Fimmta Mósebók
10 Þá sagði Jehóva við mig: ‚Þú skalt höggva þér tvær steintöflur eins og þær fyrri+ og koma til mín upp á fjallið. Gerðu þér einnig örk* úr tré. 2 Ég ætla að skrifa á þær sömu orð og stóðu á fyrri töflunum, þeim sem þú braust, og þú skalt síðan leggja þær í örkina.‘ 3 Ég gerði þá örk úr akasíuviði og hjó til tvær steintöflur eins og þær fyrri og fór upp á fjallið með báðar töflurnar í hendinni.+ 4 Síðan skrifaði Jehóva á töflurnar sömu orð og hann hafði skrifað áður,+ boðorðin tíu*+ sem hann hafði gefið ykkur munnlega úr eldinum á fjallinu+ daginn sem þið söfnuðust saman.+ Eftir það fékk Jehóva mér þær. 5 Ég fór niður af fjallinu+ og lagði töflurnar í örkina sem ég hafði gert eins og Jehóva hafði gefið mér fyrirmæli um, og þar eru þær enn.
6 Ísraelsmenn fóru síðan frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var jarðaður,+ og Eleasar sonur hans tók við af honum sem prestur.+ 7 Þaðan fóru þeir til Gúdgóda og frá Gúdgóda til Jotbata+ en þar er fjöldi áa og lækja.
8 Þá aðgreindi Jehóva ættkvísl Leví+ frá hinum ættkvíslunum til að bera sáttmálsörk Jehóva,+ standa frammi fyrir Jehóva og þjóna honum og til að blessa í nafni hans+ eins og hún gerir enn í dag. 9 Þess vegna hefur Leví ekki fengið erfða- eða eignarhlut með bræðrum sínum. Jehóva er erfðahlutur hans eins og Jehóva Guð þinn sagði honum.+ 10 Ég dvaldi á fjallinu í 40 daga og 40 nætur+ eins og í fyrra skiptið og Jehóva hlustaði einnig á mig í þetta sinn.+ Jehóva vildi ekki útrýma ykkur. 11 Síðan sagði Jehóva við mig: ‚Gakktu fram fyrir fólkið og láttu það búast til brottfarar svo að það geti tekið landið sem ég sór forfeðrum þess að gefa því.‘+
12 Og nú, Ísrael, til hvers ætlast Jehóva Guð þinn af þér?+ Aðeins að þú óttist Jehóva Guð þinn,+ gangir á öllum vegum hans,+ elskir hann, þjónir Jehóva Guði þínum af öllu hjarta og allri sál*+ 13 og haldir boðorð og ákvæði Jehóva sem ég flyt þér í dag, þér til góðs.+ 14 Himinninn, já, himnar himnanna,* og jörðin og allt sem á henni er tilheyrir Jehóva Guði þínum.+ 15 En það voru aðeins forfeður ykkar sem Jehóva elskaði og tengdist, og hann hefur útvalið ykkur, afkomendur þeirra,+ af öllum þjóðum og nú tilheyrið þið honum. 16 Hreinsið* hjörtu ykkar+ og hættið að vera svona þrjósk*+ 17 því að Jehóva Guð ykkar er Guð guðanna+ og Drottinn drottnanna, hinn mikli, máttugi og mikilfenglegi Guð sem mismunar engum+ og þiggur ekki mútur. 18 Hann sér um að föðurlaus börn* og ekkjur njóti réttlætis+ og hann elskar útlendinginn+ og gefur honum fæði og klæði. 19 Þið skuluð líka elska útlendinginn því að þið voruð sjálf útlendingar í Egyptalandi.+
20 Jehóva Guð þinn skaltu óttast. Þú skalt þjóna honum+ og halda þig fast við hann, og við nafn hans skaltu sverja. 21 Hann áttu að lofa.+ Hann er Guð þinn sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og mikilfenglegu verk sem þú hefur séð með eigin augum.+ 22 Forfeður ykkar voru 70 talsins þegar þeir fóru til Egyptalands+ en nú hefur Jehóva Guð ykkar gert ykkur eins mörg og stjörnur himinsins.+