Dómarabókin
16 Eitt sinn fór Samson til Gasa. Þar sá hann vændiskonu og fór inn til hennar. 2 Gasamönnum var sagt: „Samson er kominn hingað.“ Þeir umkringdu hann og lágu í launsátri alla nóttina í borgarhliðinu. Þeir létu lítið fyrir sér fara um nóttina og hugsuðu með sér: „Við drepum hann um leið og birtir af degi.“
3 Samson lá kyrr til miðnættis en fór þá á fætur. Hann greip um hurðirnar á borgarhliðinu og báða dyrastafina og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum. Hann lagði allt saman á herðarnar og bar það upp á fjallstindinn sem er gegnt Hebron.
4 Síðar varð hann ástfanginn af konu nokkurri í Sórekdal en hún hét Dalíla.+ 5 Höfðingjar Filistea komu að máli við hana og sögðu: „Veiddu upp úr honum*+ hvernig hann hefur fengið þessa miklu krafta og hvernig við getum yfirbugað hann, bundið hann og náð honum á okkar vald. Við greiðum þér hver og einn 1.100 silfurpeninga fyrir.“
6 Eftir það sagði Dalíla við Samson: „Segðu mér hvaðan þú færð þessa miklu krafta og með hverju er hægt að binda þig og yfirbuga þig.“ 7 Samson svaraði: „Ef ég er bundinn með sjö nýjum bogastrengjum* sem eru ekki orðnir þurrir verð ég jafn máttlítill og venjulegur maður.“ 8 Höfðingjar Filistea færðu henni þá sjö nýja bogastrengi sem voru ekki orðnir þurrir og hún batt hann með þeim. 9 Á meðan voru menn í felum í innsta herberginu. Hún kallaði nú til hans: „Filistearnir eru komnir, Samson!“ Þá sleit hann sundur bogastrengina eins léttilega og hörþráður hrekkur í sundur þegar hann sviðnar.+ Leyndarmálið um krafta hans komst ekki upp.
10 Dalíla sagði nú við Samson: „Þú plataðir mig* og laugst að mér. Segðu mér nú með hverju er hægt að binda þig.“ 11 Hann svaraði: „Ef ég er bundinn með nýjum reipum sem hafa ekki verið notuð við vinnu verð ég eins máttlítill og hver annar maður.“ 12 Dalíla tók þá ný reipi, batt hann með þeim og kallaði: „Filistearnir eru komnir, Samson!“ (Menn voru líka í felum í innsta herberginu í þetta sinn.) Þá sleit hann reipin af sér eins og þau væru grannir þræðir.+
13 Dalíla sagði við Samson: „Hingað til hefurðu platað mig og logið að mér.+ Segðu mér með hverju hægt er að binda þig.“ Þá sagði hann: „Vefðu saman flétturnar sjö á höfði mér með uppistöðuþræði úr vef.“ 14 Hún festi þá flétturnar með vefnál og kallaði til hans: „Filistearnir eru komnir, Samson!“ Hann vaknaði af svefni og dró vefnálina og uppistöðuþráðinn úr hárinu.
15 Hún sagði nú við hann: „Hvernig geturðu sagt að þú elskir mig+ þegar þú ert ekki heiðarlegur við mig? Þú hefur blekkt mig þrisvar sinnum og ekki sagt mér hvaðan þú færð þessa gríðarlegu krafta.“+ 16 Hún nauðaði í honum dag eftir dag og lagði svo fast að honum að það var að gera út af við hann.+ 17 Að lokum opnaði hann sig fyrir henni og sagði: „Rakhnífur hefur aldrei snert höfuð mitt því að ég er nasírei Guðs frá fæðingu.*+ Ef hárið er rakað af mér missi ég kraftinn. Ég verð máttlítill og verð eins og allir aðrir menn.“
18 Þegar Dalíla skildi að hann hafði opnað sig fyrir henni sendi hún höfðingjum Filistea+ tafarlaust þessi boð: „Komið nú, því að hann hefur opnað sig fyrir mér.“ Höfðingjar Filistea komu þá til hennar og höfðu peningana með sér. 19 Hún svæfði hann í kjöltu sér, kallaði síðan á mann og lét hann skera flétturnar sjö af höfði hans. Eftir það fékk hún vald yfir honum því að kraftur hans hvarf. 20 Hún kallaði nú: „Filistearnir eru komnir, Samson!“ Hann vaknaði og hugsaði með sér: „Ég slít mig lausan og kemst undan eins og áður.“+ En hann vissi ekki að Jehóva hafði yfirgefið hann. 21 Filistearnir gripu hann og stungu úr honum augun. Síðan fóru þeir með hann niður til Gasa, hlekkjuðu hann með tvennum koparfjötrum og hann var látinn mala korn í fangelsinu. 22 En hárið á höfði hans óx á ný.+
23 Dag einn söfnuðust höfðingjar Filistea saman til að færa Dagón+ guði sínum mikla fórn og fagna. „Guð okkar hefur gefið okkur óvininn Samson á vald!“ sögðu þeir. 24 Þegar fólkið sá hann* lofaði það guð sinn og sagði: „Guð okkar hefur gefið óvininn á okkar vald, hann sem herjaði á land okkar+ og drap svo marga.“+
25 Fólkið var í svo góðu skapi að það sagði: „Sækið Samson til að skemmta okkur.“ Samson var þá sóttur í fangelsið til að skemmta fólkinu og var látinn standa á milli súlnanna. 26 Samson sagði við drenginn sem leiddi hann: „Leyfðu mér að þreifa á súlunum sem halda húsinu uppi svo að ég geti stutt mig við þær.“ 27 (Nú var húsið fullt af körlum og konum. Allir höfðingjar Filistea voru þar og á þakinu voru um 3.000 manns sem horfðu á þegar gert var grín að Samson.)
28 Síðan hrópaði Samson+ til Jehóva: „Alvaldur Drottinn Jehóva, mundu eftir mér og veittu mér styrk+ í þetta eina sinn. Guð, leyfðu mér að hefna mín á Filisteum fyrir annað auga mitt.“+
29 Samson lagði hendurnar á miðsúlurnar tvær sem héldu húsinu uppi, hægri höndina á aðra og þá vinstri á hina, og þrýsti á. 30 Hann hrópaði: „Láttu mig deyja með Filisteum!“ Síðan ýtti hann á súlurnar af öllu afli og húsið féll yfir höfðingjana og alla sem í því voru.+ Þannig drap hann fleiri þegar hann dó en hann hafði drepið alla ævi.+
31 Bræður hans og öll föðurfjölskylda komu til að sækja hann. Þau fóru með hann upp eftir og jörðuðu hann milli Sórea+ og Estaól í gröf Manóa+ föður hans. Hann hafði verið dómari í Ísrael í 20 ár.+