Þriðja Mósebók
21 Jehóva sagði við Móse: „Segðu við prestana, syni Arons: ‚Enginn ætti að óhreinka sig vegna látinnar manneskju* meðal fólks síns.+ 2 Hann má þó gera það vegna náins ættingja, vegna móður sinnar, föður, sonar, dóttur eða bróður, 3 og hann má óhreinka sig vegna systur sinnar ef hún var hrein mey, náin honum og ógift. 4 Hann má ekki óhreinka sig og vanhelga sig vegna giftrar konu meðal fólks síns. 5 Prestarnir mega ekki krúnuraka sig,+ raka af sér skeggröndina eða skera skurði í hörund sitt.+ 6 Þeir eiga að vera heilagir frammi fyrir Guði sínum+ og mega ekki vanhelga nafn hans+ því að þeir bera fram eldfórnir Jehóva, brauð* Guðs síns, og þeir skulu vera heilagir.+ 7 Prestar mega ekki giftast vændiskonu,+ konu sem hefur misst meydóminn né fráskilinni konu+ því að presturinn er Guði sínum heilagur. 8 Þú skalt helga hann+ því að hann ber fram brauð Guðs þíns. Hann á að vera þér heilagur því að ég, Jehóva, sá sem helgar ykkur, er heilagur.+
9 Ef dóttir prests vanhelgar sig með vændi vanhelgar hún föður sinn. Hún skal líflátin og brennd í eldi.+
10 Sá sem er æðstiprestur meðal bræðra sinna og hefur fengið smurningarolíu á höfuð sér,+ verið vígður* og fengið að klæðast prestsklæðnaðinum+ á ekki að vera með hárið óhirt og hann á ekki að rífa föt sín.+ 11 Hann má ekki koma nálægt nokkurri látinni manneskju.*+ Hann má ekki einu sinni óhreinka sig vegna föður síns eða móður. 12 Hann má ekki yfirgefa helgidóminn og ekki vanhelga helgidóm Guðs síns+ því að vígslutáknið, smurningarolía Guðs,+ er á höfði hans. Ég er Jehóva.
13 Hann skal taka sér hreina mey fyrir eiginkonu.+ 14 Hann má ekki giftast ekkju, fráskilinni konu, konu sem hefur misst meydóminn eða vændiskonu heldur á hann að taka sér hreina mey af fólki sínu fyrir eiginkonu. 15 Hann má ekki vanhelga afkomendur sína meðal fólks síns+ því að ég er Jehóva, sá sem helgar hann.‘“
16 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 17 „Segðu Aroni: ‚Enginn afkomandi þinn sem er með líkamsgalla má bera fram brauð Guðs síns, nú eða um ókomnar kynslóðir. 18 Enginn sem er með líkamsgalla má bera það fram, hvort heldur hann er blindur, haltur, með afmyndað andlit* eða of langan útlim, 19 er fótbrotinn eða handleggsbrotinn, 20 er með kryppu eða er dvergvaxinn,* eða er með augngalla, exem, hringorm eða sködduð eistu.+ 21 Enginn afkomandi Arons prests sem er með líkamsgalla má bera fram eldfórnir Jehóva. Hann má ekki bera fram brauð Guðs síns af því að hann er með líkamsgalla. 22 Hann má borða brauð Guðs síns, bæði af hinu háheilaga+ og hinu heilaga.+ 23 Hann má þó ekki ganga að fortjaldinu+ og ekki að altarinu+ því að hann er með líkamsgalla. Hann má ekki vanhelga helgidóm minn+ því að ég er Jehóva, sá sem helgar þá.‘“*+
24 Móse sagði Aroni, sonum hans og öllum Ísraelsmönnum þetta.