Fjórða Mósebók
22 Ísraelsmenn héldu nú af stað og tjölduðu á eyðisléttum Móabs austan við Jórdan, gegnt Jeríkó.+ 2 Balak+ Sippórsson frétti hvernig Ísraelsmenn höfðu sigrað Amoríta 3 og Móabítar urðu mjög hræddir við þá því að þeir voru svo fjölmennir. Já, Móabítar fylltust skelfingu gagnvart Ísraelsmönnum.+ 4 Móabítar sögðu því við öldunga Midíans:+ „Þessi mannfjöldi á eftir að gleypa allt umhverfis okkur eins og naut étur grasið í haganum.“
Balak Sippórsson var konungur Móabs á þeim tíma. 5 Hann sendi menn til Bíleams Beórssonar sem bjó í heimalandi sínu í Petór+ við Fljótið.* Hann boðaði hann á sinn fund og lét segja við hann: „Þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Hún þekur yfirborð* jarðar*+ og hefur sest að beint á móti mér. 6 Komdu og bölvaðu þessu fólki fyrir mig+ því að það er öflugra en ég. Þá get ég kannski sigrað það og hrakið það burt úr landinu því að ég veit að sá sem þú blessar er blessaður og sá sem þú bölvar er bölvaður.“
7 Öldungar Móabs og öldungar Midíans lögðu þá af stað með spásagnarlaunin, fóru til Bíleams+ og fluttu honum boðin frá Balak. 8 Hann svaraði þeim: „Verið hér í nótt. Ég kem aftur og segi ykkur hvað Jehóva segir mér.“ Höfðingjar Móabs voru þá um kyrrt hjá Bíleam.
9 Guð kom nú til Bíleams og spurði:+ „Hvaða menn eru þetta hjá þér?“ 10 Bíleam svaraði hinum sanna Guði: „Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefur sent mér þessi boð: 11 ‚Þjóðin sem kemur frá Egyptalandi þekur yfirborð* jarðar.* Komdu og bölvaðu henni fyrir mig.+ Þá get ég ef til vill barist gegn henni og hrakið hana burt.‘“ 12 En Guð sagði við Bíleam: „Þú skalt ekki fara með þeim. Þú mátt ekki bölva þjóðinni því að hún er blessuð.“+
13 Morguninn eftir fór Bíleam á fætur og sagði við höfðingja Balaks: „Farið heim til lands ykkar því að Jehóva leyfir mér ekki að fara með ykkur.“ 14 Höfðingjar Móabs sneru þá aftur til Balaks og sögðu: „Bíleam neitaði að koma með okkur.“
15 En Balak sendi aftur til hans höfðingja, fleiri og virtari en í fyrri hópnum. 16 Þeir komu til Bíleams og sögðu við hann: „Balak Sippórsson segir: ‚Láttu ekkert aftra þér frá að koma til mín 17 því að ég ætla að veita þér mikinn heiður og gera allt sem þú segir mér. Komdu því og bölvaðu þessari þjóð fyrir mig.‘“ 18 En Bíleam svaraði þjónum Balaks: „Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli gæti ég ekki gert neitt umfram það sem Jehóva Guð minn gefur mér fyrirmæli um, hvorki smátt né stórt.+ 19 Verið samt hér í nótt svo að ég geti kannað hvað fleira Jehóva segir mér.“+
20 Um nóttina kom Guð til Bíleams og sagði: „Ef þessir menn eru komnir til að sækja þig skaltu fara með þeim. En þú mátt ekki segja neitt annað en það sem ég segi þér.“+ 21 Bíleam fór á fætur um morguninn, lagði á ösnu sína og fór með höfðingjum Móabs.+
22 En reiði Guðs blossaði upp vegna þess að hann fór og engill Jehóva tók sér stöðu á veginum til að hindra för hans. Bíleam kom ríðandi á ösnunni og tveir þjónar hans voru með honum. 23 Þegar asnan sá engil Jehóva standa á veginum með brugðið sverð í hendi beygði hún út af. En Bíleam barði ösnuna til að koma henni aftur inn á veginn. 24 Engill Jehóva tók sér þá stöðu á mjóum stíg milli tveggja víngarða og það voru grjótgarðar á báðar hendur. 25 Þegar asnan sá engil Jehóva þrengdi hún sér upp að öðrum garðinum svo að fótur Bíleams klemmdist í milli, og Bíleam barði hana aftur.
26 Engill Jehóva fór nú fram úr þeim og staðnæmdist þar sem vegurinn var svo mjór að hvorki var hægt að víkja til hægri né vinstri. 27 Þegar asnan sá engil Jehóva lagðist hún niður undir Bíleam. Bíleam reiddist heiftarlega og barði ösnuna með stafnum sínum. 28 Þá lét Jehóva ösnuna tala*+ og hún sagði við Bíleam: „Hvað hef ég gert þér? Þú ert búinn að berja mig þrisvar.“+ 29 Bíleam svaraði ösnunni: „Þú hefur haft mig að fífli. Bara að ég væri með sverð í hendi, þá myndi ég drepa þig!“ 30 Þá sagði asnan við Bíleam: „Er ég ekki asnan þín sem þú hefur riðið alla ævi, allt fram á þennan dag? Hef ég nokkurn tíma farið svona með þig áður?“ „Nei,“ svaraði hann. 31 Jehóva opnaði nú augu+ Bíleams og hann sá engil Jehóva standa á veginum með brugðið sverð í hendi. Hann kraup undireins og féll á grúfu.
32 Engill Jehóva sagði við hann: „Af hverju hefurðu barið ösnuna þína þrisvar? Ég kom til að stöðva þig af því að þú ferð gegn vilja mínum.+ 33 Asnan sá mig og reyndi þrisvar að víkja úr vegi fyrir mér.+ Hugsaðu þér ef hún hefði ekki gert það. Þá hefði ég drepið þig en látið ösnuna lifa.“ 34 Bíleam svaraði engli Jehóva: „Ég hef syndgað. Ég vissi ekki að það varst þú sem stóðst fyrir mér á veginum. Ef þér finnst ég vera að gera rangt skal ég snúa við.“ 35 En engill Jehóva sagði við Bíleam: „Farðu með mönnunum en þú mátt ekki segja neitt annað en það sem ég segi þér.“ Bíleam hélt þá ferðinni áfram með höfðingjum Balaks.
36 Þegar Balak frétti að Bíleam væri kominn fór hann tafarlaust á móti honum og mætti honum fyrir utan þá borg Móabs sem stendur við bakka Arnon á landamærunum. 37 Balak spurði Bíleam: „Sendi ég ekki eftir þér? Hvers vegna komstu ekki? Trúðirðu ekki að ég gæti veitt þér mikinn heiður?“+ 38 Bíleam svaraði Balak: „Ég er kominn núna. En fæ ég að segja eitthvað? Ég get aðeins sagt það sem Guð leggur mér í munn.“+
39 Bíleam fór síðan með Balak og þeir komu til Kirjat Kúsót. 40 Balak fórnaði nautum og sauðum og sendi Bíleam og höfðingjunum sem voru með honum nokkuð af kjötinu. 41 Morguninn eftir fór Balak með Bíleam upp á Bamót Baal. Þaðan gat hann séð allt fólkið.+