Fimmta Mósebók
20 Þegar þú ferð í stríð gegn óvinum þínum og sérð að þeir eru með fleiri hesta, stríðsvagna og hermenn en þú skaltu ekki óttast þá því að Jehóva Guð þinn, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, er með þér.+ 2 Áður en þið farið í stríð á presturinn að ganga fram og ávarpa hermennina.+ 3 Hann á að segja við þá: ‚Heyrið, Ísraelsmenn. Þið eruð í þann mund að fara í stríð við óvini ykkar. Missið ekki kjarkinn, óttist ekki né skelfist. Hræðist þá ekki 4 því að Jehóva Guð ykkar er með ykkur í för til að berjast fyrir ykkur gegn óvinunum og bjarga ykkur.‘+
5 Forystumennirnir eiga líka að ávarpa mennina og segja: ‚Hefur einhver byggt hús en ekki vígt það? Þá má hann snúa heim til sín. Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður vígt það. 6 Hefur einhver plantað víngarð en ekki notið uppskerunnar? Þá má hann snúa aftur heim til sín. Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður fengið uppskeruna. 7 Hefur einhver trúlofast en er ekki búinn að giftast konunni? Þá má hann snúa heim til sín.+ Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður gifst henni.‘ 8 Forystumennirnir eiga einnig að spyrja mennina: ‚Er einhver hræddur og kjarklítill?+ Hann á að snúa heim til sín til að hann dragi ekki kjarkinn úr bræðrum sínum.‘+ 9 Þegar forystumennirnir eru búnir að tala við mennina eiga þeir að skipa liðsforingja til að fara fyrir liðinu.
10 Þegar þú kemur að borg til að herja á hana áttu að bjóða henni friðarskilmála.+ 11 Ef hún fellst á friðarskilmálana og opnar borgarhliðin eiga allir borgarbúar að tilheyra þér, vinna nauðungarvinnu og þjóna þér.+ 12 En ef hún neitar að semja frið við þig og kýs að berjast við þig skaltu setjast um hana 13 og Jehóva Guð þinn mun gefa hana þér á vald. Þú skalt fella alla karlmenn í borginni með sverði. 14 Þú mátt hins vegar taka konur, börn, búfé og allt annað sem er í borginni að herfangi handa sjálfum þér.+ Þú skalt taka öll verðmæti óvina þinna sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér.+
15 Þannig áttu að fara með allar fjarlægar borgir sem tilheyra ekki þjóðunum hér í grennd. 16 En í borgum þeirra þjóða, borgunum sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut, máttu ekki þyrma neinu sem dregur andann.+ 17 Þú átt að eyða þessum þjóðum* með öllu, Hetítum, Amorítum, Kanverjum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum,+ eins og Jehóva Guð þinn hefur gefið þér fyrirmæli um. 18 Annars gætu þær kennt þér alla þá viðurstyggilegu siði sem þær fylgja í guðsdýrkun sinni og komið þér til að syndga gegn Jehóva Guði þínum.+
19 Ef þú sest um borg til að taka hana og hefur herjað lengi á hana máttu ekki eyða trjánum með því að bera öxi að þeim. Þú mátt borða ávexti þeirra en ekki höggva þau.+ Af hverju ættirðu að sitja um tré merkurinnar eins og þau væru menn? 20 Þú mátt aðeins fella tré sem þú veist að bera ekki æta ávexti. Þú mátt fella þau og reisa virki um borgina sem á í stríði við þig þar til hún fellur.