Önnur Mósebók
16 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór frá Elím og kom að lokum til óbyggða Sín+ sem liggja milli Elím og Sínaí. Þetta var á 15. degi annars mánaðarins eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland.
2 Allur söfnuður Ísraelsmanna fór nú að kvarta við Móse og Aron í óbyggðunum.+ 3 Ísraelsmenn sögðu við þá: „Bara að við hefðum dáið fyrir hendi Jehóva í Egyptalandi þar sem við sátum við kjötpottana+ og átum okkur södd af brauði. Nú hafið þið leitt okkur út í þessar óbyggðir til að láta alla þjóðina deyja úr hungri.“+
4 Þá sagði Jehóva við Móse: „Nú læt ég brauði rigna af himni handa ykkur+ og hver og einn á að fara á hverjum degi og safna eins miklu og hann þarf.+ Þannig ætla ég að reyna fólkið og sjá hvort það fylgir lögum mínum eða ekki.+ 5 En sjötta daginn+ á það að safna og elda helmingi meira en hina dagana.“+
6 Móse og Aron sögðu nú við alla Ísraelsmenn: „Í kvöld munuð þið skilja að það var Jehóva sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi.+ 7 Í fyrramálið fáið þið að sjá dýrð Jehóva því að Jehóva hefur heyrt kvartanir ykkar gegn sér. Af hverju kvartið þið við okkur? Við erum ekki neitt.“ 8 Móse hélt áfram: „Í kvöld gefur Jehóva ykkur kjöt að borða og í fyrramálið brauð svo að þið getið borðað ykkur södd. Þá sjáið þið að Jehóva hefur heyrt ykkur kvarta, að þið kvartið yfir honum. En hverjir erum við? Kvartanir ykkar beinast ekki gegn okkur heldur gegn Jehóva.“+
9 Síðan sagði Móse við Aron: „Segðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: ‚Gangið fram fyrir Jehóva því að hann hefur heyrt ykkur kvarta.‘“+ 10 Um leið og Aron sleppti orðinu sneri allur söfnuður Ísraelsmanna sér í átt að óbyggðunum og dýrð Jehóva birtist í skýinu.+
11 Jehóva sagði síðan við Móse: 12 „Ég hef heyrt Ísraelsmenn kvarta.+ Segðu þeim: ‚Í ljósaskiptunum* fáið þið kjöt að borða og í fyrramálið borðið þið ykkur södd af brauði.+ Þá skiljið þið að ég er Jehóva Guð ykkar.‘“+
13 Um kvöldið komu kornhænsn og þöktu búðirnar+ og um morguninn lá dögg yfir öllu umhverfis búðirnar. 14 Þegar döggin gufaði upp lá lag af fíngerðum flögum á jörðinni í óbyggðunum,+ eins og hrím á að líta. 15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta sögðu þeir hver við annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. „Þetta er brauðið sem Jehóva hefur gefið ykkur til matar,“+ svaraði Móse. 16 „Þetta eru fyrirmæli Jehóva: ‚Hver og einn á að safna eins miklu og hann getur borðað. Safnið einum gómer*+ á mann handa þeim sem búa í tjaldi ykkar.‘“ 17 Ísraelsmenn gerðu það. Sumir söfnuðu miklu en aðrir litlu. 18 Þegar þeir mældu það með gómermáli var ekkert afgangs hjá þeim sem hafði safnað miklu og þann sem safnaði litlu skorti ekkert.+ Allir söfnuðu eins miklu og þeir þurftu.
19 Þá sagði Móse: „Enginn á að skilja neitt eftir af því til morguns.“+ 20 En þeir hlustuðu ekki á Móse. Sumir skildu dálítið eftir til næsta morguns en þá maðkaði það og lyktaði illa. Og Móse reiddist þeim. 21 Þeir söfnuðu því á hverjum morgni, eins miklu og hver þurfti til matar. Þegar sólin hækkaði á lofti bráðnaði það sem eftir var.
22 Sjötta daginn söfnuðu þeir helmingi meiru,+ tveim gómerum á mann. Allir höfðingjar safnaðarins komu þá til Móse og sögðu honum frá því. 23 Hann svaraði þeim: „Þetta er það sem Jehóva sagði. Á morgun eiga allir að hvílast* því að þá er heilagur hvíldardagur fyrir Jehóva.+ Bakið það sem þið þurfið að baka og sjóðið það sem þarf að sjóða.+ Geymið síðan það sem er afgangs til morguns.“ 24 Þeir geymdu það til morguns eins og Móse hafði sagt þeim og það lyktaði hvorki illa né komu maðkar í það. 25 Þá sagði Móse: „Borðið það í dag því að í dag er hvíldardagur fyrir Jehóva. Í dag finnið þið það ekki á jörðinni. 26 Þið skuluð safna því í sex daga en sjöunda daginn, hvíldardaginn,+ verður ekkert til að safna.“ 27 Sumir fóru samt út á sjöunda deginum til að safna því en fundu ekkert.
28 Jehóva sagði þá við Móse: „Hve lengi ætlið þið að neita að halda boðorð mín og lög?+ 29 Munið að Jehóva hefur gefið ykkur hvíldardaginn.+ Þess vegna gefur hann ykkur brauð til tveggja daga á sjötta deginum. Á sjöunda deginum eiga allir að halda kyrru fyrir. Enginn má fara neitt á þessum degi.“ 30 Fólkið hélt því hvíldardag* á sjöunda deginum.+
31 Ísraelsmenn kölluðu brauðið „manna“.* Það var hvítt eins og kóríanderfræ og bragðaðist eins og þunnar hunangskökur.+ 32 Móse sagði nú: „Þetta eru fyrirmæli Jehóva: ‚Fyllið gómermál af þessu til að geyma um komandi kynslóðir+ svo að þær sjái brauðið sem ég gaf ykkur að borða í óbyggðunum þegar ég leiddi ykkur út úr Egyptalandi.‘“ 33 Móse sagði síðan við Aron: „Taktu krukku, láttu gómer af manna í hana og settu hana fyrir auglit Jehóva. Það á að geyma hana um komandi kynslóðir.“+ 34 Aron setti krukkuna fyrir framan Vitnisburðinn*+ til að varðveita hana eins og Jehóva hafði fyrirskipað Móse. 35 Ísraelsmenn borðuðu manna í 40 ár+ þar til þeir komu í byggt land.+ Þeir borðuðu manna þangað til þeir komu að landamærum Kanaanslands.+ 36 Einn gómer er tíundi hluti úr efu.*