Fyrri Samúelsbók
19 Sál talaði við Jónatan son sinn og alla þjóna sína um að drepa Davíð.+ 2 En Jónatan þótti afar vænt um Davíð+ og sagði honum því frá þessu. „Sál faðir minn vill drepa þig,“ sagði hann. „Vertu því var um þig í fyrramálið. Farðu í felur og vertu þar. 3 Ég ætla að fara með föður mínum út á engið nálægt staðnum þar sem þú ert og ég ætla að tala um þig við föður minn. Ef ég frétti eitthvað læt ég þig vita.“+
4 Jónatan talaði vel um Davíð+ við Sál föður sinn og sagði: „Konungurinn má ekki syndga gegn Davíð þjóni sínum. Hann hefur ekki syndgað gegn þér og það sem hann hefur gert fyrir þig hefur verið þér til góðs. 5 Hann hætti lífi sínu til að fella Filisteann+ og þannig veitti Jehóva öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það sjálfur og varst himinlifandi. Hvers vegna viltu þá syndga með því að úthella saklausu blóði og drepa Davíð að ástæðulausu?“+ 6 Sál hlustaði á það sem Jónatan sagði og sór eið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir verður hann ekki drepinn.“ 7 Jónatan kallaði þá á Davíð og sagði honum allt af létta. Síðan leiddi hann Davíð til Sáls og hann þjónaði honum eins og áður.+
8 Nokkru síðar braust aftur út stríð og Davíð hélt af stað til að berjast við Filistea. Hann vann mikinn sigur á þeim og þeir flúðu undan honum.
9 Einhverju sinni, þegar Sál sat í húsi sínu með spjót í hendi og Davíð lék á hörpuna,+ leyfði Jehóva að illar hugsanir* sæktu á Sál.+ 10 Sál reyndi að negla Davíð við vegginn með spjótinu en Davíð tókst að skjóta sér undan svo að spjótið hafnaði í veggnum. Davíð flúði og komst undan þessa sömu nótt. 11 Sál sendi menn til að fylgjast með húsi Davíðs svo að þeir gætu drepið hann morguninn eftir.+ En Míkal kona Davíðs varaði hann við og sagði: „Ef þú flýrð ekki í nótt verður þú drepinn á morgun.“ 12 Síðan hjálpaði hún Davíð að síga niður út um gluggann svo að hann gæti flúið og komist undan. 13 Því næst tók hún húsgoðið* og lagði það í rúmið. Hún setti geitarhársnet á höfðalagið og breiddi flík yfir.
14 Sál sendi nú menn til að sækja Davíð en hún sagði: „Hann er veikur.“ 15 Sál sendi mennina þá aftur til Davíðs og sagði: „Komið með hann hingað til mín í rúminu svo að ég geti drepið hann.“+ 16 Þegar mennirnir komu inn sáu þeir húsgoðið í rúminu og geitarhársnetið á höfðalaginu. 17 Sál sagði við Míkal: „Hvers vegna blekktir þú mig svona og lést óvin minn+ komast undan?“ Míkal svaraði: „Hann sagði við mig: ‚Ég drep þig ef þú hjálpar mér ekki að flýja.‘“
18 Davíð hafði nú flúið og komist undan. Hann fór til Samúels í Rama+ og sagði honum frá öllu sem Sál hafði gert honum. Þeir Samúel fóru síðan til Najót+ og dvöldu þar. 19 Nokkru síðar frétti Sál að Davíð væri í Najót í Rama. 20 Sál sendi menn þegar í stað til að grípa Davíð. Þegar þeir sáu eldri spámennina spá og Samúel standa þar sem leiðtoga þeirra kom andi Guðs yfir þá svo að þeir fóru líka að láta eins og spámenn.
21 Þeir sögðu Sál frá þessu. Hann sendi þá aðra menn sem fóru líka að láta eins og spámenn. Sál sendi menn í þriðja skiptið en þeir fóru líka að láta eins og spámenn. 22 Loks fór hann sjálfur til Rama. Þegar hann kom að stóra brunninum í Sekó spurði hann: „Hvar eru Samúel og Davíð?“ Menn svöruðu: „Þeir eru í Najót+ í Rama.“ 23 Á leiðinni þangað kom andi Guðs einnig yfir hann og hann lét eins og spámaður alla leiðina til Najót í Rama. 24 Hann fór meira að segja úr fötunum og lét eins og spámaður frammi fyrir Samúel. Hann lá þar nakinn* allan daginn og alla nóttina. Þess vegna er sagt: „Er Sál líka spámaður?“+