Rutarbók
1 Á þeim tímum þegar dómararnir+ stjórnuðu* varð hungursneyð í landinu. Maður nokkur fór þá frá Betlehem+ í Júda til að búa sem útlendingur í Móabslandi*+ ásamt konu sinni og tveim sonum. 2 Maðurinn hét Elímelek,* kona hans Naomí* og synir hans tveir Mahlón* og Kiljón.* Þau voru Efratar frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og settust þar að.
3 Að nokkrum tíma liðnum dó Elímelek eiginmaður Naomí og hún var ein eftir ásamt sonum sínum tveim. 4 Seinna giftust þeir móabískum konum. Önnur þeirra hét Orpa en hin Rut.+ Þau bjuggu þar í hér um bil tíu ár. 5 Þá dóu líka Mahlón og Kiljón, synirnir tveir, og nú átti Naomí hvorki eiginmann né börn. 6 Hún ákvað því að yfirgefa Móabsland ásamt tengdadætrum sínum og snúa aftur til heimalands síns en hún hafði frétt í Móab að Jehóva hefði sýnt þjóð sinni velvild og séð henni fyrir mat.*
7 Hún lagði þá af stað þaðan sem hún hafði búið og hélt heim til Júda ásamt tengdadætrum sínum tveim. Þegar þær gengu eftir veginum 8 sagði Naomí við tengdadætur sínar: „Snúið við og farið heim til mæðra ykkar. Megi Jehóva sýna ykkur tryggan kærleika+ eins og þið hafið sýnt mér og eiginmönnum ykkar sem nú eru dánir. 9 Megi Jehóva gefa ykkur báðum eiginmann og öruggt heimili.“*+ Síðan kyssti hún þær og þær hágrétu. 10 Þær sögðu aftur og aftur við hana: „Nei, við ætlum að fara með þér til fólks þíns.“ 11 En Naomí svaraði: „Snúið við, dætur mínar. Hvers vegna ættuð þið að koma með mér? Get ég enn fætt syni sem þið gætuð gifst?+ 12 Snúið við, dætur mínar. Farið. Ég er orðin of gömul til að giftast. Og jafnvel þótt ég gerði mér vonir um að finna eiginmann strax í kvöld og eignast syni 13 mynduð þið þá bíða þar til þeir yrðu fullorðnir? Mynduð þið þeirra vegna sleppa því að gifta ykkur? Nei, dætur mínar. Hönd Jehóva hefur snúist gegn mér+ og mér þykir sárt* að það skuli bitna á ykkur.“
14 Aftur fóru þær að hágráta. Síðan kvaddi Orpa tengdamóður sína með kossi og fór. En Rut var ákveðin í að vera áfram hjá henni. 15 Þá sagði Naomí: „Sjáðu! Svilkona þín er farin heim til fólks síns og guða sinna. Farðu með henni.“
16 En Rut svaraði: „Biddu mig ekki um að yfirgefa þig, að snúa við og hætta að fylgja þér, því að hvert sem þú ferð þangað fer ég og hvar sem þú býrð þar vil ég búa. Þitt fólk er mitt fólk og þinn Guð er minn Guð.+ 17 Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar verð ég grafin. Jehóva refsi mér harðlega ef nokkuð annað en dauðinn aðskilur okkur.“
18 Þegar Naomí sá að Rut var staðráðin í að fara með henni hætti hún að reyna að telja hana af því. 19 Síðan héldu þær báðar áfram til Betlehem.+ Þegar þær komu þangað komst öll borgin í uppnám vegna þeirra og konurnar sögðu: „Er þetta Naomí?“ 20 „Kallið mig ekki Naomí,“* sagði hún. „Kallið mig Möru* því að Hinn almáttugi hefur gert mér lífið erfitt.*+ 21 Ég var rík þegar ég fór héðan en Jehóva lét mig snúa tómhenta til baka. Hvers vegna ættuð þið að kalla mig Naomí þegar Jehóva hefur snúist gegn mér og Hinn almáttugi steypt mér í ógæfu?“+
22 Þannig sneri Naomí heim aftur frá Móabslandi+ ásamt Rut, móabískri tengdadóttur sinni. Þær komu til Betlehem í byrjun bygguppskerunnar.+