Nehemíabók
4 Þegar Sanballat+ frétti að við værum að endurreisa múrinn reiddist hann og komst í mikið uppnám.* Hann hæddist að Gyðingunum 2 og sagði í viðurvist bræðra sinna og herliðs Samaríu: „Hvað eru þessir vesælu Gyðingar að gera? Ætla þeir að gera þetta sjálfir? Ætla þeir að færa fórnir? Skyldu þeir klára þetta á einum degi? Ætla þeir að blása lífi í sviðna steinana í rykugum rústahaugunum?“+
3 Tobía+ Ammóníti,+ sem stóð hjá honum, sagði: „Ef svo mikið sem refur stigi á það sem þeir eru að byggja myndi þessi steinveggur þeirra hrynja.“
4 Guð okkar, heyrðu, því að við erum fyrirlitnir.+ Láttu hæðni þeirra koma sjálfum þeim í koll+ og láttu ræna þeim og flytja þá sem fanga til annars lands. 5 Hyldu ekki sekt þeirra og láttu ekki afmá synd þeirra frammi fyrir þér+ því að þeir hafa niðurlægt þá sem byggja.
6 Við héldum áfram að endurreisa múrinn þannig að allur múrinn náði saman og var fullgerður upp að hálfri hæð. Fólkið vann heils hugar að verkinu.
7 Sanballat, Tobía,+ Arabar,+ Ammónítar og Asdódítar+ urðu bálreiðir þegar þeir fréttu að viðgerðinni á múrum Jerúsalem miðaði vel og að skörðin væru að fyllast. 8 Þeir tóku sig saman um að ráðast á Jerúsalem og stofna til óeirða þar. 9 Við báðum því til Guðs okkar og settum vörð dag og nótt til verndar gegn þeim.
10 En fólkið í Júda sagði: „Verkamennirnir* eru að gefast upp og rústahaugarnir eru endalausir. Okkur tekst aldrei að endurreisa múrinn.“
11 Og óvinir okkar sögðu: „Áður en þeir vita af verðum við komnir inn á meðal þeirra, búnir að drepa þá og stöðva verkið.“
12 Þegar Gyðingar sem bjuggu í grenndinni komu sögðu þeir ítrekað:* „Þeir munu ráðast á okkur úr öllum áttum.“
13 Ég setti því varðmenn innan við múrinn þar sem landið lá lægst og var berskjaldað. Ég raðaði þeim niður eftir ættum og þeir voru vopnaðir sverðum, spjótum og bogum. 14 Þegar ég sá að fólkið var hrætt stóð ég strax upp og sagði við tignarmennina,+ embættismennina og alla hina: „Óttist þá ekki.+ Hugsið til Jehóva sem er mikill og mikilfenglegur.+ Berjist fyrir bræður ykkar, syni og dætur, konur ykkar og heimili.“
15 Óvinir okkar fréttu nú að við vissum hvað þeir ætluðust fyrir og að hinn sanni Guð hefði gert áform þeirra að engu. Þá snerum við okkur allir aftur að vinnunni við múrinn. 16 Þaðan í frá vann helmingur manna minna að verkinu+ en hinn helmingurinn var búinn spjótum, skjöldum, bogum og brynjum. Og höfðingjarnir+ studdu* alla Júdamenn 17 sem unnu við að reisa múrinn. Burðarmennirnir unnu með annarri hendinni og héldu á vopni* í hinni. 18 Þeir sem unnu að byggingunni voru allir gyrtir sverði meðan á vinnunni stóð og sá sem átti að blása í hornið+ stóð hjá mér.
19 Nú sagði ég við tignarmennina, embættismennina og alla hina: „Verkið er stórt og umfangsmikið. Við erum dreifðir um múrinn og það er langt á milli okkar. 20 Þegar þið heyrið blásið í hornið skuluð þið safnast saman hjá okkur. Guð okkar mun berjast fyrir okkur.“+
21 Við héldum síðan áfram að vinna meðan hinn helmingur mannanna var með spjót í hendi, og unnum frá því að birti af degi þar til stjörnurnar birtust á himni. 22 Ég sagði nú við fólkið: „Mennirnir eiga að vera í Jerúsalem á nóttinni ásamt aðstoðarmönnum sínum. Þeir skulu standa vörð fyrir okkur á nóttinni og vinna á daginn.“ 23 Hvorki ég né bræður mínir, aðstoðarmenn mínir+ né verðirnir sem fylgdu mér fórum úr fötunum og við héldum hver og einn á vopni í hægri hendi.