Önnur Mósebók
10 Þá sagði Jehóva við Móse: „Farðu til faraós því að ég hef leyft að hjarta hans og hjörtu þjóna hans verði ósveigjanleg+ til að ég geti gert þessi tákn mín frammi fyrir honum,+ 2 og til að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum hve harðlega ég hef refsað Egyptum og hvaða tákn ég hef gert meðal þeirra.+ Þið munuð skilja að ég er Jehóva.“
3 Móse og Aron gengu þá inn til faraós og sögðu við hann: „Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: ‚Hve lengi ætlarðu að neita að lúta vilja mínum?+ Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér. 4 Ef þú neitar fólki mínu um að fara sendi ég engisprettur inn í land þitt á morgun. 5 Þær munu þekja landið svo að ekki sést til jarðar. Þær munu éta það sem eftir er og eyðilagðist ekki í haglinu og þær munu éta öll tré sem vaxa á víðavangi.+ 6 Hús þín, hús allra þjóna þinna og öll hús Egyptalands munu fyllast af þeim. Hvorki feður þínir né forfeður hafa nokkurn tíma séð annað eins.‘“+ Síðan sneri hann sér við og gekk út frá faraó.
7 Þá sögðu þjónar faraós við hann: „Hve lengi á þessi maður að hafa í hótunum við* okkur? Láttu mennina fara svo að þeir geti þjónað Jehóva Guði sínum. Ertu ekki búinn að átta þig á að Egyptaland er í rúst?“ 8 Móse og Aron voru nú sóttir og leiddir fyrir faraó. Hann sagði: „Farið og þjónið Jehóva Guði ykkar. En hverjir ætla annars að fara?“ 9 „Bæði ungir og gamlir,“ svaraði Móse. „Við tökum með okkur syni okkar og dætur og sauðfé og nautgripi+ því að við ætlum að halda Jehóva hátíð.“+ 10 En faraó sagði: „Ef ég leyfði ykkur og börnum ykkar að fara mætti með sanni segja að Jehóva standi með ykkur!+ Það er augljóst að þið hafið eitthvað illt í hyggju. 11 Ég held nú síður! Aðeins karlmennirnir mega fara og þjóna Jehóva því að það er það sem þið báðuð um.“ Síðan voru þeir reknir út frá faraó.
12 Jehóva sagði nú við Móse: „Réttu út hönd þína yfir Egyptaland svo að engispretturnar komi yfir landið og éti allan gróður, allt sem haglið skildi eftir.“ 13 Móse rétti strax staf sinn út yfir Egyptaland og Jehóva lét austanvind blása yfir landið allan þann dag og alla nóttina. Með morgninum bar austanvindurinn með sér engispretturnar. 14 Þær dreifðust um allt Egyptaland og lögðust yfir allt landið.+ Þetta var skelfileg plága.+ Aldrei áður hafði komið þvílíkur aragrúi af engisprettum og það átti aldrei eftir að gerast aftur. 15 Þær þöktu allt landið og það varð dimmt vegna þeirra.* Þær átu allan gróður í landinu og allan ávöxt sem var eftir á trjánum eftir haglið. Ekkert grænt varð eftir á trjám eða plöntum neins staðar í Egyptalandi.
16 Faraó kallaði í skyndi á Móse og Aron og sagði: „Ég hef syndgað gegn Jehóva Guði ykkar og gegn ykkur. 17 Fyrirgefið mér synd mína í þetta eina skipti og biðjið Jehóva Guð ykkar að létta þessari banvænu plágu af mér.“ 18 Hann* gekk þá út frá faraó og bað til Jehóva.+ 19 Jehóva lét nú vindinn snúast í hvassa vestanátt sem bar engispretturnar burt og feykti þeim í Rauðahafið. Ekki ein einasta engispretta varð eftir nokkurs staðar í Egyptalandi. 20 En Jehóva leyfði faraó að verða þrjóskur í hjarta+ og hann lét Ísraelsmenn ekki fara.
21 Því næst sagði Jehóva við Móse: „Réttu út höndina til himins svo að myrkur verði í Egyptalandi, svo þétt að þreifa megi á því.“ 22 Móse rétti höndina samstundis til himins og þá varð niðamyrkur um allt Egyptaland í þrjá daga.+ 23 Menn sáu ekki hver annan og enginn fór neitt í þrjá daga, en þar sem Ísraelsmenn bjuggu var bjart.+ 24 Faraó lét þá kalla á Móse og sagði: „Farið og þjónið Jehóva.+ Þið megið meira að segja taka börnin með ykkur. Skiljið bara eftir sauðfé ykkar og nautgripi.“ 25 En Móse svaraði: „Þú verður líka að sjá okkur fyrir dýrum* til að við getum fært Jehóva Guði okkar sláturfórnir og brennifórnir.+ 26 Við tökum búfé okkar með okkur. Við skiljum ekki eftir eina einustu skepnu* því að við ætlum að fórna sumum þeirra þegar við tilbiðjum Jehóva Guð okkar en við vitum ekki hvað við eigum að færa Jehóva að fórn fyrr en við komum þangað.“ 27 Jehóva leyfði faraó aftur að verða þrjóskur í hjarta og hann féllst ekki á að leyfa þeim að fara.+ 28 Faraó sagði við hann: „Komdu þér burt! Þú skalt ekki voga þér að ganga aftur á minn fund. Ef þú gerir það skaltu deyja.“ 29 „Eins og þú vilt,“ svaraði Móse. „Ég skal ekki reyna að ganga aftur á þinn fund.“