Esekíel
10 Meðan ég horfði sá ég eitthvað fyrir ofan helluna yfir höfðum kerúbanna. Það leit út eins og safír og líktist hásæti.+ 2 Guð sagði við línklædda manninn:+ „Farðu inn á milli hjólanna,+ undir kerúbana. Fylltu báðar hendurnar af glóandi kolum+ sem eru á milli kerúbanna og dreifðu þeim yfir borgina.“+ Hann fór þangað að mér ásjáandi.
3 Kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið þegar maðurinn fór inn á milli hjólanna, og skýið fyllti innri forgarðinn. 4 Dýrð Jehóva+ hóf sig upp frá kerúbunum og færði sig að þröskuldi musterisins. Skýið fyllti musterið smám saman+ og forgarðurinn fylltist björtum ljómanum af dýrð Jehóva. 5 Vængjaþytur kerúbanna heyrðist út í ytri forgarðinn og hljómaði eins og almáttugur Guð þegar hann talar.+
6 Þegar Guð skipaði línklædda manninum að fara og sækja eld inn á milli hjólanna, milli kerúbanna, fór hann þangað og tók sér stöðu við eitt af hjólunum. 7 Einn af kerúbunum teygði sig þá í eldinn sem var á milli kerúbanna.+ Hann tók smávegis af honum og lagði í hendur línklædda mannsins+ sem tók við honum og gekk burt. 8 Undir vængjunum voru kerúbarnir með eitthvað sem líktist mannshöndum.+
9 Ég horfði á þetta og sá fjögur hjól við hliðina á kerúbunum, eitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru eins og skínandi krýsólít.+ 10 Öll fjögur litu eins út og virtust vera þannig að hjól væri inni í hjóli. 11 Hjólin gátu farið í allar fjórar áttir án þess að beygja. Þau fóru í sömu átt og höfuðið sneri án þess að beygja. 12 Allur líkami kerúbanna var alsettur augum, bak þeirra, hendur og vængir, og sömuleiðis hjólin, hjólin hjá öllum fjórum þeirra.+ 13 Ég heyrði rödd sem hrópaði til hjólanna: „Hjól, farið af stað!“
14 Hver þeirra* var með fjögur andlit. Fyrsta andlitið var kerúbsandlit, annað mannsandlit, þriðja ljónsandlit og fjórða var arnarandlit.+
15 Kerúbarnir hófu sig upp – þetta voru sömu lifandi verurnar og ég hafði séð við Kebarfljót+ – 16 og þegar kerúbarnir færðu sig færðust hjólin með þeim. Þegar kerúbarnir lyftu vængjunum til að hefja sig hátt yfir jörðina snerust hjólin ekki né færðust frá hlið þeirra.+ 17 Þegar þeir stóðu kyrrir voru hjólin kyrr og þegar þeir hófu sig upp hófust hjólin upp með þeim því að andinn sem knúði verurnar* var einnig í hjólunum.
18 Dýrð Jehóva+ færðist nú frá þröskuldi musterisins og staðnæmdist yfir kerúbunum.+ 19 Kerúbarnir lyftu vængjunum og hófu sig upp frá jörðinni fyrir augum mínum. Hjólin fylgdu þeim þegar þeir færðu sig. Þeir námu staðar við innganginn að austurhliði húss Jehóva og dýrð Guðs Ísraels var yfir þeim.+
20 Þetta voru lifandi verurnar sem ég hafði séð undir Guði Ísraels við Kebarfljót,+ og ég gerði mér grein fyrir að þetta voru kerúbar. 21 Allar fjórar voru með fjögur andlit, fjóra vængi og undir vængjunum eitthvað sem líktist mannshöndum.+ 22 Andlit þeirra líktust andlitunum sem ég hafði séð við Kebarfljót.+ Þær gengu allar beint áfram.+