Fyrri Konungabók
2 Þegar Davíð átti skammt eftir ólifað gaf hann Salómon syni sínum þessi fyrirmæli: 2 „Ég er að dauða kominn.* Vertu því sterkur+ og sýndu karlmennsku.+ 3 Gættu skyldu þinnar við Jehóva Guð þinn með því að ganga á vegum hans og halda lög hans, boðorð, skipanir og fyrirmæli sem eru skráð í lögum Móse.+ Þá vegnar þér vel* í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og hvert sem þú snýrð þér. 4 Og Jehóva efnir þetta loforð sem hann gaf mér: ‚Ef synir þínir gæta að hegðun sinni og þjóna mér í trúfesti, af öllu hjarta og allri sál,*+ mun einn af afkomendum þínum alltaf sitja í hásæti Ísraels.‘+
5 Þú veist vel hvað Jóab Serújuson gerði mér, hvað hann gerði tveim hershöfðingjum Ísraels, þeim Abner+ Nerssyni og Amasa+ Jeterssyni. Hann drap þá og úthellti þannig blóði+ á friðartímum eins og það væri stríð. Hann ataði blóði beltið um mitti sér og sandalana á fótum sér eins og hann væri í stríði. 6 Þú skalt sýna dómgreind og koma í veg fyrir að gráar hærur hans fari í friði niður í gröfina.*+
7 En sýndu sonum Barsillaí+ Gíleaðíta tryggan kærleika. Leyfðu þeim að matast við borð þitt því að þannig studdu þeir mig+ þegar ég flúði undan Absalon bróður þínum.+
8 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím er einnig hjá þér. Það var hann sem bölvaði mér og svívirti+ þegar ég var á leiðinni til Mahanaím.+ En þegar hann kom á móti mér niður að Jórdan vann ég honum þennan eið við Jehóva: ‚Ég skal ekki drepa þig með sverði.‘+ 9 Láttu hann ekki sleppa við refsingu+ því að þú ert skynsamur maður og veist hvað þú átt að gera við hann. Sendu gráar hærur hans blóði drifnar niður í gröfina.“*+
10 Síðan var Davíð lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Davíðsborg.+ 11 Davíð ríkti yfir Ísrael í 40 ár, 7 ár í Hebron+ og 33 ár í Jerúsalem.+
12 Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns og ríki hans varð mjög öflugt.+
13 Dag nokkurn kom Adónía sonur Haggítar til Batsebu móður Salómons. Batseba spurði: „Kemurðu í friðsamlegum tilgangi?“ „Já,“ svaraði hann 14 og bætti við: „Ég þarf að tala við þig.“ „Talaðu,“ svaraði hún. 15 Þá sagði hann: „Þú veist að ég átti að hljóta konungdóminn og allur Ísrael bjóst við að ég yrði konungur.+ En konungdómurinn gekk mér úr greipum. Hann kom í hlut bróður míns því að það var vilji Jehóva.+ 16 Nú er bara eitt sem ég vil biðja þig um. Vísaðu mér ekki frá.“ „Haltu áfram,“ sagði hún. 17 Þá sagði hann: „Biddu Salómon konung að gefa mér Abísag+ frá Súnem fyrir eiginkonu. Hann vísar þér ekki frá.“ 18 „Gott og vel,“ svaraði Batseba, „ég skal tala við konunginn fyrir þig.“
19 Batseba fór nú inn til Salómons konungs til að tala við hann fyrir hönd Adónía. Konungur stóð þegar í stað upp, gekk til hennar og hneigði sig fyrir henni. Síðan settist hann í hásæti sitt og lét sækja annað hásæti fyrir konungsmóðurina til að hún gæti setið honum á hægri hönd. 20 „Mig langar að biðja þig um eitt smáræði,“ sagði hún. „Vísaðu mér ekki frá.“ „Segðu mér hvað þú vilt, móðir mín,“ svaraði konungur. „Ég vísa þér ekki frá.“ 21 Þá sagði hún: „Gefðu Adónía bróður þínum Abísag frá Súnem fyrir eiginkonu.“ 22 Salómon konungur svaraði móður sinni: „Af hverju biðurðu um Abísag frá Súnem handa Adónía? Þú gætir alveg eins beðið um konungdóminn handa honum+ enda er hann eldri bróðir minn+ og Abjatar prestur og Jóab+ Serújuson+ standa með honum.“
23 Síðan vann Salómon konungur þennan eið við Jehóva: „Guð refsi mér harðlega ef þessi beiðni Adónía kostar hann ekki lífið. 24 Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur sett mig í hásæti Davíðs föður míns og fest mig í sessi+ og stofnað handa mér konungsætt*+ eins og hann hafði lofað, þá skal Adónía tekinn af lífi+ í dag.“ 25 Salómon konungur sendi Benaja+ Jójadason tafarlaust af stað og hann fór og hjó Adónía til bana.*
26 En við Abjatar+ prest sagði konungur: „Farðu aftur til jarða þinna í Anatót.+ Þú átt að vísu skilið að deyja en í dag þyrmi ég lífi þínu því að þú barst örk Jehóva, hins alvalda Drottins, frammi fyrir Davíð föður mínum+ og gekkst í gegnum sömu raunir og faðir minn þurfti að þola.“+ 27 Salómon rak síðan Abjatar burt og leyfði honum ekki lengur að þjóna sem prestur Jehóva. Þannig rættist orð Jehóva sem hann talaði gegn ætt Elí+ í Síló.+
28 Þegar Jóab frétti þetta flúði hann í tjald Jehóva+ og greip um horn altarisins, en Jóab hafði verið stuðningsmaður Adónía+ þó að hann hefði ekki stutt Absalon.+ 29 Salómon konungi var sagt: „Jóab er flúinn í tjald Jehóva og stendur við altarið.“ Salómon sendi þá Benaja Jójadason af stað og sagði: „Farðu og dreptu hann!“ 30 Benaja kom til tjalds Jehóva og sagði við Jóab: „Konungurinn skipar þér að koma út.“ En hann svaraði: „Nei, ég vil deyja hérna!“ Benaja fór þá aftur til konungs og sagði honum hverju Jóab hefði svarað. 31 Konungur sagði við Benaja: „Gerðu eins og hann segir. Dreptu hann og jarðaðu. Þannig hreinsarðu mig og ætt föður míns af því saklausa blóði sem Jóab hefur úthellt.+ 32 Jehóva lætur blóðið sem hann úthellti koma honum í koll. Hann hjó tvo menn sem voru réttlátari og betri en hann sjálfur og drap þá með sverði án þess að Davíð faðir minn vissi af því. Það voru þeir Abner+ Nersson hershöfðingi Ísraels+ og Amasa+ Jetersson hershöfðingi Júda.+ 33 Blóð þeirra mun koma Jóab í koll og afkomendum hans að eilífu.+ En Davíð og afkomendur hans, ætt* hans og hásæti hljóti frið frá Jehóva að eilífu.“ 34 Benaja Jójadason fór þá og hjó Jóab til bana. Hann var jarðaður hjá húsi sínu í óbyggðunum. 35 Konungur setti Benaja+ Jójadason yfir herinn í stað Jóabs og lét Sadók+ prest taka við embætti Abjatars.
36 Konungur sendi nú eftir Símeí+ og sagði við hann: „Byggðu þér hús í Jerúsalem og búðu þar. Þú mátt ekki yfirgefa borgina. 37 Ef þú ferð þaðan og gengur yfir Kedrondal+ máttu vera viss um að þú munt deyja. Dauði þinn verður þá sjálfum þér að kenna.“* 38 Símeí svaraði konungi: „Það sem þú segir er sanngjarnt. Þjónn þinn mun gera eins og herra minn og konungur hefur sagt.“ Símeí bjó síðan lengi í Jerúsalem.
39 En þrem árum síðar struku tveir þrælar Símeí til Akíss+ Maakasonar, konungs í Gat. Um leið og Símeí frétti að þrælarnir væru í Gat 40 lagði hann á asna sinn og rauk af stað til Akíss í Gat til að leita að þrælunum. Þegar hann var kominn með þá heim 41 var Salómon sagt: „Símeí yfirgaf Jerúsalem og fór til Gat en er kominn aftur heim.“ 42 Konungur sendi þá eftir Símeí og sagði við hann: „Lét ég þig ekki sverja við Jehóva og varaði ég þig ekki við og sagði: ‚Ef þú yfirgefur borgina og ferð eitthvað annað máttu vera viss um að þú munt deyja‘? Þú svaraðir: ‚Það sem þú segir er sanngjarnt. Ég geri eins og þú segir.‘+ 43 Hvers vegna hélstu þá hvorki eiðinn sem þú vannst frammi fyrir Jehóva né hlýddir skipun minni?“ 44 Konungur hélt áfram: „Þú veist innst inni hve illa þú fórst með Davíð föður minn.+ Nú lætur Jehóva illvirki þitt koma þér í koll.+ 45 En Jehóva mun blessa Salómon konung+ og láta hásæti Davíðs standa stöðugt að eilífu.“ 46 Konungur skipaði síðan Benaja Jójadasyni að drepa Símeí og hann fór og hjó hann til bana.+
Þannig festist Salómon konungur í sessi.+