Síðari Samúelsbók
19 Jóab var nú sagt: „Konungur grætur og syrgir Absalon.“+ 2 Sigurgleðin breyttist í sorg þennan dag fyrir allan herinn þegar hann frétti að konungur syrgði son sinn. 3 Herinn laumaðist inn í borgina+ þann dag eins og her sem hefur flúið úr bardaga með skömm. 4 Konungur huldi andlit sitt og kveinaði hástöfum: „Sonur minn, Absalon! Absalon, sonur minn, sonur minn!“+
5 Þá gekk Jóab inn í húsið til konungs og sagði: „Í dag hefurðu smánað alla menn þína sem björguðu lífi þínu í dag og lífi sona þinna+ og dætra,+ eiginkvenna þinna og hjákvenna.+ 6 Þú elskar þá sem hata þig og hatar þá sem elska þig. Í dag hefurðu sýnt að hershöfðingjar þínir og hermenn eru þér einskis virði og ég veit núna að þú myndir frekar vilja að Absalon væri á lífi og við allir dauðir. 7 Stattu nú upp, farðu út og teldu kjark í menn þína því að ég sver við Jehóva að enginn þeirra verður eftir hjá þér í nótt ef þú ferð ekki út. Það yrði verra fyrir þig en nokkuð sem þú hefur þurft að þola frá æskuárum þínum og til þessa.“ 8 Konungur stóð þá upp og settist í borgarhliðið. Þegar fólkinu var sagt að konungurinn sæti í borgarhliðinu gengu allir á fund hans.
Nú voru allir Ísraelsmenn flúnir heim til sín.+ 9 Fólk í öllum ættkvíslum Ísraels fór að þræta og sagði: „Konungurinn bjargaði okkur frá óvinum okkar+ og frelsaði okkur úr greipum Filistea. En nú er hann flúinn úr landi undan Absalon+ 10 og Absalon, sem við smurðum til konungs yfir okkur,+ er fallinn í orrustunni.+ Hvers vegna gerið þið þá ekkert til að fá konunginn aftur heim?“
11 Davíð konungur sendi þessi boð til prestanna Sadóks+ og Abjatars:+ „Segið við öldunga Júda:+ ‚Konungur hefur frétt í húsi sínu hvað allir Ísraelsmenn tala um. Eruð þið vissir um að þið viljið vera síðastir til að flytja konunginn aftur heim til sín? 12 Þið eruð bræður mínir, hold mitt og blóð.* Hvers vegna viljið þið vera síðastir til að sækja konunginn?‘ 13 Og segið við Amasa:+ ‚Ert þú ekki hold mitt og blóð? Guð refsi mér harðlega ef þú verður ekki hershöfðingi minn héðan í frá í stað Jóabs.‘“+
14 Þannig vann* hann hjörtu allra Júdamanna og þeir studdu hann allir sem einn. Þeir sendu konungi þessi boð: „Snúðu aftur, þú og allir þjónar þínir.“
15 Konungur sneri þá heim á leið og kom að Jórdan en Júdamenn komu til Gilgal+ til að fara á móti honum og fylgja honum yfir Jórdan. 16 Símeí+ Gerason Benjamíníti frá Bahúrím flýtti sér niður eftir ásamt Júdamönnum til móts við Davíð konung. 17 Með honum voru 1.000 menn af ættkvísl Benjamíns. Síba,+ sem þjónaði fjölskyldu Sáls, hraðaði sér líka niður að Jórdan ásamt 15 sonum sínum og 20 þjónum til að vera kominn á undan konungi. 18 Hann fór* yfir á vaðinu til að hjálpa fjölskyldu konungs yfir og gera hvað sem konungur bæði um. Þegar konungur var í þann mund að fara yfir Jórdan féll Símeí Gerason fram fyrir honum 19 og sagði „Sakfelldu mig ekki, herra minn. Gleymdu því ranga sem þjónn þinn gerði+ daginn sem þú, herra minn og konungur, fórst frá Jerúsalem. Leiddu það hjá þér, konungur, 20 því að mér er ljóst að ég hef syndgað. Þess vegna er ég sá fyrsti af ætt Jósefs sem kemur hingað niður eftir til móts við herra minn og konung.“
21 Þá sagði Abísaí+ Serújuson:+ „Á Símeí ekki skilið að deyja fyrir að bölva smurðum konungi Jehóva?“+ 22 En Davíð svaraði: „Skiptið ykkur ekki af þessu, Serújusynir.+ Ætlið þið að setja ykkur upp á móti mér í dag? Af hverju ætti nokkur að vera líflátinn í dag í Ísrael? Er það ekki ég sem er konungur yfir Ísrael?“ 23 Síðan sagði konungur við Símeí: „Þú skalt ekki deyja.“ Og konungur vann honum eið að því.+
24 Mefíbóset+ sonarsonur Sáls kom líka niður eftir til að hitta konung. Hann hafði ekki hirt fætur sína, snyrt yfirvaraskegg sitt né þvegið föt sín frá þeim degi sem konungur fór og þangað til hann sneri heim heill á húfi. 25 Þegar hann kom til* Jerúsalem til að hitta konung spurði konungur: „Hvers vegna fórstu ekki með mér, Mefíbóset?“ 26 Hann svaraði: „Herra minn og konungur, þú veist að ég á erfitt með gang.+ Ég sagði við þjón minn:+ ‚Leggðu á ösnu mína svo að ég geti riðið héðan og farið með konungi,‘ en hann sveik mig 27 og rægði mig við þig,+ herra minn og konungur. En þú, herra, ert eins og engill hins sanna Guðs. Gerðu því það sem þú telur rétt. 28 Herra minn og konungur, þú hefðir getað dæmt alla ætt föður míns til dauða. En þrátt fyrir það fékkstu þjóni þínum sæti meðal þeirra sem sitja til borðs með þér.+ Hvaða rétt hef ég þá til að kvarta við konunginn?“
29 En konungur svaraði: „Tölum ekki meira um það. Ég hef ákveðið að þið Síba skuluð skipta landinu á milli ykkar.“+ 30 Þá sagði Mefíbóset við konung: „Hann má eiga það allt fyrst herra minn og konungur er kominn aftur heim heill á húfi.“
31 Barsillaí+ Gíleaðíti hafði komið niður eftir frá Rógelím til að fylgja konungi að Jórdan. 32 Barsillaí var háaldraður, 80 ára, og hafði séð konungi fyrir mat meðan hann var í Mahanaím+ enda var hann stórefnaður. 33 Konungur sagði nú við Barsillaí: „Komdu yfir með mér. Ég skal sjá fyrir þér í Jerúsalem.“+ 34 En Barsillaí svaraði: „Hvers vegna ætti ég að fara með konungi upp til Jerúsalem þar sem ég á ekki mörg ár eftir ólifuð? 35 Ég er orðinn áttræður.+ Get ég greint milli góðs og ills? Getur þjónn þinn fundið bragð af því sem hann borðar og drekkur? Get ég enn heyrt raddir söngvara og söngkvenna?+ Hvers vegna ætti ég að íþyngja herra mínum og konungi? 36 Ég þarf engin laun frá þér, konungur. Mér nægir að hafa fengið að fylgja þér að Jórdan. 37 Leyfðu mér að snúa við svo að ég geti dáið í heimaborg minni þar sem faðir minn og móðir eru grafin.+ En hér er þjónn þinn, Kímham.+ Hann getur farið með þér, herra minn og konungur, og þú getur gert fyrir hann hvað sem þú vilt.“
38 Konungur svaraði: „Kímham kemur með mér og ég geri fyrir hann hvað sem þú vilt. Ég skal gera hvað sem þú biður mig um.“ 39 Allt fólkið lagði nú af stað yfir Jórdan og þegar röðin var komin að konungi kyssti hann Barsillaí+ og blessaði hann. Síðan sneri Barsillaí aftur heim. 40 Konungur hélt áfram til Gilgal+ og Kímham var með honum. Allir Júdamenn fylgdu konungi yfir ána+ og einnig helmingur Ísraelsmanna.
41 Allir hinir Ísraelsmennirnir komu til konungs og spurðu: „Hvers vegna hafa bræður okkar, Júdamenn, rænt þér frá okkur og fylgt þér og fjölskyldu þinni yfir Jórdan ásamt öllum mönnum þínum?“+ 42 Allir Júdamenn svöruðu Ísraelsmönnum: „Það er vegna þess að konungurinn er skyldur okkur.+ Hvers vegna eruð þið reiðir yfir þessu? Höfum við borðað eitthvað á kostnað konungs eða höfum við fengið einhverja gjöf frá honum?“
43 En Ísraelsmenn svöruðu Júdamönnum: „Við eigum tíu hluti í konungi. Við eigum því meira í Davíð en þið. Hvers vegna hafið þið lítilsvirt okkur? Hefðum við ekki átt að fá að flytja konunginn heim?“ En Júdamenn höfðu betur í rökræðunum við Ísraelsmenn.*