Síðari Samúelsbók
11 Í ársbyrjun,* um það leyti sem konungar fara í hernað, sendi Davíð Jóab af stað með þjóna sína og allan her Ísraels til að gera út af við Ammóníta. Þeir settust um Rabba+ en Davíð var um kyrrt í Jerúsalem.+
2 Kvöld eitt* steig Davíð fram úr rúminu og gekk um á þaki konungshallarinnar. Ofan af þakinu sá hann konu vera að baða sig. Konan var mjög falleg. 3 Davíð sendi mann til að spyrjast fyrir um konuna og honum var sagt: „Þetta er Batseba+ Elíamsdóttir,+ eiginkona Úría+ Hetíta.“+ 4 Davíð sendi þá menn til að sækja hana.+ Hún kom til hans og hann lagðist með henni.+ (En hún hafði verið að hreinsa sig af óhreinleika sínum.*)+ Síðan fór hún aftur heim til sín.
5 Konan varð barnshafandi og sendi Davíð þessi boð: „Ég á von á barni.“ 6 Davíð sendi þá Jóab svohljóðandi boð: „Sendu Úría Hetíta til mín.“ Og Jóab sendi Úría til Davíðs. 7 Þegar Úría kom til hans spurði Davíð hvernig Jóab og hermennirnir hefðu það og hvernig stríðið gengi. 8 Síðan sagði Davíð við Úría: „Farðu heim og taktu það rólega.“* Eftir að Úría var farinn úr höllinni var gjöf* frá konungi send á eftir honum. 9 En Úría fór ekki heim heldur svaf við inngang hallarinnar hjá öllum hinum þjónum herra síns. 10 Davíð var sagt: „Úría fór ekki heim til sín.“ Þá spurði Davíð Úría: „Ertu ekki nýkominn úr ferð? Hvers vegna fórstu ekki heim til þín?“ 11 Úría svaraði: „Örkin,+ Ísrael og Júda búa í fábrotnum híbýlum og Jóab herra minn og menn hans eru í tjöldum úti á víðavangi. Á ég þá að fara heim til að borða og drekka og leggjast með konunni minni?+ Svo sannarlega sem þú lifir og dregur andann ætla ég ekki að gera það.“
12 Davíð sagði við Úría: „Vertu þá hér í dag og á morgun sendi ég þig burt.“ Úría var því um kyrrt í Jerúsalem þennan dag og daginn eftir. 13 Davíð sendi eftir honum og bauð honum að koma og borða og drekka með sér og hann hélt að honum víni þar til hann varð drukkinn. En um kvöldið fór Úría og lagðist til svefns í rúmi sínu hjá þjónum herra síns í stað þess að fara heim til sín. 14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría. 15 Hann sagði í bréfinu: „Setjið Úría í fremstu víglínu þar sem bardaginn er harðastur. Hörfið síðan frá honum svo að hann falli og láti lífið.“+
16 Jóab fylgdist grannt með borginni og sendi Úría þangað sem hann vissi að sterkir hermenn voru. 17 Þegar mennirnir í borginni komu út og börðust við Jóab féllu nokkrir af mönnum Davíðs. Úría Hetíti var meðal þeirra sem létu lífið.+ 18 Jóab sendi nú mann til Davíðs til að upplýsa hann um gang mála í stríðinu. 19 Hann sagði við sendiboðann: „Þegar þú hefur sagt konungi frá öllu sem hefur gerst í stríðinu 20 reiðist hann kannski og segir við þig: ‚Hvers vegna þurftuð þið að berjast svona nálægt borginni? Vissuð þið ekki að þeir myndu skjóta á ykkur ofan af borgarmúrnum? 21 Hver var það sem drap Abímelek+ Jerúbbesetsson?+ Var það ekki kona sem henti efri kvarnarsteini á hann ofan af borgarmúrnum í Tebes svo að hann dó? Hvers vegna þurftuð þið að fara svona nálægt múrnum?‘ Þá skaltu svara: ‚Úría Hetíti, þjónn þinn, lét líka lífið.‘“
22 Sendiboðinn fór til Davíðs og sagði honum allt sem Jóab hafði beðið hann um. 23 „Mennirnir voru okkur yfirsterkari,“ sagði sendiboðinn. „Þeir réðust á okkur úti á vellinum en við hröktum þá aftur að borgarhliðinu. 24 Þá skutu bogaskytturnar á þjóna þína ofan af múrnum og nokkrir af mönnum konungs létu lífið. Úría Hetíti, þjónn þinn, lét líka lífið.“+ 25 Davíð sagði þá við sendiboðann: „Segðu við Jóab: ‚Láttu þetta ekki slá þig út af laginu því að hver sem er getur orðið sverðinu að bráð. Hertu árásina á borgina og sigraðu hana.‘+ Og teldu í hann kjark.“
26 Eiginkona Úría syrgði mann sinn þegar hún frétti að hann væri dáinn. 27 Um leið og sorgartíminn var liðinn lét Davíð sækja hana og koma með hana heim til sín. Hún varð eiginkona hans+ og fæddi honum son. En það sem Davíð hafði gert var illt í augum Jehóva.+