Dómarabókin
7 Jerúbbaal, það er Gídeon,+ og allir sem voru með honum lögðu snemma af stað og settu upp herbúðir sínar við Haródlind en búðir Midíaníta voru fyrir norðan hann við Mórehæð á dalsléttunni. 2 Jehóva sagði nú við Gídeon: „Liðið sem er með þér er of fjölmennt til að ég gefi Midían í hendur ykkar.+ Ísraelsmenn gætu orðið góðir með sig og sagt: ‚Við sigruðum þá í eigin krafti.‘+ 3 Viltu segja við mennina: ‚Allir sem skjálfa af ótta skulu fara heim.‘“+ Gídeon reyndi þá með þessum hætti og 22.000 menn sneru heim en 10.000 urðu eftir.
4 En Jehóva sagði við Gídeon: „Mennirnir eru enn of margir. Láttu þá fara niður að vatninu svo að ég geti reynt þá fyrir þig. Sá sem ég segi að skuli fara með þér skal fara með þér en sá sem ég segi að skuli ekki fara með þér, hann fer ekki með þér.“ 5 Hann fór þá með mennina niður að vatninu.
Jehóva sagði þá við Gídeon: „Öllum sem lepja vatnið með tungunni eins og hundar skaltu skipa í hóp og aðgreina frá þeim sem leggjast á hnén til að drekka.“ 6 Þeir sem báru höndina upp að munninum og löptu vatnið voru 300. Allir hinir lögðust á hnén til að drekka.
7 Jehóva sagði nú við Gídeon: „Með þessum 300 mönnum, sem löptu vatnið, ætla ég að frelsa ykkur og gefa Midían ykkur á vald.+ Allir hinir skulu fara heim.“ 8 Gídeon hélt þá eftir mönnunum 300 og sendi alla aðra Ísraelsmenn heim en lét þá skilja eftir vistir sínar og horn. Herbúðir Midíaníta voru á dalsléttunni fyrir neðan hann.+
9 Um nóttina sagði Jehóva við hann: „Gerðu árás á búðirnar því að ég hef gefið þær þér á vald.+ 10 Ef þú ert smeykur við að gera árás, farðu þá niður að búðunum með Púra þjóni þínum. 11 Hlustaðu á hvað þeir segja sín á milli. Þá færðu kjark til að ráðast á búðirnar.“ Þeir Púra þjónn hans fóru þá niður að útjaðri herbúðanna.
12 Midíanítar, Amalekítar og þjóðirnar að austan+ þöktu dalsléttuna eins og engisprettusveimur, og úlfaldar þeirra voru óteljandi+ eins og sandkorn á sjávarströnd. 13 Þegar Gídeon kom þangað var maður að segja félaga sínum draum sem hann hafði dreymt: „Mig dreymdi að kringlótt byggbrauð ylti inn í búðir Midíaníta. Það lenti svo harkalega á tjaldi að tjaldið féll.+ Já, það fór á hvolf og féll saman.“ 14 Félaginn sagði þá: „Þetta hlýtur að vera sverð Gídeons+ Jóassonar, manns frá Ísrael. Guð hefur gefið Midían og allar herbúðirnar honum á vald.“+
15 Þegar Gídeon heyrði mennina tala um drauminn og ráðningu hans+ féll hann á kné og tilbað Guð. Síðan sneri hann aftur til búða Ísraelsmanna og sagði: „Komið, því að Jehóva hefur gefið Midíaníta okkur á vald.“ 16 Hann skipti mönnunum 300 í þrjá flokka og fékk hverjum þeirra horn+ og stóra krukku með blysi í. 17 Síðan sagði hann við þá: „Fylgist með mér og gerið alveg eins og ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna skuluð þið gera eins og ég. 18 Þegar ég blæs í hornið, ég og allir sem með mér eru, skuluð þið líka blása í hornin allt í kringum búðirnar og hrópa: ‚Fyrir Jehóva og fyrir Gídeon!‘“
19 Gídeon og mennirnir 100 sem voru með honum komu að útjaðri búðanna um það leyti sem miðnæturvaktin* hófst, rétt eftir vaktaskiptin. Þeir blésu í hornin+ og mölvuðu stóru vatnskrukkurnar sem þeir héldu á.+ 20 Flokkarnir þrír blésu þá í hornin og brutu krukkurnar. Mennirnir héldu á blysunum í vinstri hendi, blésu í hornin sem þeir höfðu í hægri hendi og hrópuðu: „Sverð Jehóva og Gídeons!“ 21 Þeir stóðu kyrrir hver á sínum stað allt í kringum búðirnar og allur herinn lagði æpandi á flótta.+ 22 Mennirnir 300 blésu áfram í hornin og Jehóva lét hina beina sverðum sínum hvern gegn öðrum um allar herbúðirnar.+ Herinn flúði til Bet Sitta, þaðan til Serera og allt að útjaðri Abel Mehóla+ við Tabbat.
23 Nú voru Ísraelsmenn kallaðir saman frá Naftalí, Asser og öllum Manasse+ og þeir veittu Midíanítum eftirför. 24 Gídeon sendi menn um allt fjalllendi Efraíms með þessi boð: „Farið niður eftir og ráðist á Midíaníta, og lokið leiðinni að vöðunum yfir Jórdan og þverár hennar allt til Bet Bara.“ Öllum karlmönnum Efraíms var þá stefnt saman og þeir tóku vöðin yfir Jórdan og þverár hennar allt til Bet Bara. 25 Þeir tóku líka tvo höfðingja Midíans til fanga, þá Óreb og Seeb. Þeir drápu Óreb á Órebskletti+ og Seeb við vínpressu Seebs. Þeir veittu Midíanítum eftirför áfram+ og komu með höfuð Órebs og Seebs til Gídeons sem var á Jórdansvæðinu.