Önnur Mósebók
31 Jehóva hélt áfram og sagði við Móse: 2 „Ég hef valið* Besalel+ Úríson, sonar Húrs, af ættkvísl Júda.+ 3 Ég fylli hann anda Guðs og gef honum visku, skilning og færni í alls konar handverki 4 til að hanna listræna hluti, til að smíða úr gulli, silfri og kopar, 5 slípa steina og greypa þá í umgjarðir+ og smíða alls konar hluti úr tré.+ 6 Honum til aðstoðar hef ég tilnefnt Oholíab+ Akísamaksson af ættkvísl Dans og ég legg visku í hjörtu allra sem eru verklagnir* svo að þeir geti gert allt sem ég hef falið þér:+ 7 samfundatjaldið,+ örk vitnisburðarins+ og lokið+ á hana, allan búnað tjaldbúðarinnar, 8 borðið+ og áhöld þess, ljósastikuna úr hreinu gulli og öll áhöld hennar,+ reykelsisaltarið,+ 9 brennifórnaraltarið+ og öll áhöld þess, kerið og undirstöðugrind þess,+ 10 fatnaðinn úr fínum vefnaði, hinn heilaga fatnað Arons prests, prestfatnað sona hans,+ 11 smurningarolíuna og ilmreykelsið fyrir helgidóminn.+ Þeir eiga að gera allt sem ég hef sagt þér.“
12 Jehóva sagði einnig við Móse: 13 „Segðu Ísraelsmönnum: ‚Gætið þess vandlega að halda hvíldardaga mína+ því að hvíldardagurinn er tákn milli mín og ykkar um ókomnar kynslóðir til að þið munið að ég, Jehóva, helga ykkur. 14 Haldið hvíldardaginn því að hann er ykkur heilagur.+ Sá sem vanhelgar hann skal tekinn af lífi. Ef einhver vinnur nokkurt verk á hvíldardegi skal uppræta þann mann úr þjóðinni.*+ 15 Sex daga megið þið vinna en sjöundi dagurinn er alger hvíldardagur.+ Hann er heilagur í augum Jehóva. Sá sem vinnur á hvíldardegi skal tekinn af lífi. 16 Ísraelsmenn eiga að virða hvíldardaginn. Þeir eiga að halda hvíldardaginn um ókomnar kynslóðir. Það er ævarandi sáttmáli. 17 Hann er varanlegt tákn milli mín og Ísraelsmanna+ því að Jehóva gerði himin og jörð á sex dögum en á sjöunda deginum hvíldist hann og endurnærðist.‘“+
18 Þegar Guð hafði lokið máli sínu við Móse á Sínaífjalli fékk hann honum tvær töflur með vitnisburðinum,+ steintöflur sem ritað var á með fingri Guðs.+