Fyrsta Mósebók
23 Sara lifði í 127 ár. Svo mörg urðu æviár hennar.+ 2 Sara dó í Kirjat Arba,+ það er Hebron,+ í Kanaanslandi.+ Abraham syrgði og grét Söru. 3 Síðan stóð hann upp frá látinni konu sinni, kom að máli við afkomendur Hets+ og sagði: 4 „Ég er útlendingur og bý sem aðkomumaður á meðal ykkar.+ Látið mig fá legstað hjá ykkur svo að ég geti jarðað eiginkonu mína.“ 5 Afkomendur Hets svöruðu Abraham: 6 „Hlýddu á okkur, herra minn. Þú ert höfðingi Guðs* á meðal okkar.+ Þú mátt jarða konu þína í besta grafreit okkar. Enginn okkar mun neita þér um legstað sinn til að þú getir jarðað þína látnu.“
7 Abraham stóð þá upp, hneigði sig fyrir íbúum landsins, afkomendum Hets,+ 8 og sagði við þá: „Ef þið hafið ekkert á móti því að ég jarði konu mína hér hlustið þá á mig. Spyrjið Efron Sóharsson 9 hvort hann vilji ekki selja mér Makpelahelli sem er í útjaðri landareignar hans. Hann skal selja mér hann í viðurvist ykkar fyrir fullt verð+ svo að ég geti notað hann sem legstað.“+
10 Hetítinn Efron sat þarna meðal afkomenda Hets. Hann svaraði Abraham í áheyrn þeirra og allra sem voru í borgarhliðinu+ og sagði: 11 „Nei, herra minn. Hlýddu nú á. Ég gef þér bæði akurinn og hellinn sem er þar. Í viðurvist samlanda minna gef ég þér þetta. Jarðaðu konuna þína.“ 12 Þá hneigði Abraham sig fyrir íbúum landsins 13 og sagði við Efron í áheyrn fólksins: „Ég bið þig að hlýða á mál mitt. Ég borga þér fullt verð fyrir akurinn. Taktu við því svo að ég geti jarðað konu mína þar.“
14 Efron svaraði Abraham: 15 „Hlýddu á, herra minn. Landið er 400 silfursikla* virði en hvað er það okkar á milli? Farðu og jarðaðu konu þína.“ 16 Abraham hlustaði á mál Efrons og vó honum upphæðina sem hann hafði nefnt í áheyrn afkomenda Hets, 400 sikla* silfurs samkvæmt viðurkenndri vog kaupmanna.+ 17 Landareign Efrons í Makpela, sem var nálægt Mamre, eignin ásamt hellinum og öllum trjám innan marka hennar, komst þannig 18 í eigu Abrahams í viðurvist afkomenda Hets og allra sem voru í borgarhliðinu. 19 Síðan jarðaði Abraham Söru konu sína í hellinum á Makpelaakri nálægt Mamre, það er Hebron, í Kanaanslandi. 20 Þannig festi Abraham kaup á landareigninni og hellinum frammi fyrir afkomendum Hets til að nota sem legstað.+