Fyrri Konungabók
10 Drottningin af Saba heyrði það orð sem fór af Salómon og að frægð hans væri nafni Jehóva að þakka.+ Hún kom því til að reyna hann með erfiðum spurningum.*+ 2 Hún kom til Jerúsalem ásamt miklu fylgdarliði+ og hafði með sér úlfalda sem voru klyfjaðir balsamolíu,+ miklu gulli og eðalsteinum. Hún gekk fyrir Salómon og talaði við hann um allt sem henni var hugleikið. 3 Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Ekkert vafðist fyrir* konungi heldur gat hann útskýrt allt fyrir henni.
4 Þegar drottningin af Saba hafði séð alla visku Salómons,+ húsið sem hann hafði byggt,+ 5 matinn á borði hans,+ sætaskipan embættismanna hans, hvernig þjónar hans þjónuðu til borðs og voru klæddir, drykkjarþjónana og brennifórnirnar sem hann færði stöðugt í húsi Jehóva varð hún agndofa af undrun. 6 Hún sagði við konung: „Það sem ég heyrði í landi mínu um afrek* þín og visku var satt. 7 En ég trúði ekki því sem ég heyrði fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Mér hafði þó ekki verið sagt frá helmingnum! Viska þín og velmegun er miklu meiri en ég hafði heyrt um. 8 Menn þínir og þjónar eru lánsamir að vera alltaf hjá þér og heyra visku þína.+ 9 Lofaður sé Jehóva Guð þinn+ sem setti þig í hásæti Ísraels af því að hann hafði velþóknun á þér. Jehóva gerði þig að konungi til að tryggja rétt og réttlæti af því að hann elskar Ísrael ævinlega.“
10 Síðan gaf hún konungi 120 talentur* af gulli, afar mikið af balsamolíu+ og eðalsteina.+ Aldrei framar kom eins mikið af balsamolíu og drottningin af Saba gaf Salómon konungi.
11 Skipafloti Hírams, sem kom með gull frá Ófír,+ flutti einnig þaðan eðalsteina og afar mikið af algúmmímviði.+ 12 Úr algúmmímviðnum gerði konungur stoðir fyrir hús Jehóva og konungshöllina og einnig hörpur og önnur strengjahljóðfæri handa söngvurunum.+ Slíkur algúmmímviður hefur hvorki borist hingað né sést fram á þennan dag.
13 Salómon konungur gaf drottningunni af Saba allt sem hún óskaði sér og bað um, auk þess sem hann gaf henni af örlæti sínu. Síðan sneri hún aftur heim til lands síns ásamt þjónum sínum.+
14 Gullið sem Salómon fékk á hverju ári vó 666 talentur.+ 15 Auk þess hagnaðist hann á viðskiptum kaupmanna og verslunarmanna og á öllum konungum Araba og héraðsstjórum landsins.
16 Salómon konungur gerði 200 stóra skildi úr gullblendi,+ en 600 siklar* af gulli fóru í hvern skjöld.+ 17 Hann gerði einnig 300 litla skildi* úr gullblendi, en þrjár mínur* af gulli fóru í hvern þeirra. Konungur kom þeim síðan fyrir í Líbanonsskógarhúsinu.+
18 Konungur gerði einnig stórt hásæti+ úr fílabeini og lagði það skíragulli.+ 19 Sex þrep voru upp að hásætinu og bak við það var bogadreginn himinn. Sætisarmar voru báðum megin á hásætinu og ljón+ stóð við hvorn þeirra. 20 Á þrepunum sex stóðu 12 ljón, sex hvorum megin. Ekkert þessu líkt hafði verið gert í nokkru öðru ríki.
21 Öll drykkjarílát Salómons konungs voru úr gulli og allur borðbúnaður í Líbanonsskógarhúsinu+ var úr hreinu gulli. Ekkert var úr silfri því að silfur var einskis metið á dögum Salómons+ 22 enda átti konungur fjölda Tarsisskipa+ úti á hafi sem sigldu með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsisskipin hlaðin silfri og gulli, fílabeini,+ öpum og páfuglum.
23 Salómon konungur var ríkari+ og vitrari+ en allir aðrir konungar jarðar+ 24 og fólk alls staðar að úr heiminum leitaði til Salómons til að heyra þá visku sem Guð hafði lagt í hjarta hans.+ 25 Allir komu með gjafir ár eftir ár: silfur- og gullgripi, fatnað, vopn, balsamolíu, hesta og múldýr.
26 Salómon kom sér upp vögnum og hestum.* Hann átti 1.400 vagna og 12.000 hesta.*+ Hann geymdi þá í vagnaborgunum og hjá sér í Jerúsalem.+
27 Konungur gerði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins algengan og mórfíkjutrén í Sefela.+
28 Hestar Salómons voru fluttir inn frá Egyptalandi.* Kaupmenn konungs keyptu þá í hjörðum* á föstu verði.+ 29 Vagnarnir sem voru fluttir inn frá Egyptalandi kostuðu 600 silfursikla hver og hver hestur 150 sikla. Síðan voru þeir fluttir út til allra konunga Hetíta+ og konunga Sýrlands.