Síðari Konungabók
10 Akab+ átti 70 syni í Samaríu. Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu, til höfðingja Jesreel, öldunganna+ og þeirra sem gættu barna Akabs. Í þeim stóð: 2 „Þið hafið syni herra ykkar hjá ykkur og ráðið yfir stríðsvögnum, hestum, víggirtri borg og vopnum. Þegar þetta bréf berst ykkur 3 veljið þá besta og hæfasta son herra ykkar og setjið hann í hásæti föður síns. Berjist síðan fyrir ætt herra ykkar.“
4 En þeir urðu logandi hræddir og sögðu: „Fyrst tveir konungar gátu ekki staðið á móti honum,+ hvernig ættum við þá að geta það?“ 5 Hallarráðsmaðurinn, borgarstjórinn, öldungarnir og þeir sem gættu barnanna sendu síðan þessi skilaboð til Jehú: „Við erum þjónar þínir og gerum allt sem þú biður okkur um. Við ætlum ekki að gera neinn að konungi. Gerðu hvað sem þú vilt.“
6 Þá skrifaði hann þeim annað bréf sem í stóð: „Ef þið styðjið mig og viljið hlýða mér komið þá til mín í Jesreel um þetta leyti á morgun og færið mér höfuð sona herra ykkar.“
Konungssynirnir 70 voru þá hjá stórmennum borgarinnar sem ólu þá upp. 7 Um leið og bréfið kom til þeirra drápu þeir alla konungssynina, 70 að tölu.+ Síðan settu þeir höfuð þeirra í körfur og sendu þær til Jehú í Jesreel. 8 Sendiboði kom til Jehú og sagði: „Höfuð konungssonanna eru komin.“ Þá sagði hann: „Setjið þau í tvær hrúgur við borgarhliðið til morguns.“ 9 Morguninn eftir gekk hann út, tók sér stöðu frammi fyrir öllu fólkinu og sagði: „Þið eruð saklaus.* Það var ég sem gerði samsæri gegn herra mínum og drap hann.+ En hver drap alla þessa? 10 Þið sjáið að hvert einasta orð Jehóva sem Jehóva hefur talað gegn ætt Akabs rætist.*+ Jehóva hefur gert það sem hann sagði fyrir milligöngu Elía þjóns síns.“+ 11 Síðan drap Jehú alla sem voru eftir af ætt Akabs í Jesreel og auk þess alla háttsetta menn hans, vini og presta.+ Hann lét engan halda lífi.+
12 Síðan lagði hann af stað til Samaríu. Á leiðinni kom hann að húsinu þar sem fjárhirðar rúðu* sauðina. 13 Þar hitti Jehú bræður Ahasía+ Júdakonungs og spurði þá: „Hverjir eruð þið?“ Þeir svöruðu: „Við erum bræður Ahasía og við erum á leiðinni niður eftir til að sjá hvernig synir konungs og synir konungsmóðurinnar hafa það.“ 14 Þá sagði hann: „Grípið þá lifandi!“ Þeir gripu þá lifandi og drápu þá við vatnsgryfjuna hjá rúningshúsinu. Þeir voru 42 talsins og hann lét engan þeirra komast undan.+
15 Þegar hann fór þaðan mætti hann Jónadab+ Rekabssyni+ sem var kominn til að hitta hann. Hann heilsaði honum* og sagði: „Styðurðu mig af öllu hjarta eins og ég styð þig af öllu hjarta?“*
„Já,“ svaraði Jónadab.
„Réttu mér þá höndina.“
Hann rétti honum höndina og Jehú togaði hann upp í vagninn til sín. 16 „Komdu með mér og sjáðu að ég líð enga samkeppni við Jehóva,“*+ sagði Jehú og lét hann síðan aka með sér í stríðsvagni sínum. 17 Þegar hann kom til Samaríu drap hann alla sem voru eftir af ætt Akabs í Samaríu. Þannig útrýmdi hann þeim+ í samræmi við það sem Jehóva hafði sagt við Elía.+
18 Eftir þetta kallaði Jehú saman allt fólkið og sagði: „Akab tilbað Baal af litlum krafti+ en Jehú mun tilbiðja hann rækilega. 19 Kallið til mín alla spámenn Baals,+ alla presta hans+ og alla sem tilbiðja hann. Engan má vanta því að ég ætla að færa Baal mikla fórn. Þeir sem koma ekki munu týna lífi.“ En þetta var kænskubragð því að Jehú vildi útrýma þeim sem tilbáðu Baal.
20 Jehú hélt áfram: „Efnið til hátíðarsamkomu fyrir Baal.“ Þeir gerðu það. 21 Síðan sendi Jehú boð um allan Ísrael og allir sem tilbáðu Baal komu. Enginn lét sig vanta. Þeir gengu inn í musteri* Baals+ og musterið varð fullt frá einum enda til annars. 22 Hann sagði við umsjónarmann fataherbergisins: „Taktu fram klæðnað handa öllum tilbiðjendum Baals.“ Þá tók hann fram klæðnað handa þeim. 23 Síðan gengu Jehú og Jónadab+ Rekabsson inn í musteri Baals. Jehú sagði við tilbiðjendur Baals: „Leitið vandlega og gangið úr skugga um að hér sé enginn tilbiðjandi Jehóva heldur aðeins tilbiðjendur Baals.“ 24 Síðan gengu þeir inn til að færa sláturfórnir og brennifórnir. Jehú hafði skipað 80 mönnum að standa fyrir utan dyrnar. Hann sagði við þá: „Ég læt þessa menn í ykkar hendur. Ef einhver lætur nokkurn af þeim sleppa þarf hann að gjalda fyrir það með lífi sínu.“
25 Um leið og búið var að færa brennifórnina sagði Jehú við verðina* og liðsforingjana: „Komið inn og drepið þá! Látið engan sleppa!“+ Verðirnir og liðsforingjarnir hjuggu þá síðan niður með sverðum og fleygðu þeim út, og þeir héldu áfram alla leið inn í innri helgidóminn* í musteri Baals. 26 Þeir fóru með helgisúlurnar+ út úr musteri Baals og brenndu þær.+ 27 Þeir rifu niður helgisúlu+ Baals og þeir rifu niður musteri Baals+ og gerðu úr því kamra, og þannig er það enn í dag.
28 Þannig útrýmdi Jehú Baal úr Ísrael. 29 En Jehú sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam Nebatsson hafði fengið Ísrael til að drýgja, það er að segja að tilbiðja gullkálfana í Betel og Dan.+ 30 Jehóva sagði því við Jehú: „Þar sem þú hefur gert það sem er rétt í mínum augum og farið með ætt Akabs eins og ég vildi+ munu synir þínir sitja í hásæti Ísraels í fjóra ættliði.“+ 31 En Jehú gætti þess ekki að fylgja lögum Jehóva Guðs Ísraels af öllu hjarta.+ Hann sneri ekki baki við þeim syndum sem Jeróbóam hafði fengið Ísrael til að drýgja.+
32 Á þeim dögum byrjaði Jehóva að sneiða af Ísrael hvert landsvæðið á fætur öðru.* Hasael gerði árásir á Ísraelsmenn um allt landið.+ 33 Hann hélt í austur frá Jórdan og lagði undir sig allt Gíleaðland þar sem ættkvíslir Gaðs, Rúbens og Manasse búa,+ allt frá Aróer við Arnondal til Gíleaðs og Basans.+
34 Það sem er ósagt af sögu Jehú, öllu sem hann gerði og afrekaði, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 35 Jehú var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Samaríu. Jóahas+ sonur hans varð konungur eftir hann. 36 Jehú ríkti í Samaríu yfir Ísrael í 28 ár.