Fyrsta Mósebók
26 Nú varð hungursneyð í landinu eins og á dögum Abrahams.+ Ísak fór því til Gerar, til Abímeleks konungs Filistea. 2 Þar birtist Jehóva honum og sagði: „Farðu ekki til Egyptalands. Dveldu í landinu sem ég vel handa þér. 3 Búðu þar sem útlendingur.+ Ég verð með þér og blessa þig því að þér og afkomendum þínum gef ég öll þessi lönd+ og ég mun halda eiðinn sem ég sór Abraham föður þínum+ þegar ég sagði: 4 ‚Ég geri afkomendur þína eins marga og stjörnur á himni+ og ég gef þeim öll þessi lönd.+ Vegna afkomenda þinna munu allar þjóðir jarðar hljóta blessun.‘*+ 5 Ég geri þetta af því að Abraham hlustaði á mig og hélt fyrirmæli mín, tilskipanir, ákvæði og lög.“+ 6 Ísak bjó því áfram í Gerar.+
7 Þegar mennirnir þar spurðu um konuna hans svaraði hann: „Hún er systir mín,“+ því að hann þorði ekki að segja: „Hún er konan mín.“ „Mennirnir gætu annars drepið mig út af Rebekku,“ hugsaði hann með sér því að hún var ákaflega falleg.+ 8 Að nokkrum tíma liðnum varð Abímelek konungi Filistea litið út um gluggann og sá þá að Ísak lét vel að* Rebekku konu sinni.+ 9 Abímelek kallaði þá Ísak fyrir sig og sagði: „Hún er þá konan þín! Hvers vegna sagðirðu: ‚Hún er systir mín‘?“ Ísak svaraði: „Ég óttaðist að ég yrði drepinn vegna hennar.“+ 10 „Hvað hefurðu gert okkur?“+ sagði Abímelek. „Einhver hefði auðveldlega getað lagst með konunni þinni og þá hefðir þú leitt sekt yfir okkur!“+ 11 Síðan gaf Abímelek öllu fólkinu þessi fyrirmæli: „Hver sem snertir þennan mann eða konu hans verður líflátinn.“
12 Ísak sáði korni í landinu og það ár uppskar hann hundraðfalt það sem hann sáði því að Jehóva blessaði hann.+ 13 Hann varð ríkur og hagnaðist meir og meir þar til hann var orðinn vellauðugur. 14 Hann eignaðist hjarðir sauða og nautgripa og fjöldann allan af þjónum+ svo að Filistear fóru að öfunda hann.
15 Filistear byrgðu alla brunna sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams+ og fylltu þá af mold. 16 Og Abímelek sagði við Ísak: „Farðu burt frá okkur því að þú ert orðinn miklu öflugri en við.“ 17 Þá fór Ísak þaðan og sló upp tjöldum sínum í Gerardal+ og settist þar að. 18 Hann gróf aftur brunnana sem höfðu verið grafnir á dögum Abrahams föður hans og Filistear höfðu fyllt eftir að Abraham dó.+ Hann gaf brunnunum síðan sömu nöfn og faðir hans hafði gefið þeim.+
19 Þjónar Ísaks fundu brunn með fersku vatni þegar þeir grófu í dalnum. 20 Fjárhirðarnir í Gerar fóru þá að deila við fjárhirða Ísaks og sögðu: „Við eigum þetta vatn!“ Hann nefndi brunninn Esek* því að þar rifust þeir við hann. 21 Þeir grófu annan brunn og þá hófust deilur á ný. Hann nefndi því brunninn Sitna.* 22 Síðar fluttist hann þaðan og gróf annan brunn en um hann rifust þeir ekki. Hann nefndi hann því Rehóbót* og sagði: „Jehóva hefur gefið okkur nóg pláss svo að nú getur okkur fjölgað í landinu.“+
23 Þaðan hélt hann síðan upp til Beerseba.+ 24 Sömu nótt birtist Jehóva honum og sagði: „Ég er Guð Abrahams föður þíns.+ Vertu óhræddur+ því að ég er með þér. Ég mun blessa þig og gera afkomendur þína marga vegna Abrahams þjóns míns.“+ 25 Ísak reisti þar altari og ákallaði nafn Jehóva.+ Hann sló þar upp tjaldi sínu+ og þjónar hans grófu þar brunn.
26 Seinna kom Abímelek til hans frá Gerar með Akúsat ráðgjafa* sínum og Píkól hershöfðingja sínum.+ 27 Ísak sagði við þá: „Hvers vegna komið þið til mín? Þið hatið mig og senduð mig burt frá ykkur.“ 28 Þeir svöruðu: „Við höfum séð að Jehóva er greinilega með þér.+ Þess vegna leggjum við þetta til: ‚Eiður sé milli okkar og þín. Gerum með okkur sáttmála.+ 29 Þú skalt ekki gera okkur neitt illt eins og við höfum ekki gert þér neitt illt. Við höfum aðeins gert þér gott og leyft þér að fara burt í friði. Við vitum að þú nýtur blessunar Jehóva.‘“ 30 Síðan hélt hann þeim veislu og þeir átu og drukku. 31 Snemma morguninn eftir sóru þeir hver öðrum eiða.+ Síðan sendi Ísak þá burt og þeir fóru frá honum í friði.
32 Sama dag komu þjónar Ísaks og sögðu honum frá brunninum sem þeir höfðu grafið.+ „Við höfum fundið vatn!“ sögðu þeir. 33 Hann nefndi brunninn Seba. Þess vegna heitir borgin Beerseba+ fram á þennan dag.
34 Þegar Esaú var fertugur tók hann sér Júdít, dóttur Hetítans Beerí, fyrir konu og einnig Basmat, dóttur Hetítans Elons.+ 35 Þær ollu Ísak og Rebekku mikilli hugarkvöl.+