Fyrsta Mósebók
38 Um þessar mundir fór Júda burt frá bræðrum sínum og sló upp tjaldi sínu í nágrenni við mann sem hét Híra og var frá Adúllam. 2 Þar sá Júda dóttur kanversks manns+ sem hét Súa. Hann tók hana sér fyrir konu og hafði kynmök við hana. 3 Hún varð barnshafandi og eignaðist son sem hann nefndi Er.+ 4 Hún varð aftur barnshafandi og fæddi son sem hún nefndi Ónan. 5 Og hún fæddi enn einn soninn og nefndi hann Sela, en þau* voru í Aksíb+ þegar hún fæddi hann.
6 Þegar fram liðu stundir tók Júda konu handa Er frumburði sínum. Hún hét Tamar.+ 7 En Er frumburður Júda gerði það sem var illt í augum Jehóva svo að Jehóva lét hann deyja. 8 Júda sagði þá við Ónan: „Gifstu konu bróður þíns og gegndu mágskyldunni* við hana. Leggstu með henni til að bróðir þinn eignist afkomendur.“+ 9 En Ónan vissi að afkomendurnir yrðu ekki álitnir hans.+ Í hvert skipti sem hann hafði mök við konu bróður síns lét hann sæðið fara til spillis á jörðina til að komast hjá því að afla bróður sínum afkomenda.+ 10 Það sem hann gerði var rangt í augum Jehóva og hann lét hann því einnig deyja.+ 11 Júda sagði við Tamar tengdadóttur sína: „Búðu sem ekkja í húsi föður þíns þangað til Sela sonur minn verður fullvaxta,“ því að hann hugsaði með sér: „Annars deyr hann eins og bræður hans.“+ Tamar fór þá heim til föður síns og bjó hjá honum.
12 Nokkru seinna dó kona Júda, dóttir Súa.+ Þegar sorgartíminn var liðinn fór Júda til rúningsmanna sinna í Timna+ ásamt Híra, vini sínum frá Adúllam.+ 13 Tamar var þá sagt: „Tengdafaðir þinn er á leiðinni upp til Timna að rýja fé sitt.“ 14 Hún fór þá úr ekkjuklæðunum, huldi sig með blæju og sveipaði sig sjali og settist síðan við hlið Enaím sem er við veginn til Timna. Hún vissi nefnilega að Sela var orðinn fullvaxta en hún hafði samt ekki verið gefin honum fyrir konu.+
15 Þegar Júda sá hana hélt hann að hún væri vændiskona þar sem hún hafði hulið andlit sitt. 16 Hann gekk að vegkantinum til hennar og sagði: „Leyfðu mér að leggjast með þér,“ en hann vissi ekki að hún var tengdadóttir hans.+ „Hvað viltu gefa mér til að fá að leggjast með mér?“ spurði hún. 17 „Ég skal senda þér kiðling úr hjörð minni,“ svaraði hann en hún sagði: „Láttu mig þá hafa tryggingu fyrir því þangað til þú sendir hann.“ 18 „Hvað viltu fá sem tryggingu?“ spurði hann. „Innsiglishring+ þinn, snærið og stafinn sem þú heldur á,“ svaraði hún. Hann gaf henni það sem hún bað um og hafði mök við hana, og hún varð barnshafandi af hans völdum. 19 Hún stóð síðan upp og gekk burt, tók af sér sjalið og klæddi sig aftur í ekkjuklæðin.
20 Júda sendi kiðlinginn með vini sínum frá Adúllam+ til að fá aftur trygginguna frá konunni, en hann fann hana hvergi. 21 Hann spurði mennina á staðnum: „Hvar er vændiskonan* sem var við veginn hjá Enaím?“ En þeir svöruðu: „Hér hefur aldrei verið nein vændiskona.“ 22 Að lokum sneri hann aftur til Júda og sagði: „Ég fann hana hvergi enda sögðu mennirnir á staðnum: ‚Hér hefur aldrei verið nein vændiskona.‘“ 23 Þá sagði Júda: „Hún skal þá halda því sem hún fékk svo að við verðum ekki að athlægi. Ég reyndi að minnsta kosti að senda henni kiðlinginn en þú fannst hana ekki.“
24 Þrem mánuðum síðar var Júda sagt: „Tamar tengdadóttir þín hefur gerst sek um vændi og er orðin barnshafandi.“ Þá sagði Júda: „Leiðið hana út. Hún skal líflátin og brennd.“+ 25 Þegar hún var leidd út sendi hún tengdaföður sínum þessi boð: „Ég er ólétt eftir manninn sem á þetta.“ Og hún bætti við: „Kannaðu hver á þennan innsiglishring, snæri og staf.“+ 26 Júda þekkti gripina og sagði: „Hún er réttlátari en ég af því að ég gifti hana ekki Sela syni mínum.“+ Og hann hafði ekki framar mök við hana.
27 Þegar kom að því að hún átti að fæða kom í ljós að hún gekk með tvíbura. 28 Í fæðingunni rétti annar þeirra út höndina. Ljósmóðirin tók þá skarlatsrauðan þráð, batt um hönd hans og sagði: „Þessi kom á undan.“ 29 En hann kippti að sér hendinni og bróðir hans kom út. Þá sagði hún: „Þú hefur aldeilis rutt þér leið út!“ Þess vegna var hann nefndur Peres.*+ 30 Síðan fæddist bróðir hans sem hafði skarlatsrauða þráðinn um höndina. Hann fékk nafnið Sera.+