Önnur Mósebók
9 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu til faraós og segðu honum: ‚Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér.+ 2 En ef þú heldur því föstu og neitar því um að fara 3 lætur Jehóva+ plágu koma yfir búfé þitt í haganum. Ógurleg plága+ mun leggjast á hesta, asna, úlfalda, nautgripi og sauðfé. 4 Jehóva gerir þá greinarmun á búfé Ísraelsmanna og búfé Egypta, og ekkert sem tilheyrir Ísraelsmönnum mun deyja.“‘“+ 5 Jehóva tiltók líka ákveðinn tíma og sagði: „Á morgun mun ég, Jehóva, gera þetta í landinu.“
6 Daginn eftir gerði Jehóva eins og hann hafði sagt og alls konar búfé hjá Egyptum drapst,+ en engin skepna drapst hjá Ísraelsmönnum. 7 Þegar faraó spurðist fyrir komst hann að því að ekki ein einasta skepna hjá Ísraelsmönnum hafði drepist. En hjarta faraós var ósveigjanlegt eins og áður og hann leyfði fólkinu ekki að fara.+
8 Jehóva sagði þá við Móse og Aron: „Takið handfylli af ösku úr brennsluofni. Móse á að kasta henni upp í loftið fyrir framan faraó. 9 Hún verður að fínu ryki um allt Egyptaland sem verður síðan að graftarkýlum á mönnum og skepnum um allt landið.“
10 Þeir tóku þá ösku úr brennsluofni og gengu fyrir faraó. Móse kastaði henni upp í loftið og hún varð að graftarkýlum á mönnum og skepnum. 11 Galdraprestarnir gátu ekki gengið fyrir Móse vegna kýlanna því að þeir voru útsteyptir í kýlum eins og allir aðrir Egyptar.+ 12 En Jehóva leyfði faraó að vera þrjóskur í hjarta og hann hlustaði ekki á þá, rétt eins og Jehóva hafði sagt Móse.+
13 Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu á fætur snemma í fyrramálið, gakktu fyrir faraó og segðu við hann: ‚Þetta segir Jehóva Guð Hebrea: „Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti þjónað mér. 14 Nú sendi ég allar plágur mínar yfir þig, þjóna þína og fólk þitt til að þú vitir að enginn er eins og ég á allri jörðinni.+ 15 Ég hefði nú þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með ógurlegri plágu og afmáð þig af jörðinni. 16 En ég hef látið þig halda lífi af þessari ástæðu: Ég vildi sýna þér mátt minn og láta boða nafn mitt um alla jörðina.+ 17 Ertu enn þá hrokafullur og neitar fólki mínu um að fara? 18 Um þetta leyti á morgun læt ég þvílíka haglhríð dynja yfir að annað eins hefur ekki gerst í Egyptalandi frá því að landið varð til. 19 Sendu því út boð um að koma öllu búfé þínu og öllu sem þú átt undir berum himni í skjól. Allir menn og allar skepnur sem verða eftir úti og ekki er komið í hús munu deyja þegar haglið dynur á þeim.“‘“
20 Allir þjónar faraós sem virtu orð Jehóva flýttu sér að koma þjónum sínum og búfé í hús 21 en þeir sem tóku ekki mark á orðum Jehóva létu þjóna sína og búfé vera eftir úti.
22 Jehóva sagði við Móse: „Lyftu hendi þinni til himins svo að hagl dynji á öllu Egyptalandi,+ á mönnum og skepnum og öllum gróðri jarðar.“+ 23 Móse lyfti þá staf sínum til himins og Jehóva lét koma þrumur og hagl og eldur* féll niður á jörðina. Jehóva lét haglið bylja á Egyptalandi. 24 Haglið dundi og eldur blossaði innan um haglið. Hríðin var mjög öflug svo að annað eins hafði aldrei sést í sögu Egyptalands.+ 25 Haglið drap allt sem var undir berum himni í Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og það lamdi niður allan gróður og braut öll tré.+ 26 Það var aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, sem ekki kom hagl.+
27 Faraó lét nú kalla á Móse og Aron og sagði við þá: „Í þetta sinn hef ég syndgað. Jehóva er réttlátur en það sem ég og fólk mitt höfum gert er rangt. 28 Biðjið Jehóva um að láta þrumuveðrinu og haglinu linna. Þá skal ég leyfa ykkur að fara og þið þurfið ekki að vera hér lengur.“ 29 Móse svaraði: „Um leið og ég fer út úr borginni skal ég lyfta höndum í bæn til Jehóva. Þá slotar þrumuveðrinu og haglinu linnir til að þú vitir að jörðin tilheyrir Jehóva.+ 30 En ég veit að þú og þjónar þínir munuð ekki einu sinni þá óttast Jehóva Guð.“
31 Hör og bygg hafði lamist niður því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. 32 En hveiti og spelt hafði ekki lamist niður því að það þroskast seinna.* 33 Móse gekk nú burt frá faraó og út úr borginni. Hann lyfti höndum í bæn til Jehóva, þrumuveðrinu og haglinu slotaði og steypiregninu linnti.+ 34 Þegar faraó sá að regninu, haglinu og þrumuveðrinu linnti syndgaði hann aftur og herti hjarta sitt,+ bæði hann og þjónar hans. 35 Faraó var áfram þrjóskur í hjarta og leyfði Ísraelsmönnum ekki að fara, rétt eins og Jehóva hafði látið Móse segja.+