Bréfið til Rómverja
4 Hvað getum við þá sagt um Abraham forföður okkar? Hvað ávann hann? 2 Ef Abraham hefði verið lýstur réttlátur vegna verka hefði hann haft ástæðu til að stæra sig af því, en ekki frammi fyrir Guði. 3 Hvað segir ritningarstaðurinn? „Abraham trúði Jehóva* og þess vegna var hann talinn réttlátur.“*+ 4 Vinnandi maður fær ekki greidd laun af einstakri góðvild heldur af því að hann á rétt á þeim.* 5 Öðru máli gegnir um mann sem vinnur ekki en trúir á þann sem lýsir óguðlegan mann réttlátan. Hann er talinn réttlátur vegna trúar sinnar.+ 6 Davíð segir líka að sá maður sé hamingjusamur sem Guð álítur réttlátan óháð verkum hans: 7 „Þeir eru hamingjusamir sem hafa fengið afbrot sín fyrirgefin og syndir sínar huldar.* 8 Sá er hamingjusamur sem Jehóva* lætur ekki standa reikningsskap synda sinna.“+
9 Er þessi hamingja þá takmörkuð við hina umskornu eða geta óumskornir hlotið hana líka?+ Við segjum: „Abraham var talinn réttlátur vegna trúar sinnar.“+ 10 Hvenær var hann álitinn réttlátur? Meðan hann var umskorinn eða óumskorinn? Það var áður en hann var umskorinn, meðan hann var enn óumskorinn. 11 Og hann fékk umskurðinn sem tákn,+ innsigli sem staðfesti* að hann væri réttlátur vegna trúar sinnar meðan hann var óumskorinn. Þannig gat hann orðið faðir allra óumskorinna sem trúa+ svo að þeir gætu talist réttlátir 12 og faðir umskorinna afkomenda sinna, bæði þeirra sem halda sig við umskurðinn og þeirra sem feta í fótspor föður okkar Abrahams+ og sýna sömu trú og hann meðan hann var óumskorinn.
13 Það var ekki í krafti laga sem Abraham eða afkomendur hans fengu loforðið um að hann skyldi taka heim í arf+ heldur var það vegna réttlætis sem hlýst af trú.+ 14 Ef þeir sem halda sig við lögin ættu að fá arfinn væri trúin gagnslaus og loforðið fallið úr gildi. 15 Í rauninni vekja lögin reiði Guðs+ en þar sem engin lög eru, þar eru heldur engin lögbrot.+
16 Loforðið var sem sagt gefið vegna trúar og byggðist á einstakri góðvild Guðs+ svo að það næði örugglega til allra afkomenda Abrahams,+ ekki aðeins þeirra sem halda sig við lögin heldur einnig þeirra sem sýna sömu trú og Abraham, faðir okkar allra.+ 17 (Það er eins og skrifað stendur: „Ég hef gert þig að föður margra þjóða.“)+ Abraham fékk loforðið frammi fyrir Guði sem hann trúði á, honum sem gefur dánum líf og talar um það sem er ekki til eins og það sé til.* 18 Hann trúði með von, þó að það virtist vonlaust, að hann yrði faðir margra þjóða samkvæmt því sem sagt hafði verið: „Svona margir verða afkomendur þínir.“+ 19 Hann varð ekki veikur í trúnni þó að hann leiddi hugann að líkama sínum sem var sama sem dáinn (fyrst hann var um 100 ára)+ og að því að Sara var komin úr barneign.*+ 20 Hann trúði og efaðist ekki þar sem Guð hafði gefið honum loforð. Trúin gaf honum styrk og þannig heiðraði hann Guð. 21 Hann var algerlega sannfærður um að Guð gæti staðið við það sem hann hafði lofað honum+ 22 og „þess vegna var hann talinn réttlátur“.+
23 En orðin „þess vegna var hann talinn réttlátur“ voru ekki aðeins skrifuð hans vegna+ 24 heldur einnig okkar vegna. Við verðum álitin réttlát af því að við trúum á hann sem reisti Jesú Drottin okkar upp frá dauðum.+ 25 Hann var framseldur vegna afbrota okkar+ og reistur upp til að hægt væri að lýsa okkur réttlát.+