Esekíel
46 „Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Hlið innri forgarðsins sem snýr í austur+ á að vera lokað+ virku dagana sex+ en á hvíldardeginum og tunglkomudeginum á að opna það. 2 Höfðinginn skal koma úr ytri forgarðinum inn um forsal hliðsins+ og nema staðar við dyrastafinn. Prestarnir færa brennifórn hans og samneytisfórnir og hann fellur fram við þröskuld hliðsins og fer síðan út. En það á ekki að loka hliðinu fyrr en um kvöldið. 3 Fólkið í landinu skal líka falla fram fyrir Jehóva við inngang þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.+
4 Á hvíldardeginum á höfðinginn að færa Jehóva sex gallalaus hrútlömb og gallalausan hrút að brennifórn.+ 5 Kornfórnin á að vera ein efa* með hrútnum og eins mikið og hann hefur tök á með hrútlömbunum, ásamt hín* af olíu með hverri efu.+ 6 Á tunglkomudeginum á fórnin að vera gallalaust ungnaut úr hjörðinni, sex hrútlömb og einn hrútur, allt gallalausar skepnur.+ 7 Að kornfórn á hann að færa efu fyrir ungnautið, efu fyrir hrútinn og það sem hann hefur efni á fyrir hrútlömbin. Og með hverri efu á hann að fórna hín af olíu.
8 Þegar höfðinginn gengur inn á hann að ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út.+ 9 Og þegar fólkið í landinu kemur til að ganga fyrir Jehóva á hátíðunum+ eiga þeir sem ganga inn um norðurhliðið+ til tilbeiðslu að ganga út um suðurhliðið,+ og þeir sem ganga inn um suðurhliðið eiga að ganga út um norðurhliðið. Enginn má fara út um sama hlið og hann kom inn um heldur eiga menn að ganga út um gagnstætt hlið. 10 Höfðinginn sem er meðal þeirra á að ganga inn þegar þeir ganga inn og fara út þegar þeir fara út. 11 Á hátíðum og hátíðardögum á kornfórnin að vera efa fyrir ungnautið, efa fyrir hrútinn og það sem hann hefur tök á fyrir hrútlömbin, ásamt hín af olíu með hverri efu.+
12 Ef höfðinginn kemur með sjálfviljafórn handa Jehóva, hvort heldur brennifórn+ eða samneytisfórnir, á að opna fyrir honum hliðið sem snýr í austur og hann skal koma með brennifórn sína og samneytisfórnir eins og hann gerir á hvíldardegi.+ Þegar hann er farinn út á að loka hliðinu á eftir honum.+
13 Daglega skal koma með gallalaust hrútlamb, innan við veturgamalt, sem brennifórn handa Jehóva.+ Þetta skal gert á hverjum morgni. 14 Á hverjum morgni á að bera fram með því sjötta hluta úr efu að kornfórn ásamt þriðjungi úr hín af olíu til að dreypa á fínt mjölið en þetta er dagleg kornfórn handa Jehóva. Þetta er varanlegt ákvæði. 15 Hrútlambið, kornfórnin og olían skulu borin fram á hverjum morgni að brennifórn.‘
16 Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Ef höfðinginn gefur öllum sonum sínum erfðaland tilheyrir það þeim. Það verður eign þeirra og arfur. 17 En ef hann gefur einhverjum þjóni sínum hluta af erfðalandi sínu tilheyrir það honum fram að næsta frelsunarári.+ Þá gengur það aftur til höfðingjans. Það eru aðeins synir hans sem halda landinu sem þeir fá. 18 Höfðinginn má ekki taka neitt af erfðalandi fólksins með því að hrekja það burt af landareign þess. Hann á að gefa sonum sínum erfðaland af sinni eigin landareign svo að enginn af þjóð minni verði hrakinn burt af landareign sinni.‘“
19 Hann leiddi mig nú inn um innganginn+ sem var til hliðar við hliðið, innganginn að heilögum matsölum* prestanna sem sneru í norður.+ Fyrir innan þá vestan megin sá ég opið rými. 20 Hann sagði við mig: „Þetta er staðurinn þar sem prestarnir sjóða sektarfórnina og syndafórnina og baka kornfórnina+ svo að þeir þurfi ekki að bera neitt út í ytri forgarðinn og helgi þar með fólkið.“+
21 Hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og fram hjá fjórum hornum hans. Ég sá að garður var í hverju horni ytri forgarðsins. 22 Þessir litlu garðar voru í öllum fjórum hornum forgarðsins, allir jafn stórir, 40 álnir* á lengd og 30 á breidd. 23 Inni í öllum fjórum var stallur* allan hringinn og fyrir neðan stallana voru staðir til að sjóða fórnarkjötið. 24 Hann sagði við mig: „Þetta eru eldhúsin þar sem þjónar musterisins sjóða fórnir fólksins.“+