Dómarabókin
4 Eftir að Ehúð var dáinn gerðu Ísraelsmenn enn á ný það sem var illt í augum Jehóva.+ 2 Þá gaf Jehóva þá á vald Jabín konungi Kanaans+ sem ríkti í Hasór. Hershöfðingi hans var Sísera og hann bjó í Haróset+ þjóðanna.* 3 Ísraelsmenn hrópuðu til Jehóva+ því að Jabín* átti 900 stríðsvagna með járnhnífum á hjólunum*+ og hann kúgaði Ísraelsmenn+ í 20 ár.
4 Debóra spákona,+ eiginkona Lapídóts, dæmdi Ísrael á þeim tíma. 5 Hún sat yfirleitt undir Debórupálma milli Rama+ og Betel+ í fjalllendi Efraíms og Ísraelsmenn fóru upp eftir til hennar til að fá dæmt í málum sínum. 6 Hún gerði boð eftir Barak+ Abínóamssyni frá Kedes í Naftalí+ og sagði við hann: „Jehóva Guð Ísraels hefur gefið þessi fyrirmæli: ‚Leggðu af stað og farðu til Taborfjalls* og taktu með þér 10.000 menn frá Naftalí og Sebúlon. 7 Ég leiði Sísera hershöfðingja Jabíns með stríðsvögnum sínum og herliði til þín við Kísoná+ og ég gef hann þér á vald.‘“+
8 Barak svaraði: „Ég fer ef þú kemur með mér en ef þú kemur ekki með mér fer ég ekki.“ 9 „Ég skal koma með þér,“ sagði hún, „en þú hlýtur ekki heiðurinn af þessari herferð því að Jehóva mun gefa Sísera í hendur konu.“+ Debóra fór síðan með Barak til Kedes.+ 10 Barak kallaði saman Sebúlon- og Naftalímenn+ í Kedes og 10.000 menn fylgdu honum. Debóra var einnig með í för.
11 Heber Keníti hafði flutt frá öðrum Kenítum,+ afkomendum Hóbabs tengdaföður Móse.+ Hann hafði slegið upp tjaldi sínu nálægt stóra trénu í Saananním sem er í grennd við Kedes.
12 Sísera var sagt að Barak Abínóamsson hefði farið upp á Taborfjall.+ 13 Sísera dró strax saman alla stríðsvagna sína – 900 vagna með járnhnífum á hjólunum* – og allt herlið sitt og fór frá Haróset þjóðanna til Kísonár.+ 14 Debóra sagði nú við Barak: „Haltu af stað því að í dag gefur Jehóva Sísera þér á vald. Fer Jehóva ekki á undan þér?“ Barak fór þá ofan af Taborfjalli og 10.000 menn fylgdu honum. 15 Þegar Barak réðst til atlögu olli Jehóva ringulreið+ hjá Sísera, öllu herliði hans og þeim sem óku stríðsvögnunum. Sísera stökk að lokum af vagni sínum og flúði á hlaupum. 16 Barak veitti stríðsvögnunum og hernum eftirför allt að Haróset.* Allur her Sísera féll fyrir sverði. Enginn komst undan.+
17 En Sísera flúði á hlaupum til tjalds Jaelar,+ konu Hebers+ Keníta, því að friður var milli Jabíns,+ konungs í Hasór, og fjölskyldu Hebers Keníta. 18 Jael gekk þá út til móts við Sísera og sagði: „Komdu inn, herra minn, komdu inn. Vertu ekki hræddur.“ Hann gekk inn í tjald hennar og hún breiddi teppi yfir hann. 19 „Viltu gefa mér vatnssopa,“ sagði hann, „því að ég er þyrstur.“ Hún opnaði þá skinnbelg með mjólk og gaf honum að drekka+ og breiddi síðan aftur yfir hann. 20 Hann sagði við hana: „Stattu við tjalddyrnar og ef einhver kemur og spyr: ‚Er nokkur maður hér?‘ skaltu svara neitandi.“
21 Sísera var úrvinda og steinsofnaði. Jael kona Hebers greip þá tjaldhæl og hamar, læddist að honum og rak tjaldhælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk ofan í jörðina og Sísera dó.+
22 Nú kom Barak sem var að elta Sísera. Jael kom út á móti honum og sagði: „Komdu, ég skal sýna þér manninn sem þú ert að leita að.“ Hann gekk inn með henni og sá Sísera þar sem hann lá dauður með tjaldhælinn gegnum gagnaugað.
23 Þannig lét Guð Ísraelsmenn sigra Jabín konung Kanaans þennan dag.+ 24 Ísraelsmenn hertu tökin jafnt og þétt á Jabín konungi Kanaans+ þar til þeir gerðu að lokum út af við hann.+