Þriðja Mósebók
6 Jehóva sagði nú við Móse: 2 „Ef einhver syndgar og reynist Jehóva ótrúr+ með því að svíkja náunga sinn sem hefur treyst honum fyrir einhverju+ eða falið honum að gæta einhvers, eða ef hann rænir náunga sinn eða hefur eitthvað af honum 3 eða finnur eitthvað sem var týnt en neitar því, og ef hann sver rangan eið vegna einhverrar slíkrar syndar sem hann hefur drýgt+ skal hann gera eftirfarandi: 4 Ef hann hefur syndgað og er sekur skal hann skila því sem hann stal, því sem hann kúgaði af náunga sínum, þvingaði fram eða var treyst fyrir, eða sem var týnt og hann fann 5 eða hverju því sem hann náði til sín með því að sverja rangan eið. Hann skal bæta það að fullu+ og greiða fimmtung verðmætisins að auki. Hann á að afhenda eigandanum það sama dag og sekt hans er sönnuð. 6 Hann á auk þess að færa prestinum sektarfórn handa Jehóva – gallalausan hrút úr hjörðinni af réttu verðgildi.+ 7 Presturinn á að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Jehóva og honum verður fyrirgefið hvaðeina sem hann kann að hafa gerst sekur um.“+
8 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 9 „Gefðu Aroni og sonum hans þessi fyrirmæli: ‚Þetta eru lögin um brennifórnina:+ Brennifórnin á að liggja á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns og eldinum á altarinu skal haldið lifandi. 10 Presturinn á að fara í embættisklæðnaðinn úr líni+ og hylja hold sitt með stuttu línbuxunum.*+ Eftir að eldurinn hefur eytt brennifórninni á altarinu á hann að fjarlægja öskuna*+ og setja hana við hliðina á altarinu. 11 Síðan á hann að skipta um föt+ og fara með öskuna á hreinan stað fyrir utan búðirnar.+ 12 Eldinum skal haldið lifandi á altarinu. Hann má ekki slokkna. Presturinn á að leggja við á eldinn+ á hverjum morgni, leggja brennifórnina ofan á og brenna fitu samneytisfórnanna þar.+ 13 Eldurinn á að loga stöðugt á altarinu. Hann má ekki slokkna.
14 Þetta eru lögin um kornfórnina:+ Synir Arons eiga að bera hana fram fyrir Jehóva fyrir framan altarið. 15 Einn þeirra á að taka handfylli af fínu mjöli kornfórnarinnar, dálítið af olíunni og allt reykelsið sem er á henni og brenna það á altarinu til tákns um alla fórnina* svo að það verði ljúfur* ilmur fyrir Jehóva.+ 16 Aron og synir hans skulu borða það sem eftir er af henni.+ Það á að borða það sem ósýrt brauð á heilögum stað. Þeir eiga að borða það í forgarði samfundatjaldsins.+ 17 Ekki má baka það með nokkru sem er sýrt.+ Ég hef gefið þeim það sem hlutdeild þeirra í eldfórn minni.+ Það er háheilagt+ eins og syndafórnin og sektarfórnin. 18 Allir karlmenn meðal afkomenda Arons mega borða það.+ Þetta er sá hluti af eldfórnum Jehóva sem þeim er ætlaður kynslóð eftir kynslóð.+ Allt sem kemst í snertingu við þær* verður heilagt.‘“
19 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 20 „Þetta er fórnin sem Aron og synir hans eiga að bera fram fyrir Jehóva daginn sem einhver þeirra er smurður:+ tíundi hluti úr efu*+ af fínu mjöli sem reglubundin kornfórn,+ helmingur hennar að morgni og helmingur að kvöldi. 21 Það á að blanda mjölið olíu og baka á plötu.+ Það á að bera það fram í bitum með olíu sem kornfórn handa Jehóva og ljúfan* ilm handa honum. 22 Sá af sonum smurða prestsins sem tekur við af honum+ á að færa fórnina. Þetta er varanlegt ákvæði: Það á að brenna hana sem alfórn handa Jehóva. 23 Allar kornfórnir presta eiga að vera alfórnir. Það má ekki borða þær.“
24 Jehóva sagði einnig við Móse: 25 „Segðu Aroni og sonum hans: ‚Þetta eru lögin um syndafórnina:+ Það á að slátra syndafórninni+ frammi fyrir Jehóva á sama stað og brennifórninni er slátrað. Hún er háheilög. 26 Presturinn sem færir syndafórnina á að borða hana.+ Hennar skal neytt á heilögum stað, í forgarði samfundatjaldsins.+
27 Allt sem snertir kjöt fórnardýrsins verður heilagt, og þegar einhver slettir blóði þess á föt sín á að þvo blóðið úr þeim á heilögum stað. 28 Leirkerið sem kjötið var soðið í skal brotið. En hafi það verið soðið í koparpotti á að bursta hann og þvo í vatni.
29 Allir karlar sem eru prestar mega borða kjötið.+ Það er háheilagt.+ 30 En ekki má borða syndafórn ef farið er með nokkuð af blóði hennar inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum.+ Hana á að brenna í eldi.