Önnur Mósebók
7 Jehóva sagði þá við Móse: „Ég hef gert þig að Guði gagnvart faraó og Aron bróðir þinn verður spámaður þinn.+ 2 Þú skalt endurtaka allt sem ég segi þér og Aron bróðir þinn á að tala við faraó svo að hann láti Ísraelsmenn fara úr landi sínu. 3 Ég leyfi faraó að verða þrjóskur í hjarta+ og ég mun gera mörg tákn og kraftaverk í Egyptalandi.+ 4 Faraó á ekki eftir að hlusta á ykkur en ég mun leggja hönd mína á Egyptaland og leiða fjölmenna þjóð mína,* Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi með þungum dómum.+ 5 Og Egyptar munu skilja að ég er Jehóva+ þegar ég rétti út hönd mína gegn Egyptalandi og leiði Ísraelsmenn burt þaðan.“ 6 Móse og Aron fylgdu fyrirmælum Jehóva. Þeir gerðu það í einu og öllu. 7 Móse var 80 ára og Aron 83 þegar þeir töluðu við faraó.+
8 Jehóva sagði nú við Móse og Aron: 9 „Ef faraó segir við ykkur: ‚Vinnið kraftaverk,‘ segðu þá Aroni að taka staf sinn og kasta honum niður frammi fyrir faraó. Hann verður þá að stórri slöngu.“+ 10 Móse og Aron gengu inn til faraós og gerðu alveg eins og Jehóva hafði sagt þeim. Aron kastaði staf sínum frammi fyrir faraó og þjónum hans og hann varð að stórri slöngu. 11 En faraó lét kalla á vitringana og galdramennina, og galdraprestar Egyptalands+ gerðu hið sama með göldrum sínum.+ 12 Þeir köstuðu allir stöfum sínum og þeir urðu að stórum slöngum en stafur Arons gleypti stafi þeirra. 13 Faraó var þó eftir sem áður þrjóskur í hjarta+ og hlustaði ekki á þá, rétt eins og Jehóva hafði sagt.
14 Þá sagði Jehóva við Móse: „Hjarta faraós er ósveigjanlegt.+ Hann neitar fólkinu um að fara. 15 Farðu til faraós í fyrramálið þegar hann gengur út að Níl. Farðu niður að fljótsbakkanum og bíddu eftir honum þar, og taktu með þér stafinn sem breyttist í slöngu.+ 16 Þú skalt segja við hann: ‚Jehóva Guð Hebrea hefur sent mig til þín+ og hann segir: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér í óbyggðunum,“ en þú hefur ekki hlýtt hingað til. 17 Þetta segir Jehóva: „Af þessu skaltu sjá að ég er Jehóva.+ Ég ætla að slá á vatnið í Nílarfljóti með stafnum í hendi minni og þá breytist það í blóð. 18 Fiskurinn í Níl mun drepast, ólykt verður af fljótinu og Egyptar geta með engu móti drukkið vatn úr því.“‘“
19 Síðan sagði Jehóva við Móse: „Segðu við Aron: ‚Taktu staf þinn og réttu út höndina yfir vatn Egyptalands,+ yfir fljót þess, skurði,* mýrar+ og yfir allar vatnsþrær svo að það verði að blóði.‘ Það verður blóð um allt Egyptaland, jafnvel í tré- og steinkerum.“ 20 Móse og Aron gerðu samstundis það sem Jehóva hafði sagt þeim. Aron lyfti stafnum og sló á vatnið í Níl fyrir augunum á faraó og þjónum hans, og allt vatnið í fljótinu breyttist í blóð.+ 21 Fiskurinn í Níl drapst,+ megna ólykt lagði af fljótinu og Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr því.+ Það var blóð um allt Egyptaland.
22 En galdraprestar Egyptalands gerðu hið sama með göldrum sínum+ þannig að faraó var áfram þrjóskur í hjarta. Hann hlustaði ekki á Móse og Aron, rétt eins og Jehóva hafði sagt.+ 23 Faraó fór aftur heim til sín og gaf ekki heldur gaum að þessu. 24 Allir Egyptar grófu eftir drykkjarvatni meðfram Níl því að þeir gátu ekki drukkið vatn úr fljótinu. 25 Eftir að Jehóva breytti vatni Nílar í blóð liðu sjö heilir dagar.