Jónas
1 Orð Jehóva kom til Jónasar*+ Amittaísonar: 2 „Leggðu af stað og farðu til Níníve,+ borgarinnar miklu, og boðaðu henni dóm því að ég hef tekið eftir illsku íbúanna.“
3 En Jónas ákvað að flýja frá Jehóva og fara til Tarsis. Hann fór niður til Joppe og fann þar skip sem var á leið þangað. Hann greiddi fargjaldið og steig um borð til að sigla til Tarsis, burt frá Jehóva.
4 Þegar þeir voru komnir út á haf lét Jehóva mikið hvassviðri skella á. Það varð þvílíkt aftakaveður að skipið var við það að farast. 5 Sjómennirnir urðu svo hræddir að þeir fóru hver og einn að ákalla sinn guð og hrópa á hjálp. Þeir byrjuðu að kasta farminum fyrir borð til að létta skipið.+ En Jónas var farinn undir þiljur* þar sem hann lagðist fyrir og steinsofnaði. 6 Skipstjórinn fór til hans og sagði: „Hvers vegna sefurðu? Stattu upp og ákallaðu guð þinn! Kannski sýnir hinn sanni Guð okkur meðaumkun svo að við förumst ekki.“+
7 Síðan sögðu mennirnir hver við annan: „Vörpum hlutkesti+ til að finna út hverjum þessi ógæfa er að kenna.“ Þeir vörpuðu þá hlutkesti og hlutur Jónasar kom upp.+ 8 Þeir spurðu hann þá: „Segðu okkur, hver á sök á þessari ógæfu sem hefur komið yfir okkur? Við hvað starfarðu og hvaðan kemurðu? Frá hvaða landi ertu og af hvaða þjóðerni?“
9 Hann svaraði: „Ég er Hebrei og tilbið* Jehóva, Guð himnanna, hann sem gerði hafið og þurrlendið.“
10 Mennirnir urðu nú enn hræddari og þeir spurðu hann: „Hvað hefurðu gert?“ (Mennirnir vissu að hann var á flótta frá Jehóva því að hann hafði sagt þeim það.) 11 „Hvað eigum við að gera við þig til að hafið kyrrist?“ spurðu þeir, því að ofviðrið færðist sífellt í aukana. 12 Hann svaraði: „Takið mig og kastið mér fyrir borð. Þá mun hafið kyrrast því að ég veit að það er vegna mín sem þetta fárviðri er komið yfir ykkur.“ 13 En mennirnir réru af öllu afli* til að koma skipinu aftur að landi en þeir gátu það ekki því að stormurinn færðist enn í aukana.
14 Þá kölluðu þeir til Jehóva: „Við biðjum þig, Jehóva, að láta okkur ekki farast vegna þessa manns! Gerðu okkur ekki ábyrga fyrir blóði saklauss manns þar sem þetta er samkvæmt vilja þínum, Jehóva.“ 15 Síðan tóku þeir Jónas og köstuðu honum fyrir borð og þá lægði veðrið. 16 Mennirnir voru gripnir miklum ótta við Jehóva+ og þeir færðu Jehóva fórn og unnu heit.
17 Jehóva sendi nú gríðarstóran fisk og lét hann gleypa Jónas og Jónas var í kviði fisksins í þrjá daga og þrjár nætur.+