Esekíel
47 Nú fór hann aftur með mig að inngangi musterisins+ og þar sá ég vatn renna til austurs undan þröskuldinum+ en framhlið musterisins sneri í austur. Vatnið rann niður hægra megin við inngang musterisins og sunnan megin við altarið.
2 Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið+ og fór með mig fyrir hornið að ytra hliðinu sem snýr í austur.+ Þar sá ég vatn seytla fram hægra megin við hliðið.
3 Maðurinn gekk til austurs með mælisnúru í hendi+ og mældi 1.000 álnir.* Hann lét mig vaða vatnið og það náði í ökkla.
4 Hann mældi síðan 1.000 álnir í viðbót og lét mig vaða yfir vatnið. Það náði upp að hnjám.
Hann mældi 1.000 álnir í viðbót og lét mig vaða yfir, og vatnið náði upp að mjöðmum.
5 Enn á ný mældi hann 1.000 álnir og nú var vatnið orðið að á sem ég gat ekki vaðið. Það var svo djúpt að ekki var hægt að komast gangandi yfir ána heldur þurfti að synda.
6 Hann spurði mig: „Hefurðu séð þetta, mannssonur?“
Síðan leiddi hann mig aftur að árbakkanum. 7 Þegar ég kom þangað aftur sá ég að það uxu mjög mörg tré á báðum árbökkunum.+ 8 Hann sagði við mig: „Þetta vatn rennur til austurs, áfram niður Araba*+ og fellur síðan í hafið. Þegar það fellur í hafið+ verður saltvatnið ferskt. 9 Urmull lífvera þrífst hvar sem vatnið streymir.* Mikið verður af fiski þar sem það rennur. Saltvatnið verður ferskt og allt mun lifa þar sem áin streymir.
10 Fiskimenn munu standa meðfram því frá Engedí+ allt að En Eglaím og þar verða dragnet breidd til þerris. Mikið verður af alls konar fiski eins og í Hafinu mikla.*+
11 Á fenjasvæðunum og mýrunum þar hjá verður vatnið ekki ferskt. Það verður salt áfram.+
12 Alls konar ávaxtatré munu vaxa á báðum bökkum árinnar. Lauf þeirra visna ekki og ávöxturinn bregst ekki. Þau bera nýja ávexti í hverjum mánuði því að þau fá vatn frá helgidóminum.+ Ávextirnir verða hafðir til matar og laufin til lækninga.“+
13 Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Þetta er landsvæðið sem þið eigið að skipta í erfðalönd milli 12 ættkvísla Ísraels, en Jósef fær tvo hluta.+ 14 Þið fáið það til eignar og hljótið jafn stóran hlut.* Ég sór að gefa forfeðrum ykkar þetta land+ og nú er því skipt á milli ykkar sem erfðalandi.
15 Þetta eru landamærin í norðri: Þau liggja frá Hafinu mikla meðfram veginum til Hetlón+ í átt að Sedad,+ 16 Hamat,+ Beróta+ og Sibraím, sem liggur milli Damaskussvæðisins og Hamatsvæðisins, til Haser Hattikon við landamæri Havrans.+ 17 Landamærin liggja því frá hafinu til Hasar Enón,+ að landamærum Damaskus til norðurs og að landamærum Hamats.+ Þetta eru norðurlandamærin.
18 Austurlandamærin liggja milli Havran og Damaskus og meðfram Jórdan milli Gíleaðs+ og Ísraelslands. Mælið frá norðurlandamærunum að austurhafinu.* Þetta eru austurlandamærin.
19 Suðurlandamærin skulu vera frá Tamar að vötnunum við Meríba Kades,+ þaðan að Flóðdalnum* og síðan að Hafinu mikla.+ Þetta eru suðurlandamærin.
20 Að vestanverðu eru landamærin við Hafið mikla, frá suðurmörkum landsins að stað gegnt Lebó Hamat.*+ Þetta eru vesturlandamærin.“
21 „Þið skuluð skipta þessu landi á milli ykkar, milli hinna 12 ættkvísla Ísraels. 22 Skiptið því í erfðahluti milli ykkar og útlendinganna sem búa hjá ykkur og hafa eignast börn meðal ykkar. Þeir eiga að vera ykkur eins og innfæddir Ísraelsmenn. Þeir hljóta erfðaland ásamt ykkur meðal ættkvísla Ísraels. 23 Gefið útlendingi erfðaland á svæði þeirrar ættkvíslar þar sem hann hefur sest að,“ segir alvaldur Drottinn Jehóva.