-
Markús 6:35–44Biblían – Nýheimsþýðingin
-
-
35 Nú var langt liðið á daginn og lærisveinarnir komu til hans og sögðu: „Þetta er afskekktur staður og það er orðið áliðið.+ 36 Sendu fólkið burt svo að það geti komist í sveitina og þorpin í kring og keypt sér eitthvað að borða.“+ 37 Hann svaraði þeim: „Þið getið gefið því að borða.“ Þeir sögðu þá við hann: „Eigum við að fara og kaupa brauð fyrir 200 denara* og gefa fólkinu að borða?“+ 38 Hann spurði þá: „Hvað eruð þið með mörg brauð? Kannið málið.“ Þeir gerðu það og sögðu: „Fimm brauð og tvo fiska.“+ 39 Hann sagði þá öllu fólkinu að skipta sér í hópa og setjast í grængresið.+ 40 Fólkið settist þá í 100 manna og 50 manna hópum. 41 Hann tók nú brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn.+ Síðan braut hann brauðin og rétti lærisveinunum til að gefa fólkinu og hann skipti fiskunum tveim milli allra. 42 Allir borðuðu og urðu saddir. 43 Þeir tóku saman brauðbitana sem voru eftir og fylltu 12 körfur, auk leifanna af fiskinum.+ 44 Það voru 5.000 karlmenn sem borðuðu brauðið.
-
-
Lúkas 9:12–17Biblían – Nýheimsþýðingin
-
-
12 Nú tók degi að halla. Þeir tólf komu þá til hans og sögðu: „Sendu fólkið burt svo að það geti komist í sveitina og þorpin í kring og fengið mat og gistingu því að við erum á afskekktum stað.“+ 13 En hann sagði við þá: „Þið getið gefið því að borða.“+ Þeir svöruðu: „Við eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska nema við förum og kaupum mat handa öllu þessu fólki.“ 14 Þarna voru um 5.000 karlmenn. Hann sagði við lærisveinana: „Látið þá setjast í hópa, um 50 í hverjum.“ 15 Þeir gerðu það og létu alla setjast. 16 Hann tók nú brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og fór með bæn. Síðan braut hann brauðin og rétti lærisveinunum þau ásamt fiskunum og þeir gáfu mannfjöldanum. 17 Allir borðuðu og urðu saddir. Þeir tóku saman brauðbitana sem voru afgangs og fylltu 12 körfur.+
-
-
Jóhannes 6:5–13Biblían – Nýheimsþýðingin
-
-
5 Þegar Jesús leit upp og sá mikinn mannfjölda nálgast sagði hann við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð til að gefa þessu fólki að borða?“+ 6 Jesús vissi hvað hann ætlaði að gera en sagði þetta til að reyna Filippus. 7 Filippus svaraði: „Brauð fyrir 200 denara* myndi ekki einu sinni nægja til að allir fengju smábita.“ 8 Einn af lærisveinum hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, sagði við hann: 9 „Hér er drengur með fimm byggbrauð og tvo smáfiska en hvað er það handa svona mörgum?“+
10 Jesús sagði: „Látið fólkið setjast.“ Þarna var grösugt og fólkið settist niður, en karlmennirnir voru um 5.000 talsins.+ 11 Jesús tók brauðið, þakkaði Guði og útbýtti því meðal þeirra sem sátu þar. Eins gerði hann með fiskinn og allir fengu eins mikið og þeir vildu. 12 Þegar fólkið hafði borðað nægju sína sagði hann við lærisveinana: „Safnið leifunum saman svo að ekkert fari til spillis.“ 13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu 12 körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem fólkið hafði borðað af.
-