Esrabók
4 Þegar óvinir Júda og Benjamíns+ fréttu að þeir sem höfðu snúið heim úr útlegðinni+ væru að reisa musteri handa Jehóva Guði Ísraels 2 fóru þeir undireins til Serúbabels og ættarhöfðingjanna og sögðu við þá: „Við viljum byggja með ykkur því að við tilbiðjum Guð* ykkar+ eins og þið og við höfum fært honum fórnir allt frá dögum Asarhaddons+ Assýríukonungs sem flutti okkur hingað.“+ 3 En Serúbabel og Jesúa og aðrir ættarhöfðingjar Ísraels svöruðu þeim: „Þið eigið ekkert með að reisa hús Guðs okkar með okkur.+ Við ætlum einir að reisa það handa Jehóva Guði Ísraels eins og Kýrus Persakonungur hefur sagt okkur að gera.“+
4 Upp frá þessu reyndu íbúar landsins að draga kjarkinn úr* Júdamönnum og hræða þá frá því að byggja.+ 5 Þeir greiddu ráðgjöfum til að vinna gegn þeim og gera áform þeirra að engu+ alla stjórnartíð Kýrusar Persakonungs og þar til Daríus Persakonungur+ tók við völdum. 6 Stuttu eftir að Ahasverus settist að völdum skrifuðu þeir ákæru gegn íbúum Júda og Jerúsalem. 7 Og á dögum Artaxerxesar Persakonungs skrifuðu Bislam, Mítredat, Tabeel og félagar hans Artaxerxesi konungi. Þeir þýddu bréfið á arameísku+ og skrifuðu það með arameísku letri.*
8 * Rehúm háembættismaður og Simsaí ritari skrifuðu Artaxerxesi konungi eftirfarandi bréf þar sem þeir ákærðu Jerúsalembúa. 9 (Bréfið var frá Rehúm háembættismanni, Simsaí ritara og félögum þeirra, dómurunum og aðstoðarlandstjórunum, riturunum, mönnum frá Erek,+ Babýloníu og Súsa,+ það er Elamítum,+ 10 og frá hinum þjóðunum sem hinn mikli og háttvirti Asenappar flutti burt og lét setjast að í borgum Samaríu,+ og frá öðrum á svæðinu handan Fljótsins.*) 11 Þetta er afrit af bréfinu sem þeir sendu honum:
„Til Artaxerxesar konungs frá þjónum þínum, mönnunum handan Fljótsins. 12 Við viljum upplýsa konung um að Gyðingarnir sem lögðu af stað frá þér hingað upp eftir eru komnir til Jerúsalem. Þeir eru að endurreisa hina uppreisnargjörnu og illu borg. Þeir eru að reisa múrana að nýju+ og gera við undirstöðurnar. 13 Við viljum að konungi sé ljóst að þeir munu ekki greiða skatta, gjöld+ né tolla ef borgin verður endurreist ásamt múrum hennar, og það mun koma niður á fjárhirslu konunganna. 14 Þar sem við fáum laun okkar frá konungi* væri rangt af okkur að horfa aðgerðalausir á konung verða fyrir tjóni. Þess vegna höfum við sent þetta bréf til að láta konung vita, 15 svo að leitað verði í annálum forfeðra þinna.+ Í annálunum kemstu að raun um að borgin er uppreisnargjörn borg, skaðleg konungum og skattlöndum, og að í henni hafa menn æst til uppreisnar frá fyrstu tíð. Þess vegna var borgin lögð í eyði.+ 16 Við viljum að konungur viti að ef þessi borg verður endurreist og múrar hennar fullgerðir munu völd þín á svæðinu handan Fljótsins heyra sögunni til.“+
17 Konungur sendi svarbréf til Rehúms háembættismanns og Simsaí ritara, félaga þeirra sem bjuggu í Samaríu og hinna sem bjuggu handan Fljótsins:
„Heill og friður! 18 Bréfið sem þið senduð okkur hefur verið lesið skýrt og skilmerkilega* fyrir mig. 19 Ég skipaði svo fyrir að málið yrði kannað og í ljós kom að frá fyrstu tíð hefur borgin sett sig upp á móti konungum og uppreisnir og óeirðir brotist út í henni.+ 20 Voldugir konungar hafa ríkt yfir Jerúsalem og ráðið yfir öllu svæðinu handan Fljótsins. Þeim voru greiddir skattar, gjöld og tollar. 21 Skipið nú þessum mönnum að hætta að vinna svo að borgin verði ekki endurreist fyrr en ég skipa svo fyrir. 22 Fylgið málinu eftir án tafar svo að konungurinn verði ekki fyrir frekara tjóni.“+
23 Þegar afritið af bréfi Artaxerxesar konungs hafði verið lesið fyrir Rehúm, Simsaí ritara og félaga þeirra fóru þeir tafarlaust til Gyðinganna í Jerúsalem og neyddu þá með valdi til að hætta að vinna. 24 Þar með stöðvaðist vinnan við hús Guðs í Jerúsalem og lá niðri fram á annað stjórnarár Daríusar Persakonungs.+