Síðari Samúelsbók
1 Eftir að Sál var dáinn og Davíð hafði sigrað Amalekíta sneri hann aftur heim og var í Siklag+ í tvo daga. 2 Á þriðja degi kom maður frá herbúðum Sáls. Hann var í rifnum fötum og með mold á höfðinu. Þegar hann kom til Davíðs féll hann til jarðar og laut honum.
3 Davíð spurði hann: „Hvaðan kemur þú?“ „Ég komst undan úr herbúðum Ísraels,“ svaraði maðurinn. 4 „Hvað gerðist?“ spurði Davíð. „Segðu mér það.“ Hann svaraði: „Menn flúðu úr bardaganum og margir eru fallnir. Sál og Jónatan sonur hans eru líka dánir.“+ 5 Davíð spurði þá unga manninn sem færði honum fréttirnar: „Hvernig veistu að Sál og Jónatan sonur hans eru dánir?“ 6 Ungi maðurinn svaraði: „Það vildi svo til að ég var staddur á Gilbóafjalli.+ Þar sá ég Sál styðjast við spjót sitt og hervagnar og riddarar voru á hælunum á honum.+ 7 Þegar hann sneri sér við og kom auga á mig kallaði hann á mig og ég svaraði: ‚Hér er ég!‘ 8 ‚Hver ert þú?‘ spurði hann. ‚Ég er Amalekíti,‘+ svaraði ég. 9 Þá sagði hann: ‚Komdu hingað til mín og dreptu mig. Ég er enn á lífi en er sárkvalinn.‘ 10 Ég gekk þá til hans og banaði honum+ því að ég vissi að hann myndi ekki lifa af eins illa særður og hann var. Síðan tók ég kórónuna af höfði hans og armbandið af handlegg hans til að færa þér, herra minn.“
11 Þá þreif Davíð í föt sín og reif þau og allir mennirnir sem voru með honum gerðu það sama. 12 Þeir syrgðu og grétu og föstuðu+ til kvölds vegna þess að Sál, Jónatan sonur hans og svo margir af þjóð Jehóva, svo margir Ísraelsmenn,+ höfðu fallið fyrir sverði.
13 Davíð spurði unga manninn sem færði honum fréttirnar: „Hvaðan ertu?“ „Ég er sonur útlendings, Amalekíta sem býr hér,“ svaraði hann. 14 Davíð sagði þá: „Hvernig dirfðistu að lyfta hendi til að drepa smurðan konung Jehóva?“+ 15 Síðan kallaði Davíð á einn af ungu mönnunum og sagði: „Komdu hingað og dreptu hann.“ Og hann hjó hann til bana.+ 16 „Dauði þinn er sjálfum þér að kenna,“* sagði Davíð, „því að þú vitnaðir gegn þér þegar þú sagðir: ‚Ég drap smurðan konung Jehóva.‘“+
17 Síðan flutti Davíð sorgarkvæði um Sál og Jónatan son hans+ 18 og sagði að Júdamenn skyldu læra það. Kvæðið heitir „Boginn“ og er skráð í Jasarsbók:*+
19 „Prýði þín, Ísrael, liggur vegin á hæðum þínum.+
Kapparnir eru fallnir!
20 Segið ekki frá því í Gat,+
tilkynnið það ekki á götum Askalon
svo að dætur Filistea fagni ekki
og dætur óumskorinna gleðjist ekki.
21 Þið Gilbóafjöll,+
á ykkur skal hvorki falla dögg né regn
né heldur heilagar fórnir spretta af ökrum ykkar+
því að þar var skjöldur kappanna vanhelgaður,
skjöldur Sáls verður ekki framar smurður olíu.
22 Bogi Jónatans+ sneri aldrei heim
án blóðs hinna vegnu og án fitu kappanna,
og sverð Sáls sneri alltaf sigrandi úr stríði.+
24 Dætur Ísraels, grátið yfir Sál,
honum sem klæddi ykkur í skarlat og skrautklæði
og festi gullskart á klæðnað ykkar.
25 Kapparnir eru fallnir í bardaganum!
Jónatan liggur veginn á hæðum þínum!+
26 Ég er harmi sleginn, Jónatan bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.+
Ást þín var mér mætari en ástir kvenna.+
27 Kapparnir eru fallnir
og stríðsvopnin glötuð.“