Esterarbók
3 Þegar fram liðu stundir hækkaði Ahasverus konungur Haman,+ son Hamdata Agagíta,+ í tign og veitti honum æðri stöðu en öllum hinum höfðingjunum sem voru með honum.+ 2 Allir þjónar konungs sem voru í konungshliðinu hneigðu sig og féllu fram fyrir Haman því að konungur hafði fyrirskipað það. En Mordekaí neitaði að hneigja sig og falla á kné. 3 Þjónar konungs sem voru í konungshliðinu spurðu Mordekaí: „Af hverju hlýðirðu ekki skipun konungs?“ 4 Þeir spurðu hann um þetta dag eftir dag en hann hlustaði ekki á þá. Þá sögðu þeir Haman frá þessu til að sjá hvort Mordekaí kæmist upp með það,+ en Mordekaí hafði sagt þeim að hann væri Gyðingur.+
5 Þegar Haman sá að Mordekaí hneigði sig hvorki né féll fram fyrir honum reiddist hann heiftarlega.+ 6 Hann vildi taka Mordekaí af lífi* en fannst það ekki nóg því að menn höfðu sagt honum hverrar þjóðar Mordekaí var. Haman fór þess vegna að velta fyrir sér hvernig hann gæti útrýmt Gyðingum í öllu ríki Ahasverusar, allri þjóð Mordekaí.
7 Í fyrsta mánuðinum, það er nísan,* á 12. ári+ Ahasverusar konungs vörpuðu menn púr+ (það er hlutkesti) frammi fyrir Haman til að ákveða mánuð og dag. Hluturinn féll á 12. mánuðinn, það er adar.*+ 8 Haman sagði þá við Ahasverus konung: „Meðal þjóðanna í skattlöndum ríkis þíns+ er ein þjóð sem hefur dreifst víða.+ Lög hennar eru ólík lögum allra annarra þjóða og fólkið fylgir ekki lögum konungs. Það er ekki konungi í hag að láta það afskiptalaust. 9 Ef konungi hugnast gefðu þá út skriflega tilskipun um að þessari þjóð verði útrýmt. Ég skal greiða embættismönnunum 10.000 silfurtalentur* til að leggja í fjárhirslu konungs.“*
10 Þá dró konungur innsiglishringinn+ af hendi sér og fékk hann Haman,+ syni Hamdata Agagíta,+ óvini Gyðinga. 11 Konungur sagði við Haman: „Þú færð bæði silfrið og fólkið og þú mátt fara með það eins og þú vilt.“ 12 Ritarar konungs+ voru kallaðir saman á 13. degi fyrsta mánaðarins. Þeir skráðu+ öll fyrirmæli Hamans til æðstu embættismanna* konungs, landstjóra skattlandanna og höfðingja hverrar þjóðar, til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar. Þetta var skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring hans.+
13 Bréfin voru send með hraðboðum til allra skattlanda konungs. Fyrirmælin voru þau að drepa, eyða og útrýma skyldi öllum Gyðingum, jafnt ungum sem öldnum, börnum og konum, á einum degi, 13. degi 12. mánaðarins, það er adarmánaðar,+ og leggja skyldi hald á eigur þeirra.+ 14 Skjalið skyldi hafa lagagildi í öllum skattlöndunum og afrit skyldi birt öllum þjóðum svo að þær yrðu viðbúnar á þeim degi. 15 Lögin voru gefin út í virkisborginni* Súsa+ og hraðboðarnir flýttu sér af stað+ að boði konungs. Konungur og Haman settust að drykkju en íbúar Súsa voru skelfingu lostnir.