Fyrra bréfið til Þessaloníkumanna
2 Þið vitið auðvitað, bræður og systur, að heimsókn okkar til ykkar hefur ekki verið árangurslaus.+ 2 Okkur var misþyrmt og við þjáðumst í Filippí+ eins og þið vitið, en við tókum í okkur kjark með hjálp Guðs til að flytja ykkur fagnaðarboðskap hans+ þótt andstaðan* væri mikil. 3 Hvatningarorð okkar eru ekki sprottin af röngum hugmyndum, óhreinum hvötum eða sviksemi. 4 Guð taldi okkur hæfa til að vera trúað fyrir fagnaðarboðskapnum þannig að við tölum ekki til að þóknast mönnum heldur Guði sem rannsakar hjörtu okkar.+
5 Þið vitið að við höfum aldrei smjaðrað eða siglt undir fölsku flaggi til að græða á ykkur.+ Guð er vottur þess. 6 Við höfum ekki heldur sóst eftir heiðri frá mönnum, hvorki ykkur né öðrum. Sem postular Krists hefðum við þó getað verið fjárhagsleg byrði á ykkur.+ 7 Við vorum hins vegar mildir á meðal ykkar eins og móðir sem annast brjóstabarn sitt af alúð.* 8 Okkur þótti svo innilega vænt um ykkur að við vorum ekki aðeins ákveðnir í að gefa ykkur* fagnaðarboðskap Guðs heldur líka okkar eigið líf.+ Svo heitt elskuðum við ykkur.+
9 Bræður og systur, þið munið eflaust eftir erfiði okkar og striti. Við unnum dag og nótt til að íþyngja engu ykkar fjárhagslega+ þegar við boðuðum ykkur fagnaðarboðskap Guðs. 10 Bæði þið og Guð getið vitnað um hve trúir, réttlátir og óaðfinnanlegir við vorum í garð ykkar sem trúið. 11 Þið vitið vel að við hvöttum ykkur og hughreystum og leiðbeindum hverju og einu ykkar+ eins og faðir+ annast börn sín. 12 Þannig getið þið verið Guði til sóma+ sem kallar ykkur til ríkis síns+ og dýrðar.+
13 Þess vegna þökkum við Guði stöðugt+ því að þegar þið tókuð við orði Guðs sem þið heyrðuð frá okkur tókuð þið ekki við því sem orði manna heldur sem orði Guðs, eins og það sannarlega er, og það sýnir áhrifamátt sinn í ykkur sem trúið. 14 Þið, bræður og systur, tókuð ykkur til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu sem eru sameinaðir Kristi Jesú. Samlandar ykkar misþyrmdu ykkur,+ rétt eins og Gyðingar misþyrmdu þeim 15 og drápu meira að segja Drottin Jesú+ og spámennina. Þeir hafa líka ofsótt okkur.+ Þeir eru ekki Guði þóknanlegir heldur eru þeir mótfallnir því sem er öllum mönnum í hag 16 enda reyna þeir að koma í veg fyrir að við tölum við fólk af þjóðunum svo að það geti bjargast.+ Þannig fylla þeir sífellt mæli synda sinna. En reiði Guðs er loks komin yfir þá.+
17 Meðan við vorum aðskildir frá* ykkur um stundarsakir, bræður og systur, (líkamlega en ekki í huganum) gerðum við allt sem við gátum til að hitta ykkur augliti til auglitis því að við þráðum að sjá ykkur. 18 Já, okkur langaði til að koma til ykkar og ég, Páll, reyndi ekki bara einu sinni heldur tvisvar en Satan lagði stein í götu okkar. 19 Hver er von okkar eða gleði eða heiðurskóróna frammi fyrir Drottni okkar Jesú við nærveru hans? Eruð það ekki einmitt þið?+ 20 Þið eruð vissulega stolt okkar og gleði.