Fyrri Konungabók
1 Davíð konungur var nú orðinn gamall+ og aldurhniginn og gat ekki haldið á sér hita þótt breidd væru yfir hann teppi. 2 Þjónar hans sögðu því við hann: „Við skulum finna handa þér stúlku, herra okkar og konungur, hreina mey sem getur þjónað þér og hjúkrað. Hún skal liggja í faðmi þínum til að hlýja herra okkar og konungi.“ 3 Síðan var leitað að fallegri stúlku í öllu landi Ísraels og menn fundu Abísag+ frá Súnem+ og fóru með hana til konungs. 4 Stúlkan var gullfalleg. Hún hjúkraði konungi og þjónaði honum en konungur hafði ekki mök við hana.
5 Adónía+ sonur Haggítar hreykti sér upp og sagði: „Ég vil verða konungur!“ Hann útvegaði sér vagn og riddara og 50 menn sem hlupu á undan honum.+ 6 En faðir hans hafði aldrei látið hann standa fyrir máli sínu* og spurt: „Hvers vegna gerirðu þetta?“ Adónía var auk þess mjög myndarlegur og hann fæddist næstur á eftir Absalon. 7 Hann ráðfærði sig við Jóab Serújuson og Abjatar+ prest og þeir lofuðu að styðja hann.+ 8 En Sadók+ prestur, Benaja+ Jójadason, Natan+ spámaður, Símeí,+ Reí og stríðskappar Davíðs+ studdu ekki Adónía.
9 Einhverju sinni fórnaði+ Adónía sauðum, nautum og alikálfum hjá Sóheletsteini sem er rétt hjá Rógellind. Hann bauð öllum bræðrum sínum, sonum konungs, og öllum Júdamönnum sem voru í þjónustu konungs. 10 En hann bauð hvorki Natan spámanni, Benaja og stríðsköppunum né Salómon bróður sínum. 11 Þá sagði Natan+ við Batsebu+ móður Salómons:+ „Hefurðu ekki heyrt að Adónía+ sonur Haggítar er orðinn konungur? Og Davíð herra okkar hefur ekki hugmynd um það. 12 Ég skal gefa þér ráð svo að þú getir bjargað lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns.+ 13 Farðu inn til Davíðs konungs og segðu við hann: ‚Herra minn og konungur, vannstu mér ekki eið og sagðir: „Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu“?+ Hvers vegna er þá Adónía orðinn konungur?‘ 14 Ég kem síðan inn á eftir þér meðan þú ert enn að tala við konung og staðfesti orð þín.“
15 Batseba fór þá til konungs í svefnherbergi hans. En konungur var mjög gamall og Abísag+ frá Súnem þjónaði honum. 16 Batseba hneigði sig og laut konungi. „Hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði konungur. 17 Hún svaraði: „Herra, þú vannst mér þennan eið við Jehóva Guð þinn: ‚Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu.‘+ 18 En nú er Adónía orðinn konungur án þess að þú vitir af því,+ herra minn og konungur. 19 Hann hefur fórnað fjölda nauta, alikálfa og sauða og boðið öllum sonum konungs og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja+ en hann bauð ekki Salómon þjóni þínum.+ 20 Herra minn og konungur, nú beinast augu allra Ísraelsmanna að þér. Fólkið bíður eftir að þú tilkynnir hver eigi að sitja í hásæti þínu eftir þinn dag. 21 Ef þú gerir það ekki verðum við Salómon sonur minn álitin svikarar þegar þú, herra minn og konungur, hefur lagst til hvíldar hjá forfeðrum þínum.“
22 Meðan hún var enn að tala við konung kom Natan spámaður.+ 23 Konungi var tilkynnt: „Natan spámaður er kominn.“ Hann gekk fyrir konung, laut honum og féll á grúfu. 24 Natan sagði: „Herra minn og konungur, sagðir þú: ‚Adónía verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu‘?+ 25 Í dag fór hann nefnilega niður eftir til að fórna+ fjölda nauta, alikálfa og sauða. Hann bauð öllum sonum konungs, herforingjunum og Abjatar presti+ og nú borða þeir og drekka með honum og segja: ‚Lengi lifi Adónía konungur!‘ 26 En mér, þjóni þínum, bauð hann ekki og ekki heldur Sadók presti, Benaja+ Jójadasyni né Salómon þjóni þínum. 27 Hefur þú, herra minn og konungur, fyrirskipað þetta án þess að segja mér hver eigi að sitja í hásæti þínu eftir þinn dag?“
28 Davíð konungur svaraði: „Kallið á Batsebu.“ Hún gekk þá inn til konungs og þegar hún stóð frammi fyrir honum 29 vann hann þennan eið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur bjargað mér úr öllum erfiðleikum,+ 30 mun ég í dag halda eiðinn sem ég vann þér frammi fyrir Jehóva Guði Ísraels þegar ég sagði: ‚Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu í minn stað.‘“ 31 Þá hneigði Batseba sig, féll á grúfu frammi fyrir konungi og sagði: „Megi herra minn, Davíð konungur, lifa að eilífu!“
32 Davíð konungur sagði þegar í stað: „Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja+ Jójadason.“+ Þeir gengu fyrir konung 33 og hann sagði við þá: „Takið þjóna mína með ykkur og látið Salómon son minn setjast á bak múldýri mínu+ og farið með hann til Gíhon.+ 34 Þar skulu Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann+ til konungs yfir Ísrael. Blásið síðan í horn og segið: ‚Lengi lifi Salómon konungur!‘+ 35 Því næst skuluð þið fylgja honum hingað. Hann skal ganga inn og setjast í hásæti mitt. Hann verður konungur í minn stað og ég skipa hann leiðtoga yfir Ísrael og Júda.“ 36 Benaja Jójadason svaraði konungi: „Amen! Jehóva, Guð herra míns, konungsins, leggi blessun sína yfir þessa ákvörðun. 37 Jehóva veri með Salómon,+ alveg eins og hann var með herra mínum, konunginum. Megi hann gera hásæti hans enn voldugra en hásæti herra míns, Davíðs konungs.“+
38 Sadók prestur, Natan spámaður og Benaja+ Jójadason fóru síðan niður eftir ásamt Keretunum og Peletunum.+ Þeir létu Salómon setjast á bak múldýri Davíðs konungs+ og fóru með hann til Gíhon.+ 39 Sadók prestur tók olíuhornið+ úr tjaldinu+ og smurði Salómon.+ Síðan blésu þeir í horn og allt fólkið hrópaði: „Lengi lifi Salómon konungur!“ 40 Allt fólkið fylgdi honum síðan upp eftir með flautuleik og svo miklum fagnaðarlátum að jörðin nötraði.*+
41 Adónía og allir gestir hans heyrðu lætin þegar þeir höfðu lokið máltíðinni.+ „Hvaða hróp og köll eru þetta í borginni?“ sagði Jóab þegar hann heyrði hornablásturinn. 42 Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Jónatan,+ sonur Abjatars prests, birtist. „Komdu inn,“ sagði Adónía, „því að þú ert góður maður* og hlýtur að færa góðar fréttir.“ 43 „Nei,“ svaraði Jónatan, „herra okkar, Davíð konungur, hefur gert Salómon að konungi. 44 Konungurinn sendi með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Keretana og Peletana og þeir létu hann setjast á bak múldýri konungs.+ 45 Sadók prestur og Natan spámaður smurðu hann síðan til konungs við Gíhon. Því næst fóru þeir aftur upp eftir með miklum fögnuði og nú ætlar allt um koll að keyra í borginni. Það eru lætin sem þið heyrðuð. 46 Salómon er meira að segja sestur í hásæti konungs. 47 Og þjónar konungs komu til að óska herra okkar, Davíð konungi, til hamingju og sögðu: ‚Megi Guð þinn gera nafn Salómons enn dýrlegra en nafn þitt og hásæti hans enn voldugra en hásæti þitt.‘ Síðan laut konungur höfði í rúmi sínu 48 og sagði: ‚Lofaður sé Jehóva Guð Ísraels sem hefur í dag sett son minn í hásæti mitt og leyft mér að sjá það með eigin augum.‘“
49 Gestir Adónía urðu allir skelfingu lostnir, spruttu á fætur og fóru hver sína leið. 50 Adónía varð líka hræddur við Salómon. Hann stóð upp og fór og greip um horn altarisins.+ 51 Salómon bárust þessi boð: „Adónía er hræddur við Salómon konung. Hann heldur um horn altarisins og segir: ‚Ég fer ekki fet fyrr en Salómon konungur hefur svarið mér að taka ekki þjón sinn af lífi með sverði.‘“ 52 Þá sagði Salómon: „Ef hann sýnir að hann er traustsins verður mun ekki eitt einasta hár á höfði hans falla til jarðar. En ef hann fer illa að ráði sínu+ skal hann deyja.“ 53 Salómon konungur lét síðan sækja hann og leiða hann burt frá altarinu. Adónía kom og hneigði sig fyrir Salómon konungi sem sagði við hann: „Farðu heim til þín.“