Önnur Mósebók
2 Um þessar mundir giftist maður nokkur af ætt Leví konu sem var líka af ætt Leví.+ 2 Konan varð barnshafandi og fæddi son. Þegar hún sá hve fallegur hann var faldi hún hann í þrjá mánuði.+ 3 En að lokum gat hún ekki falið hann lengur.+ Hún náði þá í körfu* úr papýrussefi, þétti hana með biki og tjöru og lagði drenginn í hana. Síðan setti hún körfuna út í sefið við bakka Nílar. 4 En systir hans+ stóð í nokkurri fjarlægð til að sjá hvað yrði um hann.
5 Nú kom dóttir faraós niður að Níl til að baða sig og þjónustustúlkur hennar gengu eftir fljótsbakkanum. Hún kom þá auga á körfuna í sefinu og sendi ambátt sína tafarlaust til að sækja hana.+ 6 Þegar dóttir faraós opnaði körfuna sá hún drenginn þar sem hann lá og grét. Hún vorkenndi honum og sagði: „Þetta er eitt af börnum Hebreanna.“ 7 Systir hans spurði þá dóttur faraós: „Á ég að fara og kalla á hebreska konu til að hafa barnið á brjósti fyrir þig?“ 8 „Gerðu það,“ svaraði hún. Stúlkan fór um leið og kallaði á móður barnsins.+ 9 Dóttir faraós sagði við hana: „Taktu barnið og hafðu það á brjósti fyrir mig. Ég skal borga þér fyrir.“ Konan fór þá með barnið og hafði það á brjósti. 10 Þegar drengurinn stækkaði fór hún með hann til dóttur faraós og hún ættleiddi hann.+ Hún gaf honum nafnið Móse* og sagði: „Það er vegna þess að ég hef dregið hann upp úr vatninu.“+
11 Þegar Móse var orðinn fullorðinn* gekk hann út til hebreskra bræðra sinna og sá hvernig þeir voru neyddir til að strita.+ Hann tók eftir Egypta sem var að berja hebreskan mann, einn af bræðrum sínum. 12 Móse leit í kringum sig og þegar hann sá að enginn var nærri drap hann Egyptann og faldi hann í sandinum.+
13 Daginn eftir gekk hann aftur út og sá þá tvo hebreska menn slást. Hann spurði þann sem átti sökina: „Af hverju slærðu félaga þinn?“+ 14 Hann svaraði: „Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Ertu að hugsa um að drepa mig eins og þú drapst Egyptann?“+ Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: „Þetta hefur þá komist upp.“
15 Faraó frétti þetta og vildi nú láta drepa Móse en Móse flúði undan honum til Midíanslands+ og þar settist hann niður við brunn. 16 Presturinn í Midían+ átti sjö dætur. Þær komu þangað til að sækja vatn og fylla þrærnar svo að þær gætu brynnt hjörð föður síns. 17 En eins og venjulega komu fjárhirðar og ráku þær burt. Móse stóð þá upp, hjálpaði* konunum og brynnti hjörð þeirra. 18 Þegar þær komu heim til Regúels*+ föður síns spurði hann undrandi: „Hvers vegna komið þið svona snemma heim í dag?“ 19 „Egypskur maður+ varði okkur fyrir fjárhirðunum,“ svöruðu þær. „Hann jós meira að segja vatni fyrir okkur og brynnti hjörðinni.“ 20 Hann spurði þá dætur sínar: „En hvar er hann? Hvers vegna skilduð þið manninn eftir? Sækið hann svo að hann geti borðað með okkur.“ 21 Móse féllst síðan á að búa hjá manninum og hann gaf Móse Sippóru+ dóttur sína fyrir eiginkonu. 22 Hún fæddi son og Móse sagði: „Ég nefni hann Gersóm*+ því að ég er útlendingur í framandi landi.“+
23 Árin* liðu og konungur Egyptalands dó+ en Ísraelsmenn voru áfram í þrælkun. Þeir stundu undan þrældóminum og hrópuðu á hjálp, og hróp þeirra náðu eyrum hins sanna Guðs.+ 24 Guð heyrði andvörp þeirra+ og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob.+ 25 Guð beindi nú athygli sinni að Ísraelsmönnum og sá hvernig þeir þjáðust.