Fyrsta Mósebók
32 Jakob hélt ferð sinni áfram og englar Guðs urðu á vegi hans. 2 Þegar hann sá þá sagði hann: „Þetta eru búðir Guðs.“ Og hann nefndi staðinn Mahanaím.*
3 Jakob sendi menn á undan sér með boð til Esaú bróður síns í Seírlandi,+ einnig kallað Edóm,+ 4 og sagði við þá: „Þetta skuluð þið segja við Esaú herra minn: ‚Jakob þjónn þinn segir: „Ég hef búið* lengi hjá Laban, allt til þessa,+ 5 og hef eignast naut, asna og sauðfé, þjóna og þjónustustúlkur.+ Ég sendi nú þessi boð til að upplýsa herra minn um þetta í von um að hljóta velþóknun þína.“‘“
6 Mennirnir sneru aftur til Jakobs og sögðu: „Við hittum Esaú bróður þinn. Hann er á leiðinni til þín ásamt 400 manna fylgdarliði.“+ 7 Jakob varð mjög hræddur og kvíðinn.+ Hann skipti fólkinu sem var með honum í tvo flokka ásamt sauðfénu, geitunum, nautgripunum og úlföldunum. 8 „Ef Esaú ræðst á annan flokkinn getur hinn komist undan,“ sagði hann.
9 Síðan sagði Jakob: „Jehóva, Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, þú sem hefur sagt við mig: ‚Snúðu aftur til lands þíns og til ættingja þinna og ég mun gera vel við þig.‘+ 10 Ég verðskulda ekki allan þann trygga kærleika og trúfesti sem þú hefur sýnt þjóni þínum.+ Ég hafði ekkert nema staf minn þegar ég fór yfir Jórdan en nú er ég orðinn að tveim flokkum.+ 11 Bjargaðu mér+ undan Esaú bróður mínum því að ég er hræddur við hann, að hann ráðist á mig,+ konurnar og börnin. 12 Þú hefur sagt: ‚Ég mun gera vel við þig og gera afkomendur þína eins og sandkorn sjávarins sem ekki er hægt að telja.‘“+
13 Jakob gisti þar um nóttina. Síðan tók hann hluta af því sem hann hafði eignast til að gefa Esaú bróður sínum:+ 14 200 geitur, 20 geithafra, 200 ær, 20 hrúta, 15 30 úlfaldahryssur með folöld á spena, 40 kýr, 10 naut, 20 ösnur og 10 fullvaxta asna.+
16 Hann fékk dýrin í hendur þjónum sínum, hverja hjörð fyrir sig, og sagði við þá: „Farið á undan mér og hafið bil á milli hjarðanna.“ 17 Hann sagði við þann sem fór fyrstur: „Ef þú hittir Esaú bróður minn og hann spyr þig: ‚Hver er húsbóndi þinn? Hvert er ferðinni heitið og hver á dýrin sem ganga á undan þér?‘ 18 þá skaltu svara: ‚Jakob þjónn þinn er húsbóndi minn. Dýrin eru gjöf sem hann sendir Esaú herra mínum.+ Og hann kemur sjálfur á eftir okkur.‘“ 19 Hann gaf öðrum þjóninum og þeim þriðja og öllum sem ráku hjarðirnar sömu fyrirmæli og sagði: „Segið þetta við Esaú þegar þið hittið hann. 20 Segið líka: ‚Jakob þjónn þinn kemur á eftir okkur.‘“ Hann hugsaði með sér: „Ef ég blíðka hann með því að senda gjöf á undan mér+ má vera að hann taki mér vel þegar ég hitti hann.“ 21 Þannig fór gjöfin á undan honum en sjálfur var hann þessa nótt í búðunum.
22 Um nóttina lagði hann af stað ásamt báðum konum sínum,+ báðum þjónustustúlkum sínum+ og sonum sínum 11 og fór yfir Jabbok+ á vaðinu. 23 Hann leiddi þau yfir ána og tók með allt annað sem hann átti.
24 Loks varð Jakob einn eftir. Þá kom maður nokkur og glímdi við hann allt fram í dögun.+ 25 Þegar hann sá að hann gat ekki sigrað Jakob sló hann hann í mjöðmina* svo að hann fór úr mjaðmarlið þegar þeir glímdu.+ 26 „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að það fer að birta af degi.“ „Ég sleppi þér ekki fyrr en þú hefur blessað mig,“+ svaraði Jakob. 27 „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. 28 Þá sagði maðurinn: „Þú skalt ekki lengur heita Jakob heldur Ísrael*+ því að þú hefur glímt við Guð+ og menn og sigrað að lokum.“ 29 Jakob sagði við hann: „Segðu mér hvað þú heitir.“ En hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig hvað ég heiti?“+ Og hann blessaði hann þar. 30 Jakob nefndi staðinn Peníel*+ því að hann sagði: „Ég hef séð Guð augliti til auglitis og samt haldið lífi.“+
31 Hann fór frá Penúel* þegar sólin var að koma upp en hann haltraði vegna mjaðmarinnar.+ 32 Þess vegna borða Ísraelsmenn fram á þennan dag ekki sinina* sem er við mjaðmarskálina því að hann sló Jakob í mjöðmina þar sem sinin er.