þátttöku í slíkum íþróttum? Hvernig getur Biblían hjálpað okkur að ákveða hvort við ættum að taka þátt í áhættuíþróttum? Við fáum hjálp til að svara þessum spurningum með því að hugleiða hvernig Guð lítur á heilagleika lífsins.
Viðhorf Guðs til lífsins
Biblían kennir að Jehóva sé „uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:10) Auk þess sem hann skapaði mannkynið sýndi hann okkur væntumþykju sína með því að gefa okkur það sem við þurfum til að njóta lífsins. (Sálmur 139:14; Postulasagan 14:16, 17; 17:24–28) Það er því rökrétt að álykta að hann vænti þess að við förum vel með það sem hann var svo góður að gefa okkur. Lög og meginreglur sem hann gaf Ísraelsþjóðinni hjálpa okkur að skilja það.
Í Móselögunum var þess krafist að fólk gerði ráðstafanir til að vernda líf annarra. Ef þess var ekki gætt og það kostaði einhvern lífið var sá sem hefði getað komið í veg fyrir þá ógæfu álitinn blóðsekur. Sá sem átti hús þurfti til dæmis að setja lágan vegg, eða brjóstrið, umhverfis flatt þakið. Ef hann gerði það ekki myndi það baka heimilinu blóðskuld ef einhver dytti af þakinu og dæi. (5. Mósebók 22:8) Ef naut stangaði óvænt mann til dauða var eigandi nautsins ekki ábyrgur. Ef það var hins vegar vitað að nautið var hættulegt og eigandinn gætti þess ekki nógu vel og það stangaði einhvern var eigandinn álitinn blóðsekur og gat verið tekinn af lífi. (2. Mósebók 21:28, 29) Lífið er dýrmætt í augum Jehóva og lög hans endurspegla hversu mikið honum er í mun að viðhalda því og varðveita.
Trúfastir þjónar Guðs skildu líka að þessar meginreglur náðu til þess að taka persónulega áhættu. Biblían greinir frá því að eitt sinn hafi Davíð sagt að hann óskaði þess að geta drukkið „vatn úr brunninum við borgarhliðið í Betlehem“, en Filistear réðu yfir Betlehem á þessum tíma. Þrír hermenn Davíðs heyrðu það og brutust inn í herbúðir Filistea og náðu í vatn úr brunninum í Betlehem og færðu Davíð. Hvernig brást Davíð við? Hann drakk ekki vatnið en hellti því á jörðina. Hann sagði: „Guð minn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt. Ætti ég að drekka blóð þessara manna, er hættu lífi sínu, því að með því að hætta lífi sínu sóttu þeir það.“ (1. Kroníkubók 11:17–19) Davíð fannst óhugsandi að stofna lífi í hættu fyrir eigin langanir.
Jesús brást við á líkan hátt þegar Djöfullinn, líklega í sýn, freistaði hans til að henda sér fram af musterinu til að sjá hvort englarnir myndu bjarga honum. Jesús sagði: „Þú skalt ekki ögra Jehóva Guði þínum.“ (Matteus 4:5–7) Bæði Davíð og Jesús álitu það rangt í augum Guðs að taka óþarfa áhættu sem stofnaði mannslífi í hættu.
Með þessi dæmi í huga gætum við velt því fyrir okkur hvar við setjum mörkin varðandi það hvað er áhættuíþrótt? Hvernig getum við ákveðið hversu langt við megum ganga fyrst jafnvel venjuleg afþreying sem er í sjálfu sér ekki hættuleg verður stundum áhættusöm?
Er það áhættunnar virði?
Heiðarlegt mat á hverri þeirri íþrótt sem við veltum fyrir okkur að taka þátt í hjálpar okkur að svara þeirri spurningu. Við gætum til dæmis spurt okkur: „Hver er slysatíðnin í þessari íþrótt? Hef ég þjálfun eða nauðsynlegan hlífðarbúnað til að koma í veg fyrir slys? Hverjar eru afleiðingarnar ef ég dett eða misreikna stökk eða ef öryggisbúnaður svíkur? Yrði það minni háttar óhapp eða myndi ég mögulega slasast alvarlega eða deyja?“
Það getur haft áhrif á dýrmætt samband kristins manns við Jehóva og möguleika hans á að fá sérstök verkefni í söfnuðinum ef hann tekur óþarfa áhættu þegar hann stundar afþreyingu. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 8–10; 4:12; Títusarbréfið 2:6–8) Þjónn Guðs gerir vel að hugleiða viðhorf skaparans til heilagleika lífsins jafnvel þegar hann velur sér afþreyingu.