Fimmta Mósebók
15 Í lok sjöunda hvers árs skaltu fella niður skuldir.+ 2 Svona skaltu fara að: Hver lánardrottinn á að gefa náunga sínum eftir skuldina sem hann hefur stofnað til. Hann á ekki að krefja náunga sinn eða bróður um greiðslu þar sem niðurfellingin er gerð Jehóva til heiðurs.+ 3 Þú mátt krefja útlending um greiðslu+ en þú átt að gefa bróður þínum eftir allt sem hann skuldar þér. 4 Enginn á meðal ykkar á þó að þurfa að verða fátækur því að Jehóva mun blessa þig+ í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðalandi 5 en aðeins ef þú hlýðir Jehóva Guði þínum og heldur samviskusamlega öll þau boðorð sem ég gef þér í dag.+ 6 Jehóva Guð þinn blessar þig eins og hann hefur lofað. Þú munt lána* mörgum þjóðum en sjálfur þarftu ekki að taka lán.+ Og þú munt ríkja yfir mörgum þjóðum en þær munu ekki ríkja yfir þér.+
7 Ef einhver bræðra þinna í einni af borgunum í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér verður fátækur skaltu ekki herða hjarta þitt né vera nískur við fátækan bróður þinn.+ 8 Ljúktu fúslega upp hendi þinni+ og lánaðu honum* hvað sem hann þarfnast eða skortir. 9 Gættu þess að ala ekki þessa illu hugsun í brjósti þér: ‚Það er stutt í sjöunda árið, lausnarárið,‘+ svo að þú verðir nískur við fátækan bróður þinn og gefir honum ekkert. Ef hann hrópar til Jehóva út af þér verður það reiknað þér til syndar.+ 10 Vertu örlátur við hann+ og gefðu* honum ekki með ólund. Þá mun Jehóva Guð þinn blessa allt sem þú gerir og tekur þér fyrir hendur.+ 11 Það verða alltaf einhverjir fátækir í landinu.+ Þess vegna segi ég þér: ‚Ljúktu fúslega upp hendi þinni fyrir bágstöddum og fátækum bróður þínum í landinu.‘+
12 Ef samlandi þinn, hebreskur karl eða kona, er seldur þér og hefur þjónað þér í sex ár áttu að veita honum frelsi á sjöunda árinu.+ 13 Og þegar þú veitir honum frelsi skaltu ekki láta hann fara tómhentan frá þér. 14 Vertu örlátur og gefðu honum eitthvað af hjörð þinni, af þreskivelli þínum og úr olíu- og vínpressu þinni. Gefðu honum í samræmi við þá blessun sem Jehóva Guð þinn hefur veitt þér. 15 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi og að Jehóva Guð þinn frelsaði* þig. Þess vegna segi ég þér í dag að gera þetta.
16 En ef þrællinn segir við þig: ‚Ég vil ekki fara frá þér,‘ af því að hann elskar þig og fjölskyldu þína og honum hefur liðið vel hjá þér+ 17 skaltu taka al og stinga honum gegnum eyra hans og í hurðina. Hann verður þá þræll þinn til æviloka. Eins skaltu gera við ambátt þína. 18 Láttu þér ekki gremjast að þurfa að veita þrælnum frelsi og sjá á bak honum því að störf hans fyrir þig á sex árum voru tvöfalt meira virði en störf launamanns og Jehóva Guð þinn hefur blessað þig í öllu sem gert var.
19 Helgaðu Jehóva Guði þínum alla karlkyns frumburði af nautgripum þínum, sauðfé og geitum.+ Þú mátt ekki nota frumburði nautgripa þinna til vinnu né rýja frumburði sauða þinna. 20 Á hverju ári skaltu borða þá með fjölskyldu þinni frammi fyrir Jehóva Guði þínum á staðnum sem Jehóva velur.+ 21 En ef skepnan er með galla – er hölt, blind eða með annan slæman galla – máttu ekki færa hana Jehóva Guði þínum að fórn.+ 22 Þú átt að borða hana í borg þinni.* Bæði óhreinn maður og hreinn mega borða hana eins og hún væri gasella eða hjartardýr.+ 23 En þú mátt ekki neyta blóðsins.+ Þú skalt hella því á jörðina eins og vatni.+