Jeremía
36 Á fjórða stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð til Jeremía frá Jehóva: 2 „Taktu bókrollu og skrifaðu á hana öll þau orð sem ég hef talað til þín um Ísrael og Júda+ og allar þjóðir,+ frá því að ég talaði fyrst til þín á dögum Jósía og fram á þennan dag.+ 3 Þegar Júdamenn heyra um allar þær hörmungar sem ég ætla að leiða yfir þá snúa þeir kannski baki við illsku sinni svo að ég fyrirgefi sekt þeirra og synd.“+
4 Jeremía kallaði þá á Barúk+ Neríason. Jeremía las honum fyrir öll þau orð sem Jehóva hafði talað til hans og Barúk skrifaði þau á bókrolluna.+ 5 Jeremía gaf síðan Barúk þessi fyrirmæli: „Mér hefur verið bannað að fara inn í hús Jehóva. 6 Þess vegna verður þú að fara þangað og lesa upp úr bókrollunni orð Jehóva sem þú skrifaðir upp eftir mér. Lestu þau fyrir fólkið í húsi Jehóva daginn sem það fastar. Þannig fá allir Júdamenn sem koma þangað úr borgum sínum að heyra það sem þú lest. 7 Kannski heyrir Jehóva þegar þeir biðja um miskunn og kannski snúa þeir baki við illsku sinni því að Jehóva hefur boðað þessu fólki mikla reiði og heift.“
8 Barúk Neríason gerði allt sem Jeremía spámaður bað hann um. Hann las orð Jehóva upp úr bókrollunni* í húsi Jehóva.+
9 Á fimmta stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs, í níunda mánuðinum, var lýst yfir að allir Jerúsalembúar og allt fólkið sem var komið til Jerúsalem úr borgum Júda skyldi fasta frammi fyrir Jehóva.+ 10 Þá las Barúk orð Jeremía upp úr bókrollunni* fyrir allt fólkið í húsi Jehóva, í herbergi* Gemaría,+ sonar Safans+ afritara,* í efri forgarðinum þar sem gengið er inn um nýja hliðið að húsi Jehóva.+
11 Þegar Míkaja, sonur Gemaría Safanssonar, heyrði öll orð Jehóva sem stóðu á bókrollunni* 12 gekk hann niður til konungshallarinnar,* inn í herbergi ritarans. Þar sátu allir höfðingjarnir:* Elísama+ ritari, Delaja Semajason, Elnatan+ Akbórsson,+ Gemaría Safansson, Sedekía Hananjason og allir hinir höfðingjarnir. 13 Míkaja sagði þeim frá öllu sem hann hafði heyrt Barúk lesa upp úr bókrollunni* fyrir fólkið.
14 Þá sendu allir höfðingjarnir Jahúdí, son Netanja, sonar Selemja, sonar Kúsí, til Barúks með þessi skilaboð: „Komdu og taktu með þér bókrolluna sem þú last fyrir fólkið.“ Barúk Neríason tók með sér bókrolluna og fór til þeirra. 15 Þeir sögðu við hann: „Fáðu þér sæti og lestu hana fyrir okkur.“ Og Barúk gerði það.
16 Þegar þeir höfðu heyrt allan boðskapinn litu þeir skelfingu lostnir hver á annan og sögðu við Barúk: „Við verðum að segja konunginum frá öllu þessu.“ 17 Þeir spurðu Barúk: „Segðu okkur hvernig þú skrifaðir allt þetta. Sagði Jeremía þér að gera það?“ 18 Barúk svaraði: „Hann las mér fyrir öll þessi orð og ég skrifaði þau með bleki á þessa bókrollu.“* 19 Höfðingjarnir sögðu við Barúk: „Farið í felur, þú og Jeremía, og látið engan vita hvar þið eruð.“+
20 Síðan skildu þeir bókrolluna eftir í herbergi Elísama ritara og fóru á fund konungs í hallargarðinum. Þeir sögðu honum allt sem þeir höfðu heyrt.
21 Konungur sendi þá Jahúdí+ eftir bókrollunni og hann sótti hana í herbergi Elísama ritara. Jahúdí las hana síðan fyrir konunginn og alla höfðingjana sem stóðu hjá honum. 22 Konungur sat í vetrarhúsinu. Þetta var í níunda mánuðinum* og eldur logaði í eldstæðinu fyrir framan hann. 23 Þegar Jahúdí hafði lesið þrjá eða fjóra dálka skar konungurinn þá af með hnífi ritarans og fleygði þeim í eldinn sem logaði í eldstæðinu. Þetta gerði hann þar til öll bókrollan var komin í eldinn. 24 Hvorki konungur né nokkur af þjónum hans sem heyrðu öll þessi orð urðu hræddir og þeir rifu ekki föt sín. 25 Elnatan,+ Delaja+ og Gemaría+ báðu konung eindregið að brenna ekki bókrolluna en hann hlustaði ekki á þá 26 heldur skipaði Jerahmeel konungssyni, Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að taka Barúk ritara og Jeremía spámann til fanga, en Jehóva faldi þá.+
27 Eftir að konungur hafði brennt bókrolluna með boðskapnum sem Barúk hafði skrifað upp eftir Jeremía+ kom orð Jehóva aftur til Jeremía: 28 „Taktu aðra bókrollu og skrifaðu á hana allt sem stóð á fyrri bókrollunni sem Jójakím Júdakonungur brenndi.+ 29 Segðu um Jójakím Júdakonung: ‚Jehóva segir: „Þú brenndir þessa bókrollu og sagðir: ‚Hvers vegna hefurðu skrifað á hana að Babýlonarkonungur ætli að koma og leggja landið í rúst og útrýma úr því mönnum og skepnum?‘+ 30 Þess vegna segir Jehóva um Jójakím Júdakonung: ‚Hann mun ekki eiga neinn afkomanda sem situr í hásæti Davíðs+ og lík hans mun liggja úti í hitanum á daginn og frostinu á nóttinni.+ 31 Ég dreg hann og afkomendur hans og þjóna til ábyrgðar fyrir afbrot þeirra og leiði yfir þá og Jerúsalembúa og Júdamenn allar þær hörmungar sem ég hef boðað þeim+ því að þeir hlustuðu ekki.‘“‘“+
32 Þá tók Jeremía aðra bókrollu og rétti hana Barúk Neríasyni ritara.+ Hann skrifaði upp eftir Jeremía allt sem hafði staðið á bókrollunni* sem Jójakím Júdakonungur hafði brennt.+ Auk þess var mörgu bætt við af sama toga.