Jeremía
20 Pashúr Immersson, prestur og yfirumsjónarmaður í húsi Jehóva, heyrði Jeremía flytja þennan spádóm. 2 Þá sló Pashúr Jeremía spámann og setti hann síðan í gapastokkinn+ sem var hjá Efra-Benjamínshliði við hús Jehóva. 3 En þegar Pashúr sleppti Jeremía úr gapastokknum daginn eftir sagði Jeremía við hann:
„Jehóva kallar þig ekki Pashúr heldur ‚Skelfing allt um kring‘+ 4 því að Jehóva segir: ‚Ég geri þig og alla vini þína skelfingu lostna yfir því sem kemur fyrir þig og þú munt horfa á þá falla fyrir sverði óvina sinna.+ Ég gef alla Júdamenn í hendur Babýlonarkonungs. Hann mun flytja þá í útlegð til Babýlonar og drepa þá með sverði.+ 5 Ég gef allan auð þessarar borgar, allar eignir hennar og dýrgripi og alla fjársjóði Júdakonunga í hendur óvina þeirra.+ Þeir munu taka það herfangi og flytja til Babýlonar.+ 6 Og þú, Pashúr, verður herleiddur ásamt öllum sem búa í húsi þínu. Þú ferð til Babýlonar þar sem þú deyrð og verður grafinn ásamt öllum vinum þínum því að þú hefur boðað þeim lygar.‘“+
7 Þú gabbaðir mig, Jehóva, og ég lét gabbast.
Þú beittir styrk þínum gegn mér og barst sigur úr býtum.+
Ég er hafður að athlægi allan liðlangan daginn,
allir gera grín að mér.+
8 Í hvert skipti sem ég tala þarf ég að hrópa og kalla:
„Ofbeldi og eyðilegging!“
Orð Jehóva hefur orðið til þess að ég er hafður að háði og spotti daginn út og daginn inn.+
9 Ég hugsaði með mér: „Ég ætla ekki að minnast á hann
og ég ætla aldrei aftur að tala í nafni hans.“+
En orð hans brann eins og eldur í hjarta mínu og læsti sig í bein mín.
Ég gat ekki streist á móti,
ég þoldi ekki lengur við.+
10 Ég heyrði að margir baktöluðu mig,
ógn steðjaði að mér úr öllum áttum.+
„Látum hann heyra það, látum hann heyra það!“
Allir sem þóttust vera vinir mínir biðu eftir að ég félli:+
„Kannski verða honum á heimskuleg mistök,
þá getum við yfirbugað hann og hefnt okkar á honum.“
11 En Jehóva var með mér eins og ógnvekjandi stríðskappi.+
Þess vegna hrasa þeir sem ofsækja mig og þeir yfirbuga mig ekki.+
Þeir verða sér til háborinnar skammar því að þeim tekst ekki það sem þeir ætla sér.
Þeir hljóta eilífa niðurlægingu sem gleymist aldrei.+
12 En þú, Jehóva hersveitanna, rannsakar hinn réttláta.
Þú sérð hjartað og innstu hugsanir mannsins.*+
13 Syngið fyrir Jehóva! Lofið Jehóva
því að hann hefur bjargað hinum fátæka úr höndum illmenna.
14 Bölvaður sé dagurinn þegar ég fæddist!
Dagurinn sem móðir mín fæddi mig sé ekki blessaður!+
15 Bölvaður sé maðurinn sem færði föður mínum gleðifréttirnar:
„Þú hefur eignast son!“
og gladdi hann ákaflega með því.
16 Sá maður verði eins og borgirnar sem Jehóva eyddi án nokkurrar eftirsjár.
Hann heyri neyðaróp að morgni og heróp um hádegi.
17 Hvers vegna lét hann mig ekki deyja í móðurkviði
svo að móðir mín yrði gröf mín
og yrði þunguð að eilífu?+
18 Hvers vegna þurfti ég að koma úr kviði hennar
til þess eins að sjá eymd og erfiðleika
og enda ævina í skömm?+