Fyrsta Mósebók
41 Tveim árum síðar dreymdi+ faraó að hann stæði við Níl. 2 Sjö fallegar og feitar kýr stigu upp úr ánni og fóru að bíta grasið á árbakkanum.+ 3 Á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar og horaðar, og tóku sér stöðu við hliðina á feitu kúnum á árbakkanum. 4 Ljótu og horuðu kýrnar átu upp fallegu og feitu kýrnar sjö. Við það vaknaði faraó.
5 Hann sofnaði aftur og dreymdi annan draum. Sjö kornöx uxu á einum stöngli, væn og þroskuð.+ 6 Á eftir þeim uxu sjö önnur kornöx sem voru grönn og skrælnuð af austanvindinum. 7 Grönnu kornöxin gleyptu vænu og þroskuðu kornöxin sjö. Við það vaknaði faraó og áttaði sig á að þetta hafði verið draumur.
8 Morguninn eftir var hann áhyggjufullur. Hann sendi því eftir öllum galdraprestum og spekingum Egyptalands og sagði þeim draumana en enginn gat ráðið þá fyrir hann.
9 Þá tók yfirdrykkjarþjónninn til máls og sagði við faraó: „Nú verð ég að játa syndir mínar. 10 Faraó reiddist okkur yfirbakaranum, þjónum sínum, og lét varpa okkur í fangelsið í húsi lífvarðarforingjans.+ 11 Nótt eina dreymdi okkur báða draum, sinn drauminn hvorn, og draumarnir höfðu hvor sína merkinguna.+ 12 Með okkur var ungur Hebrei, þjónn lífvarðarforingjans.+ Við sögðum honum draumana+ og hann réð þá báða fyrir okkur. 13 Og draumarnir rættust alveg eins og hann hafði ráðið þá – ég var settur í mitt fyrra embætti en hinn maðurinn var hengdur.“+
14 Faraó sendi þá eftir Jósef+ sem var umsvifalaust sóttur í fangelsið.*+ Hann rakaði sig og skipti um föt og gekk síðan fyrir faraó. 15 Faraó sagði við Jósef: „Mig dreymdi draum en enginn getur ráðið hann. Ég hef heyrt að þú getir ráðið hvaða draum sem þú heyrir.“+ 16 Jósef svaraði faraó: „Það er ekki ég sem flyt faraó góðan boðskap heldur Guð.“+
17 Faraó sagði þá við Jósef: „Mig dreymdi að ég stæði á bakka Nílar. 18 Sjö fallegar og feitar kýr stigu upp úr ánni og fóru að bíta grasið á árbakkanum.+ 19 Á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, veiklulegar og mjög ljótar og horaðar. Ég hef aldrei séð jafn ljótar kýr í öllu Egyptalandi. 20 Þessar horuðu og ljótu kýr átu upp feitu kýrnar sjö. 21 En þegar þær höfðu étið þær sást það ekki á þeim þar sem þær litu alveg jafn illa út og áður. Þá vaknaði ég.
22 Síðan sá ég í draumi mínum sjö kornöx vaxa á einum stöngli, væn og þroskuð.+ 23 Á eftir þeim uxu sjö visnuð kornöx, grönn og skrælnuð af austanvindinum. 24 Grönnu kornöxin gleyptu síðan vænu öxin sjö. Ég sagði galdraprestunum frá þessu+ en enginn gat útskýrt það fyrir mér.“+
25 Jósef sagði þá við faraó: „Draumar faraós merkja báðir það sama. Hinn sanni Guð hefur opinberað faraó hvað hann ætlar að gera.+ 26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár og sjö vænu kornöxin merkja líka sjö ár. Draumarnir merkja báðir það sama. 27 Sjö horuðu og ljótu kýrnar, sem komu upp á eftir hinum, merkja sjö ár og sjö tómu kornöxin, skrælnuð af austanvindinum, merkja sjö ára hungursneyð. 28 Það er eins og ég sagði: Hinn sanni Guð hefur sýnt faraó hvað hann ætlar að gera.
29 Sjö allsnægtaár munu koma um allt Egyptaland 30 en í kjölfar þeirra kemur sjö ára hungursneyð. Þá gleymast allsnægtirnar í Egyptalandi og hungursneyðin eyðir landið.+ 31 Enginn man þá eftir allsnægtunum vegna þess að hungursneyðin sem fylgir í kjölfarið verður mjög mikil. 32 Þig dreymdi þennan draum í tvígang vegna þess að hinn sanni Guð hefur fastákveðið þetta og hann mun hrinda því fljótt í framkvæmd.
33 Faraó ætti því að finna skynsaman og vitran mann og setja hann yfir Egyptaland. 34 Faraó ætti að ganga til verks og skipa umsjónarmenn í landinu og taka frá fimmtung af afrakstri Egyptalands á allsnægtaárunum sjö.+ 35 Þeir skulu safna vistum á góðu árunum sem eru í vændum og koma korninu fyrir í birgðageymslum faraós í borgunum. Þar skal það varðveitt.+ 36 Vistirnar eiga að vera forði fyrir landið þegar sjö ára hungursneyðin gengur yfir Egyptaland svo að landið eyðist ekki í hungursneyðinni.“+
37 Faraó og öllum þjónum hans leist vel á þessa tillögu. 38 Faraó sagði þá við þjóna sína: „Hver er betur til þess fallinn en þessi maður sem hefur anda Guðs?“ 39 Faraó sagði síðan við Jósef: „Enginn er jafn skynsamur og vitur og þú fyrst Guð hefur opinberað þér allt þetta. 40 Ég set þig yfir hús mitt og allt mitt fólk mun hlýða þér í einu og öllu.+ Ég einn verð þér æðri þar sem ég er konungurinn.“* 41 Faraó bætti við: „Hér með set ég þig yfir allt Egyptaland.“+ 42 Hann tók innsiglishring sinn af hendi sér og setti á hönd Jósefs, lét síðan klæða hann í föt úr fínu líni og hengdi gullkeðju um háls hans. 43 Hann lét aka honum í næstbesta vagni sínum og menn kölluðu fyrir honum: „Abrek!“* Þannig setti faraó hann yfir allt Egyptaland.
44 Faraó sagði líka við Jósef: „Ég er faraó en enginn má gera nokkurn skapaðan hlut* í öllu Egyptalandi nema með þínu leyfi.“+ 45 Faraó nefndi Jósef síðan Safenat Panea og gaf honum Asenat+ fyrir konu, en hún var dóttir Pótífera, prests í Ón.* Þaðan í frá hafði Jósef umsjón með Egyptalandi.*+ 46 Jósef var þrítugur+ þegar hann stóð frammi fyrir* faraó Egyptalandskonungi.
Jósef fór nú burt frá faraó og ferðaðist um allt Egyptaland. 47 Á allsnægtaárunum sjö gaf landið ríkulega af sér. 48 Hann safnaði saman öllum vistum áranna sjö í Egyptalandi og kom þeim fyrir í borgunum. Í hverri borg geymdi hann vistirnar af ökrunum sem voru umhverfis hana. 49 Jósef safnaði gríðarlega miklu korni. Það var eins og sandur sjávarins. Það var svo mikið að menn gáfust upp á að mæla það enda var það ekki lengur hægt.
50 Áður en fyrsta ár hungursneyðarinnar gekk í garð eignaðist Jósef tvo syni+ með Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón.* 51 Hann nefndi frumburð sinn Manasse*+ því að „Guð hefur,“ sagði hann, „látið mig gleyma öllum erfiðleikum mínum og öllu húsi föður míns.“ 52 En hinn soninn nefndi hann Efraím*+ því að „Guð hefur,“ sagði hann, „gert mig frjósaman í landi eymdar minnar.“+
53 Eftir að allsnægtaárunum sjö lauk í Egyptalandi+ 54 tók við sjö ára hungursneyð eins og Jósef hafði sagt.+ Hungursneyðin náði til allra landa en í öllu Egyptalandi var til brauð.*+ 55 Að lokum gekk hungursneyðin einnig yfir allt Egyptaland og fólkið sárbændi faraó um brauð.+ Þá sagði faraó við alla Egypta: „Farið til Jósefs og gerið eins og hann segir ykkur.“+ 56 Hungursneyðin herjaði á alla jörðina+ og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn+ því að hungursneyðin lagðist hart á Egyptaland. 57 Enn fremur kom fólk frá öllum löndum til Egyptalands til að kaupa korn af Jósef því að hungursneyðin lagðist hart á alla jörðina.+