Fjórða Mósebók
31 Jehóva sagði síðan við Móse: 2 „Komdu fram hefndum+ á Midíanítum fyrir það sem þeir gerðu Ísraelsmönnum.+ Eftir það skaltu safnast til fólks þíns.“*+
3 Móse sagði þá við fólkið: „Búið menn úr ykkar hópi til að berjast við Midían og koma fram hefnd Jehóva á Midían. 4 Sendið 1.000 menn úr hverri ættkvísl Ísraels í herinn.“ 5 Þúsund menn voru þá valdir af hverri ættkvísl Ísraels,+ alls 12.000 vígbúnir menn.*
6 Móse sendi þá 1.000 menn af hverri ættkvísl í herför. Pínehas+ Eleasarsson prestur fór með hernum og hafði með sér hin heilögu áhöld og lúðrana til að gefa merki.+ 7 Þeir börðust við Midían eins og Jehóva hafði fyrirskipað Móse og drápu alla karlmenn. 8 Þeir drápu meðal annars konunga Midíans, þá Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, fimm konunga Midíans. Þeir drápu einnig Bíleam+ Beórsson með sverði. 9 En Ísraelsmenn tóku konur og börn Midíaníta að herfangi. Þeir tóku einnig allt búfé þeirra, nautgripi og allar eigur. 10 Þeir brenndu allar borgir sem þeir höfðu búið í og allar búðir* þeirra, 11 og tóku með sér allt herfangið, bæði menn og skepnur. 12 Þeir fóru með fangana, ránsfenginn og herfangið til Móse, Eleasars prests og safnaðar Ísraelsmanna, til búðanna á eyðisléttum Móabs+ við Jórdan á móts við Jeríkó.
13 Móse, Eleasar prestur og allir höfðingjar fólksins komu á móti þeim og mættu þeim fyrir utan búðirnar. 14 En Móse reiddist yfirmönnum herliðsins, höfðingjum þúsund manna flokka og hundrað manna flokka sem komu heim úr herförinni. 15 Móse sagði við þá: „Hafið þið þyrmt öllum konunum? 16 Það voru einmitt þær sem fylgdu ráði Bíleams og tældu Ísraelsmenn til að bregða trúnaði+ við Jehóva vegna Peórs+ þannig að plágan kom yfir söfnuð Jehóva.+ 17 Nú skuluð þið drepa alla drengi og einnig drepa allar konur sem hafa haft kynmök við karlmann. 18 Þið megið hins vegar þyrma öllum stúlkum sem hafa ekki haft kynmök við karlmann.+ 19 Þið skuluð tjalda í sjö daga fyrir utan búðirnar. Allir sem hafa drepið einhvern* og allir sem hafa snert fallna manneskju+ eiga að hreinsa sig+ á þriðja degi og sjöunda degi, bæði þið sjálfir og fangar ykkar. 20 Og þið skuluð hreinsa af synd allan fatnað, allt sem gert er úr skinni eða geitarhári og allt sem gert er úr tré.“
21 Eleasar prestur sagði síðan við hermennina sem höfðu farið í stríðið: „Þetta er lagaákvæði sem Jehóva gaf Móse: 22 ‚Gullið, silfrið, koparinn, járnið, tinið og blýið, 23 allt sem þolir eld, skuluð þið hreinsa í eldi. En það á líka að hreinsa það með hreinsunarvatninu.+ Það sem þolir ekki eld skuluð þið hreinsa í vatni. 24 Á sjöunda degi skuluð þið þvo föt ykkar. Þá eruð þið hreinir og megið koma inn í búðirnar.‘“+
25 Jehóva sagði nú við Móse: 26 „Þú skalt, ásamt Eleasar presti og ættarhöfðingjum fólksins, skrá herfangið og telja bæði menn og skepnur. 27 Skiptu herfanginu til helminga milli hermannanna sem tóku þátt í stríðinu og allra hinna.+ 28 Af hermönnunum sem fóru í stríðið skaltu taka í skatt handa Jehóva eina sál* af hverjum 500, af fólki, nautgripum, ösnum, sauðfé og geitum. 29 Taktu það af þeirra helmingi og gefðu Eleasar presti sem framlag til Jehóva.+ 30 Af þeim helmingi sem Ísraelsmenn fá skaltu taka eitt af hverjum 50, af fólki, nautgripum, ösnum, sauðfé, geitum og hvers kyns búfé og gefa Levítunum+ sem gegna ábyrgðarstörfum við tjaldbúð Jehóva.“+
31 Móse og Eleasar prestur gerðu eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um. 32 Herfangið, það sem eftir var af ránsfeng hermannanna, var 675.000 sauðir og geitur, 33 72.000 nautgripir 34 og 61.000 asnar. 35 Konurnar sem höfðu ekki haft kynmök við karlmann voru alls 32.000.+ 36 Helmingshlutur þeirra sem fóru í stríðið var 337.500 sauðir og geitur. 37 Þar af fékk Jehóva 675 í skatt. 38 Nautgripirnir voru 36.000 og þar af fékk Jehóva 72 í skatt. 39 Asnarnir voru 30.500 og þar af fékk Jehóva 61 í skatt. 40 Og manneskjurnar voru 16.000 og þar af fékk Jehóva 32 í skatt. 41 Móse fékk síðan Eleasar presti+ skattinn sem framlag til Jehóva eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um.
42 Helmingshlutur Ísraelsmanna sem Móse hafði aðgreint frá hlut mannanna sem fóru í stríðið 43 var 337.500 sauðir og geitur, 44 36.000 nautgripir, 45 30.500 asnar 46 og 16.000 manneskjur. 47 Af helmingshlutnum sem tilheyrði Ísraelsmönnum tók Móse eitt af hverjum 50 af mönnum og skepnum og gaf Levítunum+ sem gegndu ábyrgðarstörfum við tjaldbúð Jehóva.+ Móse gerði þetta eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um.
48 Yfirmennirnir yfir herdeildunum,+ bæði höfðingjar þúsund manna flokka og hundrað manna flokka, komu nú til Móse 49 og sögðu við hann: „Þjónar þínir hafa talið hermennina sem eru undir stjórn okkar og einskis þeirra er saknað.+ 50 Við viljum því hver og einn færa Jehóva að gjöf það sem við höfum fundið – gullgripi, ökklabönd, armbönd, innsiglishringi, eyrnalokka og aðra skartgripi – til að friðþægja fyrir okkur frammi fyrir Jehóva.“
51 Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af þeim, öllum skartgripunum. 52 Allt gullið sem höfðingjar þúsund manna flokkanna og hundrað manna flokkanna færðu Jehóva í framlag var 16.750 siklar.* 53 Hermennirnir höfðu allir tekið herfang handa sjálfum sér. 54 Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af höfðingjum þúsund manna flokkanna og hundrað manna flokkanna og fóru með það inn í samfundatjaldið til að það minnti á Ísraelsmenn frammi fyrir Jehóva.*