Fyrra bréfið til Þessaloníkumanna
1 Frá Páli, Silvanusi*+ og Tímóteusi+ til safnaðar Þessaloníkumanna sem eru sameinaðir Guði föðurnum og Drottni Jesú Kristi.
Megi einstök góðvild Guðs og friður vera með ykkur.
2 Við þökkum alltaf Guði þegar við nefnum ykkur öll í bænum okkar.+ 3 Við gleymum aldrei frammi fyrir Guði okkar og föður hvernig þið unnuð af trú og kærleika og voruð þolgóð vegna vonarinnar+ á Drottin okkar Jesú Krist. 4 Guð elskar ykkur, bræður og systur, og við vitum að hann hefur valið ykkur 5 því að fagnaðarboðskapurinn sem við boðum kom ekki aðeins til ykkar með orðum heldur einnig með krafti, heilögum anda og sterkri sannfæringu. Þið vitið sjálf hvað við gerðum í ykkar þágu meðan við vorum hjá ykkur. 6 Og þið líktuð eftir okkur+ og Drottni+ því að þið tókuð við orðinu með gleði heilags anda þrátt fyrir mikla erfiðleika.+ 7 Þannig urðuð þið fyrirmynd allra hinna trúuðu í Makedóníu og Akkeu.
8 Frá ykkur hefur orð Jehóva* ekki aðeins breiðst út í Makedóníu og Akkeu heldur er trú ykkar á Guð orðin þekkt alls staðar+ svo að við höfum engu við að bæta. 9 Fólk segir frá því hvernig við komum til ykkar fyrst, hvernig þið sneruð ykkur til Guðs frá skurðgoðum ykkar+ til að þjóna lifandi og sönnum Guði 10 og hvernig þið bíðið nú eftir að sonur hans komi frá himnum.+ Guð reisti hann upp frá dauðum, það er að segja Jesú sem bjargar okkur frá hinni komandi reiði.+