Önnur Mósebók
29 Svona skaltu fara að þegar þú helgar þá til að þjóna mér sem prestar: Taktu ungnaut, tvo lýtalausa hrúta,+ 2 ósýrt brauð, ósýrt kringlótt brauð blandað olíu og ósýrðar flatkökur smurðar olíu.+ Þú átt að baka þetta úr fínu hveiti, 3 leggja í körfu og bera fram fyrir mig í körfunni+ ásamt nautinu og hrútunum tveim.
4 Þú skalt leiða Aron og syni hans að inngangi samfundatjaldsins+ og segja þeim að þvo sér með vatni.+ 5 Klæddu síðan Aron í kyrtilinn, ermalausu yfirhöfnina,* hökulinn og brjóstskjöldinn og hnýttu hökulbeltið* fast um mitti hans.+ 6 Settu vefjarhöttinn á höfuð hans og festu hið heilaga vígslutákn* á vefjarhöttinn.+ 7 Taktu svo smurningarolíuna,+ helltu henni á höfuð hans og smyrðu hann.+
8 Leiddu síðan syni hans fram, klæddu þá í kyrtlana,+ 9 gyrtu þá belti, bæði Aron og syni hans, og settu á þá höfuðbúnaðinn. Prestdómurinn skal tilheyra þeim samkvæmt varanlegu ákvæði.+ Þannig áttu að vígja Aron og syni hans til að þjóna sem prestar.*+
10 Leiddu nú nautið að samfundatjaldinu. Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð nautsins.+ 11 Slátraðu nautinu frammi fyrir Jehóva við inngang samfundatjaldsins.+ 12 Dýfðu fingri þínum í blóð nautsins og berðu það á horn altarisins.+ Helltu svo öllu sem eftir er af blóðinu niður við altarið.+ 13 Taktu allan mörinn+ sem þekur garnirnar, fituna á lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenndu það svo að reykurinn stígi upp af altarinu.+ 14 En kjötið af nautinu, húðina og gorið áttu að brenna fyrir utan búðirnar. Þetta er syndafórn.
15 Taktu nú annan hrútinn, og Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hans.+ 16 Slátraðu hrútnum og taktu blóðið og slettu því á allar hliðar altarisins.+ 17 Hlutaðu hrútinn sundur, þvoðu garnirnar+ og skankana og raðaðu stykkjunum á altarið ásamt höfðinu. 18 Brenndu allan hrútinn þannig að reykurinn stígi upp af altarinu. Þetta er brennifórn handa Jehóva og honum ljúfur* ilmur.+ Þetta er eldfórn handa Jehóva.
19 Taktu síðan hinn hrútinn, og Aron og synir hans skulu leggja hendur sínar á höfuð hans.+ 20 Slátraðu hrútnum, taktu nokkuð af blóði hans og berðu á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans, á þumalfingur hægri handar þeirra og stórutá hægri fótar þeirra og slettu blóðinu á allar hliðar altarisins. 21 Taktu svo nokkuð af blóðinu sem er á altarinu og nokkuð af smurningarolíunni+ og slettu á Aron og föt hans og á syni hans og föt þeirra. Þá verða hann og föt hans heilög og synir hans og föt þeirra sömuleiðis.+
22 Taktu síðan fituna úr hrútnum, feitan dindilinn, mörinn sem þekur garnirnar, fituna á lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn+ og hægra lærið því að þetta er vígsluhrútur.+ 23 Taktu líka kringlóttan brauðhleif, kringlótt brauð með olíu og flatköku úr körfunni með ósýrða brauðinu sem er frammi fyrir Jehóva. 24 Leggðu þetta allt í hendur Arons og sona hans og láttu þá veifa því fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva. 25 Taktu það svo aftur úr höndum þeirra og brenndu það á altarinu ofan á brennifórninni svo að það verði ljúfur* ilmur frammi fyrir Jehóva. Þetta er eldfórn handa Jehóva.
26 Taktu nú bringuna af vígsluhrútnum+ sem er fórnað í þágu Arons og veifaðu henni fram og aftur sem veififórn frammi fyrir Jehóva. Hún á að koma í þinn hlut. 27 Þú skalt helga bringuna úr veififórninni og lærið úr hinni heilögu fórn sem var veifað, lærið af vígsluhrútnum+ sem var fórnað í þágu Arons og sona hans. 28 Þetta er heilög fórn sem á að tilheyra Aroni og sonum hans samkvæmt varanlegu ákvæði sem Ísraelsmenn eiga að fylgja. Þetta er heilög fórn sem Ísraelsmenn eiga að gefa+ Jehóva af samneytisfórnum sínum.+
29 Afkomendur Arons+ eiga að nota hinn heilaga fatnað+ hans eftir að þeir taka við af honum og eru smurðir og vígðir sem prestar. 30 Sá prestur af afkomendum hans sem tekur við af honum og gengur inn í samfundatjaldið til að þjóna í helgidóminum á að klæðast fötunum í sjö daga.+
31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjötið af honum á heilögum stað.+ 32 Aron og synir hans eiga að borða+ kjötið af hrútnum og brauðið sem er í körfunni við inngang samfundatjaldsins. 33 Þeir eiga að borða það sem fórnað var í friðþægingarfórn þegar þeir voru vígðir sem prestar* og voru helgaðir. En enginn óviðkomandi* má borða það því að það er heilagt.+ 34 Ef eitthvað af kjöti vígslufórnarinnar og brauðinu er eftir næsta morgun áttu að brenna það í eldi.+ Það má ekki borða það því að það er heilagt.
35 Þannig skaltu fara að við Aron og syni hans. Farðu eftir öllu sem ég hef sagt þér. Verðu sjö dögum í að vígja þá sem presta.*+ 36 Færðu naut að syndafórn daglega sem friðþægingu. Þú átt að hreinsa altarið af synd með því að friðþægja fyrir það og þú skalt smyrja það til að helga það.+ 37 Verðu sjö dögum í að friðþægja fyrir altarið og helgaðu það svo að það verði háheilagt.+ Allir sem snerta altarið verða að vera heilagir.
38 Þessu á að fórna á altarinu héðan í frá: tveim veturgömlum hrútum á hverjum degi.+ 39 Fórnaðu öðru hrútlambinu að morgni og hinu í ljósaskiptunum.*+ 40 Með fyrri hrútnum á að fórna tíunda hluta úr efu* af fínu mjöli blönduðu fjórðungi úr hín* af olíu úr steyttum ólívum, og í drykkjarfórn fjórðungi úr hín af víni. 41 Síðari hrútnum skaltu fórna í ljósaskiptunum* með sömu korn- og drykkjarfórn og um morguninn. Þetta er eldfórn handa Jehóva, ljúfur* ilmur sem honum geðjast. 42 Þetta á að vera dagleg brennifórn kynslóð eftir kynslóð við inngang samfundatjaldsins frammi fyrir Jehóva. Þar birtist ég ykkur og þar tala ég við þig.+
43 Ég birtist Ísraelsmönnum þar og staðurinn mun helgast af dýrð minni.+ 44 Ég helga samfundatjaldið og altarið, og ég helga Aron og syni hans+ til að þeir geti þjónað mér sem prestar. 45 Ég mun búa* meðal Ísraelsmanna og ég verð Guð þeirra.+ 46 Og þeir munu skilja að ég er Jehóva Guð þeirra sem leiddi þá út úr Egyptalandi til að ég gæti búið meðal þeirra.+ Ég er Jehóva Guð þeirra.