Síðari Samúelsbók
18 Davíð taldi nú liðið sem var með honum og skipaði foringja yfir þúsund manna flokka og hundrað manna flokka.+ 2 Síðan skipti hann liðinu í þrennt. Þriðjungur þess var undir forystu* Jóabs,+ þriðjungur undir forystu Abísaí+ Serújusonar+ bróður Jóabs og þriðjungur undir forystu Ittaí+ Gatíta. Því næst sagði konungur við menn sína: „Ég fer með ykkur.“ 3 „Nei,“ svöruðu þeir, „þú skalt ekki koma með.+ Ef við flýjum stendur öllum á sama. Og þótt helmingur okkar falli stendur þeim líka á sama. En þú ert meira virði en 10.000 okkar.+ Það er því betra að þú verðir um kyrrt í borginni og sendir okkur liðsauka þaðan.“ 4 Þá sagði konungur við þá: „Ég geri það sem þið teljið best.“ Konungur tók sér síðan stöðu við borgarhliðið meðan allt liðið hélt af stað í hundrað manna og þúsund manna flokkum. 5 Því næst gaf konungur Jóab, Abísaí og Ittaí þessi fyrirmæli: „Gerið það fyrir mig að fara mjúkum höndum um Absalon son minn.“+ Allt liðið heyrði að konungur gaf foringjunum þessi fyrirmæli um Absalon.
6 Herinn hélt nú út úr borginni til að berjast við Ísraelsmenn og orrustan var háð í Efraímsskógi.+ 7 Þar biðu Ísraelsmenn+ ósigur fyrir mönnum Davíðs.+ Mannfallið varð mikið þann dag, 20.000 menn féllu. 8 Bardaginn barst um allt landsvæðið og þennan dag varð skógurinn fleiri mönnum að bana en sverðið.
9 Nú komu menn Davíðs auga á Absalon sem reið múldýri. Múldýrið hljóp inn undir þéttar greinar á stóru tré og höfuð Absalons festist í trénu en múldýrið hélt áfram án hans. Hann hékk því í lausu lofti.* 10 Maður nokkur sá þetta og sagði Jóab+ frá því. „Ég sá Absalon hanga í stóru tré,“ sagði hann. 11 „Nú, af hverju drapstu hann þá ekki fyrst þú sást hann?“ svaraði Jóab. „Þá hefði ég glaður gefið þér tíu silfursikla og belti.“ 12 En maðurinn sagði: „Þótt mér væru gefnir 1.000 silfursiklar gæti ég ekki lagt hendur á son konungs. Við heyrðum konung gefa þér, Abísaí og Ittaí þessi fyrirmæli: ‚Sjáið til þess að enginn geri Absalon syni mínum mein.‘+ 13 Ef ég hefði hunsað það og drepið hann hefði konungur komist að því og þú hefðir ekki komið mér til varnar.“ 14 Þá sagði Jóab: „Ég vil ekki sóa meiri tíma í þig.“ Síðan tók hann þrjár örvar* og rak þær í gegnum hjarta Absalons sem var enn á lífi og hékk í stóra trénu. 15 Því næst komu tíu skjaldsveinar Jóabs og hjuggu Absalon til bana.+ 16 Jóab blés þá í horn til að stöðva liðið. Hermennirnir hættu þá að elta Ísraelsmenn og sneru til baka. 17 Þeir tóku Absalon og köstuðu honum í stóra gryfju í skóginum, hlóðu grjóti yfir og gerðu þannig stóra steindys.+ En allir Ísraelsmenn flúðu heim til sín.
18 Meðan Absalon var á lífi lét hann reisa handa sér minnisvarða í Kóngsdal+ því að hann sagði: „Ég á engan son til að viðhalda nafni mínu.“+ Hann nefndi minnisvarðann eftir sér og enn í dag kallast hann Minnisvarði Absalons.
19 Akímaas+ Sadóksson sagði: „Ég skal hlaupa til konungs og færa honum fréttirnar því að Jehóva hefur látið réttlætið ná fram að ganga með því að frelsa hann frá óvinum hans.“+ 20 En Jóab sagði við hann: „Þú færir engar fréttir í dag. Einhvern annan dag máttu færa fréttir en ekki í dag því að sonur konungsins er dáinn.“+ 21 Síðan sagði Jóab við Kúsíta+ nokkurn: „Farðu og segðu konungi frá því sem þú hefur séð.“ Þá hneigði Kúsítinn sig fyrir Jóab og hljóp af stað. 22 En Akímaas Sadóksson gaf sig ekki heldur sagði aftur við Jóab: „Mér er sama hvað gerist. Leyfðu mér að hlaupa á eftir Kúsítanum.“ Jóab svaraði: „Til hvers, sonur minn? Þú hefur engar fréttir að færa.“ 23 En Akímaas var fastur fyrir og sagði: „Mér er sama hvað gerist. Leyfðu mér bara að hlaupa.“ „Hlauptu þá,“ svaraði Jóab. Akímaas hljóp þá af stað, fór veginn yfir Jórdansléttuna og tók fram úr Kúsítanum.
24 Davíð sat milli innri og ytri borgarhliðanna.+ Varðmaðurinn+ fór upp á þak hliðsins við múrinn og sá þá mann sem kom hlaupandi einn síns liðs. 25 Varðmaðurinn kallaði til konungs til að láta hann vita og konungur svaraði: „Ef hann er einn á ferðinni hefur hann fréttir að færa.“ Þegar hann nálgaðist 26 kom varðmaðurinn auga á annan mann koma hlaupandi. Hann kallaði þá til hliðvarðarins: „Sjáðu! Þarna kemur annar maður hlaupandi! Hann er líka einn!“ Þá sagði konungur: „Hann hlýtur líka að vera með fréttir.“ 27 Varðmaðurinn sagði: „Mér sýnist fyrri maðurinn hlaupa eins og Akímaas+ Sadóksson.“ Þá sagði konungur: „Hann er góður maður og hlýtur að færa góðar fréttir.“ 28 Akímaas hrópaði til konungs: „Ég hef góðar fréttir að færa!“ Síðan hneigði hann sig fyrir konungi, laut höfði til jarðar og sagði: „Lofaður sé Jehóva Guð þinn því að hann hefur gefið í hendur þínar mennina sem risu* gegn þér, herra minn og konungur.“+
29 En konungur spurði: „Er í lagi með Absalon son minn?“ Akímaas svaraði: „Ég sá að það var mikil ringulreið þegar Jóab sendi þjón þinn og mig af stað en ég veit ekki hvað var um að vera.“+ 30 Þá sagði konungur: „Færðu þig til hliðar og stattu þar.“ Hann færði sig til hliðar og stóð þar.
31 Þá kom Kúsítinn+ og sagði: „Herra minn og konungur, þetta eru fréttirnar sem ég færi þér: Í dag hefur Jehóva látið réttlætið ná fram að ganga. Hann hefur frelsað þig úr höndum allra sem risu gegn þér.“+ 32 En konungur spurði Kúsítann: „Er í lagi með Absalon son minn?“ Kúsítinn svaraði: „Herra minn og konungur, megi fara fyrir öllum óvinum þínum og öllum sem risu gegn þér eins og þeim unga manni.“+
33 Konungi var mjög brugðið. Hann fór upp í þakherbergið yfir borgarhliðinu og grét. Þar gekk hann um gólf og sagði hvað eftir annað: „Sonur minn, Absalon! Sonur minn, sonur minn, Absalon! Bara að ég hefði dáið í stað þín, Absalon, sonur minn, sonur minn!“+